18.05.1984
Efri deild: 106. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6236 í B-deild Alþingistíðinda. (5688)

82. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Það er ekki um þingsköp. Það er hér til umr. frv. til l. um ríkismat sjávarafurða. Sjútvn. þessarar hv. deildar hefur fjallað mjög ítarlega miðað við aðstæður um frv. það sem er hér til umr., frv. um ríkismat sjávarafurða. Hún kallaði á sinn fund marga aðila sem málum þessum eru kunnugir, bæði af starfsreynslu og tengslum við það kerfi sem nú er unnið eftir. Einnig fór nefndin yfir allar þær umsagnir er borist höfðu sjútvn. Nd. þegar hún fjallaði um frv. Nefndin var sammála um að mæla með samþykkt þess með nokkrum brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. og geri ég nánar grein fyrir þeim hér á eftir.

Þetta frv. felur í sér ýmsar breytingar frá fyrri lögum um fiskmat og framleiðslu sjávarafurða, margar til einföldunar en þó til bóta. Í þessum málum sem öðrum verða seint allir algerlega sammála en með frv. er leiðast við að mynda sem skýrastar línur til að vinna eftir. En lög og reglugerðir í þessum veigamikla málaflokki hljóta ávallt að verða til endurskoðunar, m. a. vegna markaðsaðstæðna og breytinga þar, svo og einnig af fenginni reynslu í framkvæmd. Allt eftirlit og kröfur með gæðum og framleiðslu þurfa ávallt að vera í hámarki varðandi þessa verðmætu útflutningsvöru okkar.

Ég fer ekki hér út í einstakar greinar frv. en ætla að fara nokkrum orðum um það almennt vegna þeirra umr. sem urðu í n. eftir viðtöl við ýmsa þá aðila sem komu á fund hennar. Ég tek þetta fram hér svo að það megi verða til ábendingar fyrir þá sem koma til með að vinna að samningu reglugerðar út frá þessu frv. ef að lögum verður. Nefndin hélt sinn síðasta fund í morgun. Í öllum þeim önnum sem hér hafa verið í dag vannst lítill tími til þess að ganga frá nál. sem hér er búið að bera fram. Ég vil í fyrsta lagi biðja nefndarfólk afsökunar á því að það féll niður hjá mér þegar ég samdi nál. sérstök ályktun sem þar átti að vera, ábending frá verkendum saltsíldar sem ekki var talið rétt að væri í lögum en átti að vera í nál. Vil ég taka það sérstaklega fram en það átti að hljóða svo:

„Vegna sérstöðu saltsíldarframleiðslunnar skal útflutningsmat saltaðrar síldar framkvæmt á vegum Ríkismats sjávarafurða sem jafnframt skal annast eftirlit með verkun og söltun síldarinnar, hvort tveggja skv. sérstakri reglugerð sem sjútvrh. setur um saltsíldarmat og eftirlits- og leiðbeiningarstarfsemi með söltun síldar.“

Nefndin vill að það komi skýrt fram að þetta er hennar ábending í sambandi við umsögn um þetta frv. vegna þess að þarna er um að ræða saltsíldarsölur okkar og framleiðslu sem er einn af okkar stærstu þáttum í útflutningi sjávarafurða. Þó að það komi mörgum kannske spánskt fyrir sjónir þá held ég að ég muni það rétt að forstjóri síldarútvegsnefndar sagði að Íslendingar væru aðrir stærstu í saltsíldarmörkuðum heimsins næst Rússlandi. En það er einhvern veginn svo að okkur er tamt að líta þannig á hér á Íslandi að saltsíldarframleiðsla sé orðin smámunir í okkar þjóðarbúskap. Alltaf er miðað við gömlu árin sem menn sjá í hillingum vegna þeirrar miklu síldarsöltunar sem þá var, en hún hefur verið meiri undanfarið en þá var og er einn af stærstu þáttum í okkar útflutningi. En þar sem við leggjum áherslu á ríkismatið í þessu sambandi er því örugglega úttekt þar sem felst þó í lagafrv. Þetta er sem sagt undirstrikað vegna þess að þessi síld er að langmestum hluta seld til Austur-Evrópulanda eins og hv. alþm. er kunnugt og þar er lagt mikið upp úr því að þetta mat sé eftir föstum reglum og með réttum stimplum, ef svo má segja, og er sjálfsagt að verða við þessum óskum þessara viðsemjenda okkar því að þeir hafa bókstaflega bjargað þessum markaði, undanfarin 2–3 ár a. m. k.

