17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6184 í B-deild Alþingistíðinda. (5598)

Um þingsköp

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eftir að hafa ráðgast við skrifstofustjóra Alþingis er ég þeirrar skoðunar að málið verði ekki tekið upp að nýju eftir að því er lýst sem lögum frá Alþingi. En engu að síður sýnist mér sú till., sem kom fram frá hv. 3. þm. Reykv., athugunarverð og rétt að forseti ásamt skrifstofustjóra Alþingis athugi mjög vandlega hvort nokkur slík fordæmi liggja fyrir. Ég er ekki sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að það sé skaðlaust að taka málið upp og skapa þannig nýtt fordæmi. Ég held að við eigum að vara okkur mjög á því og þurfum að athuga til hlítar hvort fordæmi eru fyrir hendi.

Ég legg eindregið til að niðurstöðu í þessu máli verði frestað og dagskrá haldið áfram og forseti fái jafnframt tækifæri til að skoða málið betur en unnt hefur verið til þessa.