10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var fyrir rúmum 10 mín. að stjórnarandstaðan frétti af því að ríkisstj. hygðist gera breytingar á frv. til staðfestingar á brbl. um launamál, sem voru gefin út 27. maí í vor. Þessi afstaða ríkisstj. var kynnt á fundi í fjh.- og viðskn. Nd. núna áðan, þannig að fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa ekki haft ráðrúm til að fara yfir þann texta, sem hér liggur fyrir, í einstökum atriðum. M.a. tókst ekki að boða nefndarmann eins stjórnarandstöðuflokksins á þann fund fjh.- og viðskn. Nd. sem hér um ræðir. Síðan kýs hæstv. forsrh. að lesa upp hér þessa yfirlýsingu án þess að greina stjórnarandstöðunni frá því hvað standi til. Engin boð höfðu komið um það til stjórnarandstöðunnar að fjalla ætti um þetta mál hér sérstaklega.

Ég vek athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að mér finnst hér furðulega að málum staðið. Ég tel hins vegar vonum seinna að ríkisstj. átti sig á staðreyndum í þessu máli að öðru leyti. Ég tel að sú yfirlýsing, sem hér liggur fyrir, bendi til þess að ríkisstj. hafi allan tímann verið í miklum vafa um að hún hefði meiri hluta fyrir þeim brbl. sem sett voru í vor.

Það er einstakt í sögu Alþingis að brbl. um að svipta verkalýðshreyfinguna frjálsum samningsrétti séu sett í maímánuði, eins og hér var gert á s.l. vori, og þegar kemur að því að Alþingi fái að fjalla um málið hrekkur ríkisstj. frá. Ályktunin, sem við drögum af þessu stjórnarandstæðingar og þjóðin öll, hlýtur að vera sú, að ríkisstj. hafi ekki ráðið við að koma málinu í gegnum þingið.

Það er býsna fróðleg saga að velta fyrir sér stöðu þingræðis og lýðræðis í þessu landi. Það er einnig fróðlegt að íhuga á þessari stundu hvaða aðdraganda þetta mál á að öðru leyti, hvernig þm. Sjálfstfl. einn af öðrum hafa lýst því yfir að þeir væru andvígir því að hefta samningsrétt, eins og frv. upphaflega gerði ráð fyrir, og hvernig svo það að lokum gerist að Framsfl., brautryðjandi mannréttindasviptingarinnar, virðist ætla að gefast upp, eins og þessi yfirlýsing bendir til.

Það er fagnaðarefni ef Íhaldinu hefur nú tekist að beygja Framsókn í þessu máli, en það má vera íhugunarefni einnig og það er fróðlegt til athugunar á komandi árum fyrir landsmenn alla.

Eftir stendur auðvitað það, herra forseti, að í frv. eru ákvæði sem takmarka samningsrétt verkalýðshreyfingarinnar í landinu í tvö ár. Samkvæmt 1. gr. laganna er bannað að semja um hvers konar dýrtíðaruppbætur á laun í heil tvö ár. Það er takmörkun samningsréttar og takmörkun verkfallsréttar sem því fylgir. Ég tel að hér sé um mjög alvarleg ákvæði að ræða og nauðsynlegt sé að fram komi hið fyrsta hver er afstaða Alþingis í þessu efni. Þess vegna mun ég fyrir mitt leyti og Alþb. beita okkur fyrir því að þetta mál fái hið fyrsta þinglega meðferð. En hitt verður engu að síður að láta koma hér fram, að barátta verkalýðshreyfingarinnar í þessu landi, milli 30 og 40 þúsund undirskriftir, hefur borið árangur. Það er ánægjuefni og bendir til þess að rétt sé að halda þeirri baráttu áfram og reka flóttann þar til fullur sigur er unninn.