17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6183 í B-deild Alþingistíðinda. (5596)

Um þingsköp

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég held að það sé kappsmál okkar allra nú, þegar yfir vofir að þingi ljúki senn, að ná sem bestri samstöðu um afgreiðstu þeirra mála sem enn liggja fyrir þinginu. Mér sýnist að það liggi fyrir að sú n., sem hefur þetta mál til umfjöllunar eða gæti haft það til umfjöllunar, hafi óskað eftir því að fá að fjalla um það. Í sjálfu sér er það ekki nema von að þegar svona stendur á geti það gerst að ósk af þessu tagi verði út undan. En jafnvel þó að fyrir því séu engin fordæmi í þingsögunni held ég að þinginu væri hollara við þessar aðstæður að skapa nýtt fordæmi. Ég veit að forseti er í ákveðnum vanda. Mátið hefur í sjálfu sér verið afgreitt, eins og ýmsir hafa áður bent á. En ég tel ekki að neitt sé því til fyrirstöðu að forseti láti þingið sjálft, þessa deild, úrskurða um það hvort hún vilji láta þá atkvæðagreiðslu, sem þegar hefur farið fram, ógilda liggja og vísa málinu til þeirrar n. sem hefur óskað eftir að fjalla um það og er vissulega til þess bær. Ég beini því til forseta, til þess líka að greiða fyrir þingstörfum, að skapa hér nýtt fordæmi og taka það upp og bera það undir þessa hv. deild hvort hún sé reiðubúin til þess að láta þá atkvæðagreiðslu, sem þegar hefur farið fram, hjá líða, láta hana ógilda liggja og vísa málinu til þeirrar n. sem svo gjarnan vildi um það fjalla og hafði þegar borið fram ósk um það.

Ég tel ekki að það hafi gerst neitt hættulegt í þingsölum og við sköpum fordæmi af þessu tagi við þær aðstæður sem nú rísa. Ég beini því enn og aftur til forseta að bera það undir deildina hvort hún vilji láta þessa atkvæðagreiðslu standa eða ekki, hvort hún vilji gefa þeirri n., sem gjarnan vildi um þetta mál fjalla, tækifæri til þess, eins og ég er viss um að við hefðum öll samþykkt við aðrar aðstæður.