18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6222 í B-deild Alþingistíðinda. (5656)

123. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Helgi Seljan):

Virðulegi forseti. Hér væri vissulega ástæða til þess að setja á langa tölu. Þetta mál er þess eðlis að næstum hver einasta grein þess er þess verð að hún fengi nokkra umfjöllun af hálfu þessarar hv. þd. Ég hef hins vegar ekki hugsað mér að lengja fundi þd. umfram það sem nauðsynlegt er til þess að koma á framfæri áliti okkar í minni hl. félmn. og hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar sem þar er áheyrnarfulltrúi og er samþykkur þeim brtt. sem við flytjum sameiginlega með örfáum orðum. En ég kemst þó ekki hjá því að benda á viss atriði núna við lokaafgreiðslu þessa máls.

Í fyrsta lagi er ljóst — og kom enn skýrar fram en áður í viðtölum við þá ágætu gesti sem hv. frsm. meiri hl. gat um að hefðu komið á okkar fund — að fjármagnsóvissan er meiri nú en nokkru sinni. Það er enda vitað að nú er verið að taka erlend lán til þess að fylla upp í þá vöntun sem er hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og enn vantar að sögn hv. varaformanns Sjálfstfl. nokkur hundruð millj. til þess að unnt sé að standa við hugsanlega fjárþörf á þessu ári. Það mun trúlega verða nokkuð rétt sem hæstv. fjmrh. sagði hér í haust að menn yrðu bara að gera svo vel og bíða og fresta sínum framkvæmdum því að lán yrðu ekki tiltæk á þessu ári.

Í öðru lagi og í beinum tengslum við þetta er greinilegt að hið félagslega íbúðakerfi á ekki upp á pallborðið hjá stjórnvöldum nú. Það kom líka fram hjá þessum gestum okkar að ekkert nýtt er þar að gerast á þessu ári. Engar nýjar framkvæmdir á sviði félagslegra íbúðabygginga eru leyfðar á þessu ári og stórfelldur dráttur er á þeim verksamningum sem þegar hafa verið gerðir varðandi verkamannabústaðina, eða það sem nemur a. m. k. 25%.

Þriðja atriðið sem ég ætla rétt að impra á kemur einnig fram í áliti okkar í minni hl. og varðar húsnæðissamvinnufélögin og þá grátlegu sögu. Sú saga er ekki einu sinni grátbrosleg þó hún hafi verið það með köflum sem liggur að baki því máli í hv. Nd. Alþingis, sú meðferð sem hæstv. félmrh. fékk þar af hendi hv. formanns Sjálfstfl., Þorsteins Pálssonar, sem veitti honum verðuga ráðningu og sýndi honum í ríkum mæli húsbóndavald sitt yfir þessari ríkisstj. í Nd. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson gerði það reyndar einnig með því — og kem ég þá að því sem hv. frsm. meiri hl. gat um áðan — að neita tilmælum hæstv. félmrh. atgerlega um það að hafa minnsta samráð við nefnd Ed. sem átti að fjalla um þetta mál að nokkru samhliða skv. ósk hæstv. ráðh. Þetta húsbóndavald hv. þm. Þorsteins Pálssonar kemur okkur að vísu ekkert á óvart og við erum ekkert hissa á því heldur að þeir hv. þm. Framsfl. samþykki það. Það getur nefnilega verið og kemur kannske í ljós enn á ný nú á eftir að þeir fái nokkuð fyrir snúð sinn þrátt fyrir allt.

En nál., sem við höfum undirritað hér, hv. þm. Stefán Benediktsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og hv. þm. Karl Steinar Guðnason er samþykkur, er þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. félmn. harmar þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við afgreiðslu þessa þýðingarmikla stórmáls. Enginn tími hefur gefist til nefndarstarfa sem stafar af því að félmn. Nd. hafði ekkert samráð við nefndina í Ed. Slíka hraðafgreiðslu átelur minni hl. harðlega.

Undirritaðir vilja þó ekki í neinu hindra framgang þessa frv. þar sem fjölmörg atriði horfa þar til bóta. Víða er þó um fögur fyrirheit ein að ræða sem allsendis óljóst er um efndir á nú og í náinni framtíð. Fjármögnunarhliðin er hvergi nærri tryggð sem skyldi og þyrfti. Minni hl., eða einstakir nm. minni hl., munu freista þess að ná fram breytingum þeim á frv. sem taldar eru brýnastar.

Ekki er unnt að gera þessu máli nein viðhlítandi skil á svo skömmum tíma. Í nál. skal aðeins stiklað á áhersluatriðum, auk þess sem undirritaðir leggja áherslu á fjármögnunarþáttinn og betri tryggingu hans.

Vægi félagslegra íbúðabygginga í húsnæðiskerfinu verði stóraukið. Öflugur stuðningur verði veittur þeim sem nýrra leiða leita í húsnæðismálum, svo sem húsnæðissamvinnufélögunum.

Viðbótaraðstoð við hinn almenna húsbyggjanda verði tryggð sem allra best, þar taki bankarnir á sig sína eðlilegu hlutdeild og þáttur lífeyrissjóðanna verði samræmdur húsnæðiskerfinu sem best.

Að öðru leyti áskilja einstakir nm. sér rétt til að flytja saman eða sjálfstætt einstakar brtt.

Undir þetta rita nm. minni hl. félmn. og Karl Steinar Guðnason er samþykkur þessu áliti minni hl.

Á þskj. 1016 eru endurfluttar nokkrar brtt. — þó mjög fáar — af þeim sem voru fluttar í Nd. Alþingis. Þær eru fluttar af okkur fulltrúum minni hl. hér í deildinni. Ég ætla ekki að gera grein fyrir þeim efnislega, aðeins að nefna það að sú fyrsta er varðandi endurbótakostnað og orkusparnað. Þar er lagt til að Húsnæðisstofnun fái sérstakan stuðning til að stuðla að orkusparnaðarbreytingum á íbúðarhúsnæði.

Í sambandi við 2. gr. eru sett inn skýrari ákvæði um greiðsluáætlanir Byggingarsjóðs ríkisins og nú eru allir vextir af húsnæðislánum lögákveðnir. Hér er gert ráð fyrir því að ríkisstj. ákveði vexti Byggingarsjóðs ríkisins að öðru leyti en því að lán til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis og til fatlaðra vegna sérstakra breytinga á íbúðum verði vaxtalaus.

Í 3. brtt. er lagt til að vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna verði lögbundnir 0.5%.

Síðasta brtt., sem er kannske þýðingarmest og við leggjum mesta áherslu á, er um það að lánað verði til verkamannabústaða 90% lán eins og verið hefur. Þetta læt ég nægja, virðulegi forseti. Það eru ýmsar ástæður sem valda því að ég ætla ekki að flytja lengri ræðu hér, ekki bara vegna þessa máls heldur vegna annarra mála sem hér eru á dagskrá. Þar af leiðandi stilli ég mig um það að gera frekari grein fyrir því mikla máli sem hér er á ferð og vissulega snertir hag manna í þjóðfélaginu meira en flest þau mál sem hér hafa verið til umr.