10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

Tilkynning frá ríkisstjórninni

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í raun og veru þarf ég ekki miklu að bæta við það sem hæstv. forsrh. greindi frá í ræðu sinni áðan, en að gefnu tilefni í ræðu hv. 3. þm. Reykv. rétt áðan þykir mér óhjákvæmilegt að segja nokkur orð.

Það er fyrst varðandi þá málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, þ.e. tilkynningu ríkisstj. á þessum fundi. Um það vildi ég segja að við töldum í ríkisstj. að verið væri að sýna Alþingi sjálfsagða virðingu með því að tilkynna fyrst á þeim vettvangi ákvörðun ríkisstj. Jafnframt fannst okkur rétt að viðtakandi bréfs ríkisstj., þ.e. fjh.-og viðskn., fengi bréfið í hendur áður en þessi tilkynning kæmi hér fram. Það gat alveg eins verið t.d. á dagskrá að þetta bréf væri sent og síðan tilkynnt af forsrh. eða eftir atvikum fulltrúa ríkisstj. ákvörðun ríkisstj. á blaðamannafundi í stað þess að tilkynna þingheimi um hana í heild fyrst.

Ég held þess vegna að hér sé sjálfsögð starfsregla viðhöfð, og hvað snertir umkvörtun hv. þm. um að enginn fyrirvari hafi verið hér á hafður vildi ég benda á að hér er ekki ætlast til að fram fari efnislegar umr. um þessa brtt., sem ríkisstj. hefur bent fjh.- og viðskn. á að nyti fylgis hennar, heldur kemur málið að sjálfsögðu hér fyrir eftir að fjh.- og viðskn. hefur fjallað um málið og þá til efnislegrar umræðu við 2. umr. málsins. Í þessu falli er því einnig að fullu tillit tekið til hv. stjórnarandstöðu og því er vísað á bug aðfinnslum og umkvörtunum hv. þm. um að þess hafi ekki verið gætt að taka tillit til stjórnarandstöðunnar að þessu leyti.

Það er líka svo. að hv. stjórnarandstaða hefur gert sitt til þess að umr. við 1. umr. hér á þingi varðandi frv. til staðfestingar brbl. margumræddu hefur farið hér fram á æðimörgum fundum og að því leyti má segja að stjórnarandstaðan hafi tafið meðferð málsins. En þó vil ég taka það fram að það er ekki gagnrýnisvert af minni hálfu. Ég finn ekki að því. Mér finnst sjálfsagt að stjórnarandstaðan og aðrir þm. ræði þetta mál við 1. umr. svo lengi sem hverjum og einum þykir ástæða til og legg það ekki stjórnarandstöðu til lasts. Hins vegar finnst mér skjóta skökku við ef menn eru annars vegar að fara fram á að afgreiðslu málsins sé flýtt og hins vegar að kvarta yfir því að reynt sé að koma ákvörðunum ríkisstj. á framfæri við þingheim við fyrsta tækifæri. Málið kom ekki til nefndar fyrr en í þessari viku og var fyrst tekið fyrir á fundi fjh.- og viðskn. í gær, svo að af hálfu ríkisstj. hefur hér allur sá hraði verið á hafður sem eðlilegt er að krefjast.

Þá vildi ég víkja að þeirri staðhæfingu hv. 3. þm. Reykv, að ákvörðun ríkisstj. byggist á því að hún hafi ekki meiri hluta á Alþingi fyrir brbl., eins og þau voru gefin út 27. maí s.l. Ég mótmæli harðlega þeirri staðhæfingu og fullvissa hv. 3. þm. Reykv. sem og aðra þm. um að það var fullfrágengið að ríkisstj. hafði meiri hluta þm. fyrir brbl. áður en þau voru gefin út. Brbl. voru einn þáttur af samningum sem lágu til grundvallar myndunar þeirrar ríkisstj. sem hóf störf 26. apríl s.l. Þótt skoðanir hafi e.t.v. verið skiptar fram að þeim tíma að ríkisstj. var mynduð milli einstakra þm. innan hvors stjórnarflokksins um sig og svo e.t.v. milli stjórnarflokkanna sem slíkra, þá var úr þeim ágreiningi leyst áður en ríkisstj. var mynduð og báðir stjórnarflokkarnir höfðu skuldbundið sig til að standa að samþykkt þessara brbl. Það var ófrávíkjanlegur þáttur af stjórnarsamningi þeirra.

Sú ákvörðun sem tekin var í morgun er tekin að breyttum forsendum og með reynslu liðinna vikna og mánaða í huga og með það útlit einnig í huga sem hæstv. forsrh. lýsti áðan. Það er þess vegna allt annað mál þótt einstakir þm. hafi lýst því yfir að þeir teldu æskilegt að breyta tilteknu ákvæði brbl. Það er allt annað mál en hitt, að þeir hefðu ekki staðið við brbl. óbreytt ef svo hefði borið við að þau yrðu þannig borin undir atkvæði í þinginu. En það hefur komið fram á síðustu vikum og mánuðum að það hefur gengið eftir, sem ríkisstj. stefndi að, snögg lækkun verðbólgunnar, og af þeim ástæðum er ekki þörf á því ákvæði sem hér um ræðir og talað er um að fella niður.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp, eins og reyndar hæstv. forsrh. gerði, að bæði hæstv. forsrh. og ég fyrir hönd Sjálfstfl. höfum fyllilega tekið undir það sjónarmið að það ákvæði er varðar framlengingu samninga til 1. febr. n. k. bæri að endurmeta í ljósi þróunar mála.

Á Alþingi hinn 26. okt. s.l. komst ég svo að orði í umr. um þetta efni hér á Alþingi, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa það orðrétt upp:

„Afstaða okkar er í stuttu máli sú, að við sjálfstæðismenn stöndum að ákvæðum brbl. og berum ábyrgð á þeim og munum þess vegna standa að samþykki frv. þess sem flutt er til staðfestingar þeirra. En það liggur í augum uppi að við teljum eðlilegt og sjálfsagt að frv. fái þinglega meðferð og kannað sé hvort rétt er að falla frá eða breyta því ákvæði frv. að nýir samningar um kaupgjald taki ekki gildi fyrr en 1. febr. n. k., enda sé markmiði ríkisstj. í baráttunni gegn verðbólgu engu síður náð.“

Hæstv. forsrh. hefur áður gefið efnislega sams konar yfirlýsingu hér á Alþingi og við raunar báðir einnig á samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins. Á þeim samráðsfundi með aðilum vinnumarkaðarins lögðum við áherslu á það, sem ég hef sagt í þessum fáu orðum mínum nú, að aðilar hæfu strax viðræður um gerð nýrra kjarasamninga svo unnt væri að komast að niðurstöðu þar að lútandi — niðurstöðu sem einkum taki mið af tveim höfuðþáttum:

1. Að grundvöllur verði lagður að framfarasókn atvinnuveganna sem til þess skapaði skilyrði að bætt yrðu launakjörin í landinu með raunhæfum hætti.

2. Að nýir kjarasamningar bæru fyrst og fremst merki þess að menn kæmu sér saman um að bæta kjör hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu.

Ég skal svo leiða hjá mér efnislegar umr. að öðru leyti, en vil leggja áherslu á að allir þm. leggist nú á eitt og flýti afgreiðslu þessa frv. til staðfestingar brbl. svo að skýrar línur myndist og aðilar vinnumarkaðarins, eftir atvikum í samráði og samstarfi við ríkisstj., geti snúið sér að því að leysa málin með tilvísun til þess hve alvarlegt ástand blasir við þjóðinni.