17.05.1984
Efri deild: 104. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6171 í B-deild Alþingistíðinda. (5558)

340. mál, ráðstafanir í ríkisfjármálum

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það mætti um þennan svokallaða bandorm hæstv. ríkisstj. hafa býsna mörg orð, en kannske er ekki sérstök ástæða til þess við þessar aðstæður að hafa um frv. mjög langt mál, enda hefur frsm. minni hl. gert skilmerkilega grein fyrir sjónarmiðum okkar sem skipum minni hl. Engu að síður tel ég rétt og skylt að segja nokkur orð við þessa umr. um það mál sem nefnist frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum, peninga- og lánsfjármálum árið 1984.

Ef eitthvað er er þetta frv. viðurkenning á uppgjöf ríkisstj. Þetta er skipbrot eftir tæpt ár. Þetta er skipbrot eftir tæpt ár sem þessi stjórn hefur setið að völdum. Allt ber frv. þess merki að þessi mál standa á brauðfótum. Það kom berlega í ljós á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. efri og neðri deildar, þegar var verið að fjalla um þær greinar frv. sem gera ráð fyrir minnkandi kostnaðarþátttöku almannatrygginga í t. d. tannviðgerðum, að þar bar aldeilis ekki saman þeim útreikningum sem var að finna í frv. og þeim tölum sem sérfræðingar Tryggingastofnunarinnar töldu réttastar. Þar munaði ærið miklu. Ég hygg því að ekki sé ýkjamikið að marka þær tölur sem hér eru nefndar um sparnað.

Hér er gert ráð fyrir að auka enn verulega erlendar lántökur, 2000 millj. kr., þrátt fyrir allar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um að ekki skuli auknar erlendar lántökur. Ég minni á þau orð sem varaformaður Sjálfstfl. viðhafði á frægum fundi á Seltjarnarnesi um þá útreikninga sem gerðir voru í sambandi við þessar lántökur — ja, kannske til þess að bjarga andlitinu ef svo mætti segja. Ég hygg að hæstv. fjmrh. séu þau ummæli mætavel kunn og það sem varaformaður flokks hans sagði á þeim fundi.

Hér er gert ráð fyrir að tekin skuli erlend lán til að greiða barnsmeðlög. Ég hygg, þó ekki skuli nú um það fullyrt, að nú hafi ríkisstj. komið sér inn í heimsmetabók Guinnes vegna þess að það er áreiðanlega einsdæmi í veröldinni að nokkurt ríki hafi tekið erlent lán til að greiða skuldir vegna barnsmeðlaga. Hvers konar kerfi er það sem leiðir út í slíkar ógöngur? Ég hygg að þetta muni vera algjört einsdæmi.

Ef ég man rétt stendur í stjórnarsáttmála þessarar hæstv. ríkisstj. að erlend lán skuti aðeins tekin til arðbærra framkvæmda. Vissulega má með nokkrum hætti segja að barneignir séu arðbærar framkvæmdir og vonandi eru þær það öllum okkar. En er ekki heldur langt gengið að taka erlend lán í þessu skyni? Þetta hygg ég að alveg örugglega muni vera einsdæmi.

Það eru auðvitað ýmis fleiri ákvæði sem hér mætti sérstaklega gera að umtalsefni. Hæstv. fjmrh. hefur oftlega lýst því yfir að hann muni fremur standa upp af stólnum en auka erlendu lánin og hækka skattana.

Hvort tveggja þetta hefur nú gerst. Erlendu skuldirnar hafa verið auknar og skattarnir hafa verið hækkaðir og enn situr hæstv. fjmrh. sem fastast og sýnir hvergi á sér neitt fararsnið. Það er talandi dæmi um hve mikið er yfirleitt að marka yfirlýsingar hæstv. ráðh.

Við Alþfl.-menn erum andvígir þessu frv. vegna þess að hér er ekki á neinn hátt verið að takast á við vandann. Það er einungis verið að velta honum á undan sér og engin tilraun gerð til að ráðast að rótum hans með þeirri kerfisbreytingu sem nauðsynlegt er að eigi sér stað í þessu þjóðfélagi ef því á að verða stjórnað af viti. Það er þegar búið að vekja hér athygli á ýmsum atriðum af hálfu talsmanna stjórnarandstöðunnar og ég skal svo sem ekki fara að endurtaka það. (Gripið fram í.) Nei, ég get komið aftur að þeim fræga fundi, hæstv. fjmrh., það er alveg sjálfsagt að gera það síðar. — En á sameiginlegum fundi fjh.- og viðskn. efri og neðri deildar var verið að ræða um þá lækkun ríkisútgjalda sem er ráðgerð skv. 1. gr. þessa frv. Hagsýslustjóri var að því spurður hver raunin hefði orðið þegar slík ákvæði hafa verið sett í lög um sparnað af þessu tagi, hvort tekist hefði að framkvæma hann. Og svör hans voru ákaflega skýr. Hann sagði: Þegar um er að ræða framkvæmdaliði sem ekki var byrjað á hefur þetta tekist, en þetta hefur ekki tekist þegar um hefur verið að ræða sparnað í rekstri. Ég hygg að þetta hafi komið alveg skýrt fram hjá hagsýslustjóra á þessum fundi og geta væntanlega aðrir nm. vitnað hér um það. Ég bendi því á að þær tölur sem hér eru nefndar, bæði að því er varðar Tryggingastofnun ríkisins og greiðslurnar vegna tannlæknaþjónustu, skyldu menn ekki marka, miðað við þær upplýsingar sem fram komu á sameiginlegum fundi n., vegna þess að í ljósi þess sem þar var sagt er hreinlega ekkert að marka tölurnar sem eru í þessu frv.

