17.05.1984
Neðri deild: 96. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6214 í B-deild Alþingistíðinda. (5628)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Í framhaldi af þessum orðaskiptum sér forseti ástæðu til að taka nú af sinni hálfu til máls um þetta sérstaka mál sem rætt var hér fyrr á fundi í kvöld. En það skeði á fundi þessarar hv. deildar að gerðar voru athugasemdir við þingsköp í þá veru að ekki hefði af forseta hálfu þess verið gætt að fá þingnefnd til nýrrar athugunar frv. sem endursent hafði verið Nd. vegna breytinga í hv. Ed. Þeirri kröfu var hreyft að atkvgr. um þetta mál, þ. e. um frv. til lögræðislaga sem hér er á dagskrá þessa fundar, yrði tekin aftur og málinu vísað til allshn. Forseti hefur tekið sér frest til að kanna sem allra nánast réttmæti þessarar kröfu og efni þessa máls. Að lokinni þeirri athugun telur forseti að ekki sé efni til að endurtaka þessa atkvæðagreiðslu. Það verður ekki séð að neinir formlegir meinbugir hafi verið á atkvgr. né þeirri yfirlýsingu forseta að málið hafi verið samþykkt sem lög frá Alþingi. Fyrir forseta var ekki lögð ósk um að vísa málinu til n. auk þess sem telja verður að með atkvgr. hafi þd. og þdm. ekki gert kröfu um slíka málsmeðferð. Þegar svo stendur á hefur forseti á valdi sínu að láta mál ganga fram án þess að því máli sé vísað til n. Með skírskotun til þessa úrskurðar forseti að atkvgr. skuli standa, svo og sú yfirlýsing að málið hafi verið afgreitt sem lög frá Alþingi.

Að öðru leyti og af sanngirnisástæðum vill forseti lýsa yfir því að honum þykir mjög miður að svo skyldi þurfa að fara að hv. 10. landsk. þm. var ekki viðstödd þegar atkvgr. fór fram, og það því fremur að hv. þm. Guðrún Helgadóttir var í góðri trú um að þetta mál fengi ekki svo skjóta afgreiðslu sem raun bar vitni. Um það atriði var forseta þó alls ókunnugt og var hann því einnig í sinni góðu trú um að hv. þdm. sættu sig við málsmeðferðina eins og að hún var.