18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6221 í B-deild Alþingistíðinda. (5655)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Davíð Aðalsteinsson):

Virðulegi forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég vil fyrst að gefnu tilefni taka undir þá gagnrýni, sem hér kom fram í deildinni og hefur raunar víðar komið fram, á þau vinnubrögð sem menn hafa neyðst til að viðhafa í þinginu þessa síðustu daga. Ég vil segja að það eigi ekki síst við um meðferð þess máls sem hér er til umr.

Nú vill e. t. v. einhver halda því fram að meiri hl. n. hafi verið í lófa lagið að ákveða að þetta mál fengi lengri umfjöllunartíma í nefnd. Það varð þó að ráði og ég vil taka fram í góðu samkomulagi í nefndinni að ljúka afgreiðslu málsins úr nefnd. Í því sambandi il ég þakka hv. meðnm. fyrir þá samvinnu og þann samstarfsvilja sem þeir sýndu. Verður ekki annað sagt en þeir hafi sýnt dæmafátt umburðarlyndi í garð okkar stjórnarliða, þeirra sem hafa það hlutskipti kannske öðrum fremur að ýta á eftir þeim málum sem hæstv. ríkisstj. hefur á sinni könnu.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki í minni framsögu fara að rekja þetta mál sem er nokkuð viðamikið. Það er örskammt síðan hæstv. félmrh. mælti fyrir málinu hér í deildinni. Ég veit að hv. þm. er vel kunnugt um meginefni þessa frv. og jafnframt um þær breytingar sem gerðar voru á frv. í Nd. Ég tel því hvorki ástæðu til þess að fara að rekja efnisþætti frv. eins og það var upphaflega lagt fram né heldur þær brtt. Enda þótt frv. hafi fengið mjög skamma umfjöllun í félmn. Ed. dettur mér ekki í hug að halda annað en að hv. þm. hér í Ed. hafi fylgst með umfjöllun málsins. Svo lengi var það til meðferðar í Nd. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en málið hafi margsinnis verið rætt í þingflokkum og jafnan á hverju umræðustigi eins og það var í deildinni. En ekki fleiri orð um það.

Tveir ágætir gestir komu á fund félmn., þeir Sigurður E. Guðmundsson og Jóhann Einvarðsson, og veittu nefndinni upplýsingar um þetta mál. Eins og fram kemur í nál. leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt óbreytt frá afgreiðslu þess í Nd. Undir nál. rita auk mín: Salome Þorkelsdóttir, Valdimar Indriðason, Egill Jónsson.

Minni hl. félmn. gerir að sjálfsögðu grein fyrir sínu áliti og þeim brtt. sem minni hl. flytur.