Það er svo auðvitað staðreynd að hér er með ýmsum hætti verið að koma sjúklingaskattinum, sem á sínum tíma var kveðinn niður hér, inn aftur í ýmsu formi með því að leggja auknar byrðar á þá sem þessarar þjónustu njóta.

Enn eitt ákvæði þessara laga fjallar um útflutningsbætur. Það er nú ljóst að þær 280 millj., sem til þeirra eru ætlaðar í fjárlögunum, munu hvergi nærri duga, heldur verður að hækka þá tölu um 70–80%, þannig að bæturnar verða hátt í 500 millj. kr. á þessu ári. Samtímis því sem þetta gerist eru engar áætlanir uppi um að við fetum okkur út úr þessu ólánskerfi sem æ fleiri taka nú undir að geti ekki lengur gengið. Það eru engar áætlanir uppi um það. Að vísu er þó rétt að geta þess að hæstv. forsrh. tók þannig til orða á fundi framsóknarmanna norður á Akureyri fyrir tveimur vikum eða svo, að hann tók þar tillögur okkar Alþfl. manna og talaði um þær með þeim orðum að þeim væri nauðsynlegt að hrinda í framkvæmd. Þá bar nú nýrra við, enda varð þeim flokksbræðrum hans þannig við að þeir gátu ekki lokið efnisafgreiðslu málsins og urðu að fresta því öllu fram á haust. Það væri fróðlegt að heyra í þessum umr. hvort hæstv. landbrh. er sammála formanni sínum og þeim ummælum sem hann lét falla á Akureyri. Ef svo er þá er það vissulega ánægjuleg hugarfarsbreyting. (Gripið fram í.) Já, það hafa allir sagt það, en þegar tillögur hafa komið fram á Alþingi, eins og frá okkur Alþfl.-mönnum, um að við reyndum að koma okkur út úr þessu á svona fimm árum til að byrja með með raunhæfum hætti, þá hafa menn jafnan greitt atkv. á móti því. Þær till., sem við höfum borið fram í þessu efni, hafa verið fyllilega raunhæfar. Þar hefur meira að segja verið gert ráð fyrir að það fjármagn, sem þannig sparaðist fyrst í stað, rynni til landbúnaðarins. Þetta er auðvitað ein af þeim skekkjum í þessu gallaða kerfi sem verður að leiðrétta og sem ekki er hægt að viðhalda. Það er öllum ljóst og það gefst væntanlega tækifæri hér síðar á þessum fundi, ég ætla ekki að gera það undir þessum lið, til að ræða fleiri og miklu alvarlegri eða jafnalvarlegar skekkjur í þessu landbúnaðarkerfi okkar, þar sem æ fleirum verður nú ljóst að sú gagnrýni, sem við Alþfl.-menn höfum haldið uppi á þetta kerfi, hefur við veigamikil rök að styðjast og á fullan rétt á sér og þær till., sem við höfum borið fram til úrbóta, mundu breyta þessu verulega. Ég veit að fyrr eða síðar ná þær fram að ganga. Ég veit það vegna þess að ef menn ætla að taka á þessum málum með skynsemi verður að taka upp breytt vinnubrögð.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. Þetta frv. er staðfesting á uppgjöf ríkisstj. Það er enginn vandi leystur með þessu. Menn velta vandanum hér á undan sér. Þess verður skammt að bíða, væntanlega á næsta hausti eða svo, að fram komi annað frv. í svipuðum dúr þar sem hæstv. fjmrh. leggur til enn auknar lántökur og þá verður kannske búið að búa til nýja þjóðarteknaspá þannig að tölurnar hans raskist nú ekki og hann þurfi ekki að hverfa úr ráðherraembætti þess vegna. Allt er þetta hægt að reikna með búmannslegum hætti, eins og það var orðað á fundinum fræga á Seltjarnarnesi ef ég man rétt, og vitna nú í Morgunblaðið eftir minni.

En við Alþfl.-menn erum andvígir þessu frv. og það mun koma fram í þeirri atkvgr. sem hér fer fram á eftir.