17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6165 í B-deild Alþingistíðinda. (5555)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér nú hljóðs fyrst og fremst til að gera grein fyrir fyrirvara mínum við 26. gr. frv., en langar að fara aðeins örfáum orðum um málið í heild sinni áður.

Ég var ekkert undrandi á því að koma skyldi til þessa blessaða og margumrædda gats. Ég hef haldið því fram í allmörg ár í mínum skrifum og ræðum að ekki yrði ráðið við 40–50% verðbólgu, hvað þá 130% verðólgu, öðruvísi en að menn horfðust í augu við það að ríkið yrði líka að axla sínar byrðar, þ. e. það yrði að vera halli á fjárlögum a. m. k. eitt til tvö ár til þess að þetta reyndist unnt. Mér hefur verið það alveg ljóst frá því að þessi stjórn var mynduð að halli hlyti að verða. Það gat ekki öðruvísi farið. En ég tel þetta ekkert mikinn halla og ekkert hættulegan. Hann byggist raunar á því að samið var um launahækkanir og launaskrið hefur orðið, ætli það nálgist ekki 15%, og það er gert ráð fyrir 5% gengissigi. En það hefur verið kenning mjög margra, þ. á m. merkra hagfræðinga, að ríkissjóð þurfi helst að reka hallalausan, þó segi ég nú ekki að það séu margir hagfræðingar sem haldi því fram að það þurfi alltaf svo að vera. Ríkið á auðvitað að reka með rekstrarafgangi í góðæri, en þegar á móti blæs þá á ríkið að axla byrðarnar með fólkinu og þá á að reka ríkissjóð með halla.

Ég hef haldið því fram að æskilegast væri að lækka neysluskatta til þess að sigrast á verðbólgu miklu fremur en að hækka laun, þ. e. lækka verðlag til að mæta kjaraskerðingu fólksins, og það þýðir auðvitað einhvern halla á ríkissjóði á meðan sjúklingurinn er að ná bata. Þetta er í mínum huga mjög einfalt mál, ef maður kastar fyrir róða rígbundnum kennisetningum og hugsar þetta bara út frá heilbrigðri skynsemi.

Ég hef haldið því fram líka, og því hafa hagfræðingarnir ekki mótmælt þau sex ár sem ég hef átt í orðaskiptum við þá, að ríkisútgjöldin væru raunar ekki neitt annað en launagreiðslur annars vegar, beinar og óbeinar, og hins vegar gengisbreytingar, þ. e. gengislækkanir. Ef laun hækka mikið og gengi lækkar mikið aukast útgjöld ríkisins auðvitað að sama skapi sem tekjurnar gera þegar lagðir eru á nýir skattar. Þetta er náttúrlega miklu lengra mál en að út í það verði farið hér og væri gaman að ræða það einhvern tíma síðar meir í rólegheitum. En af því að tilviljun olli því að ég fór að glugga hér í Hagmál, sem útbýtt var hér í dag, og rakst á grein Jónasar H. Haralz þar sem hann fjallar um þessi mál og þessa þróun á undangengnum áratugum, þ. á m. „monetarismann“ margumrædda, sem tröllriðið hefur Vesturtöndum og verið orsök kreppu og verðbólgu og enn er viðhaldið á Íslandi og á jafnvel að auka, þá langar mig að fá með leyfi forseta að lesa hér örstuttan kafla úr þessari merku grein Jónasar H. Haralz. Hann segir:

„Niðurstöður þessara athugana“ — þær athuganir sem hann hefur gert, bæði erlendis og hér á landi, um þessar hagfræðikenningar margumtöluðu — „bera það með sér að rök lágu aldrei til þess að hagstjórn gæti skilað þeim árangri sem menn gerðu sér vonir um eða jafnvel töldu að náðst hefði. Í fyrsta lagi hafa tök ekki verið á því að sjá fyrir hagþróun eða breytingar á henni. Þrátt fyrir alla þá tækni sem tekin hefur verið í notkun í þessu skyni hafa forspár reynst í meira lagi óáreiðanlegar og jafnvel því fremur sem tæknin hefur orðið fullkomnari. Í öðru lagi hafa þau tæki sem beitt hefur verið reynst seinvirk og árangur þeirra oft á tíðum minni en ætlað hafði verið. Aðgerðir í fjármálum, hvort sem er á útgjalda- eða tekjuhlið, hafa verið svo lengi í undirbúningi að þær hafa oft orðið til að magna hagsveifluna í stað þess að draga úr henni. Hækkun eða lækkun tekjuskatts, sem talin var fljótvirk leið til áhrifa, hefur valdið breytingum sparnaðar frekar en útgjalda.

Um stjórn peningamála gildir svipuðu máli að öðru leyti. Aðgerðir hafa hvað eftir annað komið á röngum tíma. En meira máli skiptir þó að samhengi á milli peningamagns og hagþróunar hefur reynst óákveðnara og flóknara en menn gerðu sér í hugarlund.

Í þriðja lagi hefur framkvæmd hagstjórnar reynst háð miklum stjórnmálalegum annmörkum. Stjórnmál fylgja sínum eigin lögmálum, hafa sinn eigin þróunarferil.“

Ég skal ekki lesa meira. Þetta nægir til þess að menn skilji að þessi merki hagfræðingur, einn merkasti hagfræðingur okkar lands, hefur gert sér grein fyrir þeim annmörkum sem verið hafa á hagstjórn, bæði hér og einnig víða erlendis.

