17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6181 í B-deild Alþingistíðinda. (5593)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins til skýringar. Í þetta frv. til lögræðislaga hefur verið lögð mikil vinna í n. Ég tel að við höfum í allshn. Nd. unnið af miklum drengskap. Við höfum, stjórnarandstaðan, unnið nú síðustu daga við að koma hverju málinu af öðru fram, hvort sem um var að ræða stjfrv. eða hin ýmsu frv. einstakra þm. Við höfum lagt nótt við dag við það. Í þessu tilviki var um að ræða mjög merkilegar breytingar á frv. til lögræðislaga sem eru til mikilla réttarbóta fyrir þá sem svipta þarf lögræði, og við vorum öll sammála um að þessar breytingar væru til mikilla bóta.

Þær fengu hins vegar að mínu viti ekki mikla skoðun í Ed. og frv. var sent svo til óbreytt til baka. Ég tel það afskaplega ósanngjarnt að n., sem lagt hefur þá miklu vinnu sem hér um ræðir í þetta frv., fái ekki tækifæri til þess að fjalla um það. Ég held að það hafi ekki hvarflað að formanni n. að kalla n. ekki saman vegna þessara breytinga. Það sem gerðist hér er því ákaflega kyndugt. Það hlýtur að hvarfla að manni hvort það var hreinlega með vilja gert. Reyndur forseti, eins og hv. þm. og hæstv. forseti, hefði auðvitað átt að benda formanni n. á að biðja um frest á málinu, svo einfatt var það. Við höfum unnið hér af miklum drengskap í báðum deildum og Sþ. Það er mikið að gera og menn átta sig kannske ekki í augnablikinu á hvernig best er að bjarga málum. Það er hlutverk hæstv. forseta að benda þm. á þá leið sem vænlegust er og hér var um það að ræða að formaður fengi frest á málinu. Ég vænti því þess að hv. þm. fallist á að þetta mál fái þann frest sem það átti að fá þegar í upphafi.