17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6184 í B-deild Alþingistíðinda. (5599)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Það er að sjálfsögðu rétt að skrifstofustjóri Alþingis hefur mikinn tillögurétt um það hvernig forseti kynni að úrskurða mál, hann er sérfræðingur á því sviði. En eigi að síður er úrskurðarvaldið í höndum forseta og svo mun verða áfram. Vegna athugasemda sem fram hafa komið hef ég boðið upp á það sem forseti að þetta mál verði kannað nánar. Að sjálfsögðu vildi ég hafa nánar samráð við skrifstofustjóra Alþingis um það efni og ég vænti þess að hv. þd. geti fallist á þá till. mína sem ég tel reyndar að hafi verið tekið undir af hv. 3. þm. Reykv. og þá ekki síður af hv. 3. þm. Reykn. Þess vegna mun ég nú mælast til þess við hv. þdm. að tími vinnist til að kanna þetta mál nánar og að úrskurðar verði að vænta síðar á fundinum, en að við getum haldið áfram nú eins og dagskráin segir til um. (Gripið fram í.) Það verður engin atkvæðagreiðsla núna að öðru leyti en því að forseti hefur áhuga á því að taka fyrir 8. dagskrármálið, kvikmyndamál.