En ástæðan til þess að ég er mjög eindreginn andstæðingur þess að veita Seðlabanka heimild til að auka enn bindingu sparifjár er sú að ég tel að það mundi leiða til hins mesta ófarnaðar. Seðlabankinn hefur nú heimild til að frysta — og frystir — 28% sparifjáraukningar. 4–5% ganga til Framkvæmdastofnunar, það eru sem sagt upp undir 33%, og síðan á að fá heimild til að bæta þar við 10% þannig að heildarfrystingin yrði nálægt 43% alls sparifjár þjóðarinnar. Það er auðvitað algjörlega fáránlegt að ætla sér að stuðla að slíkri peningamálastjórn — peningamálaofstjórn, vildi ég segja.

Svo gerist það nú í gær að Seðlabankinn sendir út tilkynningu, sem ég náði nú reyndar ekki fyrr en í morgun, og þá er læðst aftan að mönnum, þá á að skerða endurkaupalán afurðavíxla fyrir atvinnuvegina um 5%, í áföngum að vísu á 2–3 mánuðum, en hins vegar halda allri sparifjárbindingunni. Það var einmitt þetta sem fyrrv. fjmrh. var að'spyrja hæstv. fjmrh. um hér áðan. Og ég vil gjarnan nota tækifærið til að svara fyrir mig, að mér finnst þetta algjörlega fáránlegt og geti ekki til greina komið og algjört lágmark sé að fella þessa grein, 26. gr. frv. Ég hefði haft tilhneigingu til að ganga lengra og að Alþingi beinlínis setti lög um það að Seðlabankinn mætti ekki binda meira en 23% úr því að hann ætlar að skerða endurkaupin um 5%. En ég geri nú ekki um það till. hér við 2. umr., hvort sem ég hugsanlega geri það við hina 3.

Þannig er raunar komið að flestallir hagfræðingar og stjórnmálamenn hafa algjörlega horfið frá þessum kenningum, sem nefndur hefur verið „monetarismi“, sem raunar enginn getur nú skýrt hvað er, en það er ofstjórnarbrjálæði.í peningamálum, ef það er rétt nefnt, þ. e. að halda að hægt sé að stjórna öllum hlutum með því að stjórna einhverri prentvél seðlanna. Seðlar eða peningar eiga auðvitað ekki að vera neitt annað en ávísanir á raunveruleg verðmæti og geta aldrei orðið neitt annað. Og sjálfur Jóhannes Nordal segir af sinni víðsýni í tímariti í fyrra á þess leið, með leyfi forseta hann er að svara þar spurningum sem tímaritið beinir til hans um hugmyndir merkra hagfræðinga, Hayeks og Buchanans:

„Einnig er rétt að benda á það, eins og margir hafa gert, hversu erfitt muni reynast að skilgreina í stjórnarskrá merkingu þeirra hugtaka sem hér er um að ræða. Þótt peningamagn sé t. d. hugtak sem allir hagfræðingar nota er nákvæm skilgreining þess varla hugsanleg svo að óyggjandi sé. Þar að auki hefur eðli peningamagns tekið sífelldum breytingum eftir því sem greiðsluvenjur og greiðslutækni hefur breyst. Það er jafnvel hugsanlegt að næsta kynslóð eigi eftir að lifa í allt að því seðlalausu þjóðfélagi og hvaða gildi hefðu þá þær takmarkanir á seðlaprentun sem settar væru í stjórnarskrá við núverandi aðstæður?“

Það er raunar alveg ljóst að það verða engir peningar í umferð. Þeir eru að hverfa úr umferð í viðskiptum. Viðskipti eru að koma meira og minna inn í fjarskipti, millifærslur og fara auðvitað meira og minna í tölvur líka. Það verður kannske svo innan 10–20 ára að engir peningar verða til nema hugsanlega einhverjir plastpeningar sem menn nota í strætó, og það má skammta þá fyrir mér. En þetta mál er sem sagt þannig vaxið að það frjálsræði sem er að skapast í peningamálum núna er algjörlega vonlaust og hin gjörbreytta stefna, þar sem verðbólgu hefur verið náð niður fyrir vaxtarfótinn, mun hrynja til grunna ef þessi ofstjórn í peningamálum heldur áfram. Ég tala nú ekki um hvað gerast mundi ef hún yrði aukin. Á því ætla ég ekki að bera ábyrgð. Ég hlýt að berjast gegn þessari grein og þessari stefnu af fullum krafti.

Þetta mál kom til umræðu á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. og þar upplýsti raunar fulltrúi Seðlabankans, aðstoðarbankastjóri Bjarni Bragi Jónsson, að þetta væri ekki frá Seðlabanka komið. En þeir ætla nú að beita því með þessum hætti samt, eins og við kynntumst í fréttatilkynningunni, sömu aðferðinni.

Í fjh.- og viðskn. gat Jón Sigurðsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, þess að þeir sem stýrðu fjármálum þjóðarinnar þyrftu að hafa verkfæri í höndum, eins og hann orðaði það og þetta væri verkfæri sem þeir vildu hafa í höndum. Ég gat nú ekki stillt mig um að benda þessum ágæta manni á að þetta verkfæri og þvílík hefðu þeir nú haft í höndum meira og minna síðasta áratug með þeim afleiðingum að verðbólgan var komin upp í 130%. Það er raunar í grg. með frv., þar sem rætt er um 16. gr., beinlínis getið um að þetta tæki hafi verið hér frá 1980–1983, einmitt á árunum þegar allt kollsteypist, þá höfðu þeir öll þessi verkfæri sem þeir eru að biðja um að fá aftur núna.

Ég ætla ekki að orðtengja þetta, en ég vona, og treysti raunar, að þessi deild muni fella þetta ákvæði út úr frv.