18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6232 í B-deild Alþingistíðinda. (5672)

Um þingsköp

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að það fáist skýrara svar við fsp. hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Það er ekki nóg að fá þau svör að málið muni fá afgreiðslu. Við erum að spyrja að því hvort það verði látið ganga til atkv. Við höfum stytt mál okkar í dag og reynt að flýta fyrir þingstörfum, stytt mál okkar um þýðingarmikla málaflokka í því skyni að koma að því dagskrármáli sem hér er um deilt, dagskrármálinu sem nefnist Framleiðsluráð landbúnaðarins, og við væntum þess að sú tillitssemi sem við höfum sýnt hér verði metin á þann hátt að það mál sem við berum fyrir brjósti fái eðlilega afgreiðslu. Það er búið að bíða hér viku eftir viku. Þetta er mikið mál í þjóðfélaginu, mál sem skiptir alla neytendur miklu máli, og við hljótum að krefjast þess að fá skýr svör við því hvort meiningin er að svæfa þetta mál með einhverjum bolabrögðum, sem mér sýnist vera ætlunin, eða hvort það verður látið ganga til atkv. Það er ekki nóg að fá uppgefið að það muni fá venjulega afgreiðslu. Við erum að spyrja að því hvort það verði látið ganga til atkv., hvort rekið verði á eftir því nál. sem skortir og hvort við fáum hér í Ed. að taka afstöðu til málsins. Um það er spurt og það vantar svar.