18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6249 í B-deild Alþingistíðinda. (5694)

136. mál, hafnalög

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég hef rætt þetta mál við bæði hv. flm. og enn fremur kannað afstöðuna í Ed., hvernig á því hafi staðið að þetta ákvæði var tekið út. Mér er tjáð af bæði nefndarmönnum og öðrum, sem þar eiga sæti, að þó að þetta ákvæði væri sett hér inn mundi það aldrei fara í gegnum Ed. Þetta eru þeirra orð, en þetta segja ekki einn og ekki tveir, heldur fleiri. Ég hef þegar rætt við fjóra af nefndarmönnum úr fleiri en einum flokki og þetta er þeirra álit.

Ég vil nú, vegna þess að ég sé ekki annað en að frv. sé komið í verulega hættu þar sem er svo langt liðið á þingtímann, mælast til þess að hv. þm. dragi þessa till. til baka til að stefna ekki frv. í hættu. Hins vegar finnst mér till. hans athyglisverð og ef ég verð formaður samgn. á hausti komanda mun ég beita mér fyrir því að þetta mál verði athugað og reyna að finna leið til að bæta þar úr, ef að athuguðu máli verður talið af hafnarsjóðum úti um land að það sé nauðsynlegt.

Ég vænti þess að hv. þm. taki þetta til umhugsunar að minnsta kosti til þess að stefna ekki málinu í hættu því að mér er ljóst að áríðandi er að lögfesta þetta frv. nú.