Einnig vildi ég benda á í sambandi við væntanlega reglugerð að skilgreina þyrfti betur það atriði í lögunum sem fjallar um hreinlæti sem var í verkahring búnaðardeildar skv. þeim lögum sem nú er unnið eftir. Það er talað um að þar sé sérstakur sérfræðingur í hreinlætismálum er starfi hjá Ríkismatinu. Ég held að nauðsynlegt sé að gerð séu gleggri skil á því hvernig hans störfum og þeirra manna sem með honum starfa skuli háttað því að þessi grein er undirstaða þess að hægt sé að stunda vandaða vinnslu og gæta öryggis í þeim efnum. Þar er undirstaðan sú að fyllsta hreinlætis sé gætt og hóflegar kröfur gerðar í þeim efnum. Um það er alltaf mikið spurt í okkar markaðslöndum hvernig þeim málum sé varið.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta í viðbót því að tími var skammur til þess að gera þessu mikla máli öllu gleggri skil, enda var fjallað um þetta í Nd. og þar kom margt fram. En eins og ég sagði í upphafi mæla allir nm. með því að frv. verði samþykkt. Einn nm., hv. þm. Skúli Alexandersson, skrifaði undir með fyrirvara og leggur fram nokkrar brtt. sem hann vill minna á, svo að ég orði það þannig, en hann er samþykkur þeim atriðum í frv. sem hér eru sett fram.

Brtt. eru lagðar fram á þskj. 1020 og ætla ég að fara yfir þær. Í fyrsta lagi er lagt til að við 16. gr. frv. að í stað orðsins „Ráðuneytinu“ í 3. mgr. komi: Ríkismat sjávarafurða. Við 16. gr. aftan við þessa 3. mgr. er lagt til að komi viðbót sem hljóðar svo: „Verði meiri háttar mistök í meðferð sjávarafla og/eða framleiðslu sjávarafurða skal Ríkismat sjávarafurða framkvæma ítarlega rannsókn á orsökum þess og gefa sjútvrh. og fiskmatsráði skriflega skýrslu um tildrög og orsakir mistakanna.“ Þetta vildi nefndin að kæmi hér inn vegna þess að því miður hafa oft orðið slys í okkar framleiðslu sem ekki er gott að vita af hverju stafa. Segja má að með þessu móti sé sett á stofn nokkurs konar slysanefnd til að athuga og læra af þeirri reynslu sem fengist hefur. Þetta er komið upp á borðið þannig að með þessu er hægt að leiðbeina öðrum svo að þeir falli ekki í sömu gryfju og hinir hafa fallið í sem urðu fyrir þeim mistökum sem þarna hafa átt sér stað.

Við 16. gr. 4. mgr. er lagt til að hún orðist svo: „Ráðuneytið setur nánari reglur um skilyrði fyrir sviptingu og endurveitingu vinnsluleyfa.“ Í frv. er talað um sviptingu og veitingu vinnsluleyfa en þarna hlýtur að eiga betur við að segja endurveitingu vinnsluleyfa þegar á annað borð er búið að taka það af.

Í 18. gr. 2. mgr. stendur í frv.: „taka þátt í yfirmati“ en við leggjum til að þarna komi: fylgjast með yfirmati. Fleiri brtt. leggjum við ekki til og vona ég að þetta frv. fái afgreiðslu sem fyrst í þessari hv. deild. Það þarf að fara aftur til Nd. ef þær breytingar sem við höfum lagt til að gerðar verði verða samþykktar. Þar sem þetta er að ég best veit síðasti fundurinn í sjútvn. á þessu þingi vil ég aðeins færa samstarfsfólki mínu mjög góðar þakkir fyrir gott samstarf og umburðarlyndi. Það hefur unnið mikið og vel í allan vetur í þessari nefnd.