18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6252 í B-deild Alþingistíðinda. (5700)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er spurning fyrst til hæstv. forseta. Ég var ekki kominn í salinn þegar hæstv. ráðh. hóf framsöguna. Eru bæði málin á dagskrá nú 301. mál og 302. mál? (Forseti: Já.) Já, ég tel ekkert athugavert við það því að auðvitað er það meira og minna nátengt sem þar er um að ræða.

Ég skal ekki, herra forseti, fara mörgum orðum um þessi mál. Ég á sæti í þeirri nefnd sem málin fara væntanlega til og hef þá tækifæri til að kynna mér þau betur.

Mér heyrðist á framsögu hæstv. samgrh. að sá ágreiningur, sem fyrst og fremst væri um að ræða að því er þessi frv. varðaði, væri hinn margumtalaði undanþágufaraldur, eins og menn hafa orðað það, í þessum efnum. Víst er það svo, að æskilegast er, bæði að því er varðar vélstjóra og skipstjóra og stýrimenn, að um borð í bátum og skipum séu menntaðir menn til þessara starfa, hafi til þess full réttindi, en ég veit ekki hvort menn hafa almennt gert sér grein fyrir því hvar t. d. fiskiskipaflotinn hefði verið staddur undangengin ár ef ekki hefði þó verið gripið til þess að veita undanþágur. Ég hugsa að til séu í landinu menntaðir einstaklingar til starfa á flotanum svo að ekki þyrfti að nota undanþágur eða menn með engin réttindi, en staðreyndin er eigi að síður sú að réttindamenn hafa ekki til þessa starfa fengist og þess vegna hefur flotanum verið haldið úti meira og minna með einstaklingum á undanþágum. Þetta er auðvitað slæmur kostur, það skal undir tekið, en ég held þó að menn megi ekki gleyma því að íslenska fiskiskipaflotanum hefði ekki verið haldið úti með þeim hætti sem gert hefur verið undangengin ár hefði ekki notið margra þeirra einstaklinga sem verið hafa á flotanum með undanþágur. Því skulu menn ekki gleyma. Og þó að ég vilji á engan hátt draga í efa að menntun er jákvæð og bætandi og raunar öryggisatriði um leið, þá er það þó eigi að síður svo að hún segir ekki allt. Við höfum ótal dæmi þess, bæði í þessari atvinnugrein svo og mörgum öðrum, að það segir ekki allt um ágæti og hæfni einstaklingsins hvort prófskírteinið fylgir með eða ekki. Þetta er ekki sagt á nokkurn hátt til að draga úr nauðsyn menntunar í þessum efnum, en ég held að menn ættu að hafa þetta í huga þegar litið er yfir sögu þessarar starfsgreinar svo og margra annarra í ljósi reynslunnar.

Án þess að ég ætli hér að fara í einstakar greinar þessara frv. eða efnisatriði, þá er hér sérstaklega eitt atriði sem ég vildi gjarnan segja örfá orð um. Það er í sambandi við 19. gr. í frv. um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum fiskiskipum og um 5. gr. í frv. um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum. Báðar þessar greinar í frv. hvoru um sig fjalla um undanþágumálin og í þeim báðum sýnist mér vera gert ráð fyrir að skipuð verði nefnd til að fjalla um undanþágur og að nefndina eigi að skipa fulltrúar tilnefndir af Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og fulltrúum útgerðaraðila og síðan skipi hæstv. ráðh. formann nefndarinnar.

Út af fyrir sig hef ég ekki mikið við þessa skipan mála að athuga, en muni ég rétt, og nú vil ég ekkert fullyrða, hæstv. ráðh. veit þetta sjálfsagt miklu betur, en muni ég rétt samkv. a. m. k. framkvæmdinni eins og hún er samkv. gömlu lögunum er a. m. k. lagt mikið upp úr umsögn stéttarfélags viðkomandi einstaklings. Ég spyr hvort meiningin sé þá sú að fella niður þá meðferð mála sem er núna, að umsagnaraðili sé það stéttarfélag sem viðkomandi einstaklingur er félagi í.

Nú er það svo varðandi vélstjórana að það eru, að ég hygg, talsvert margir einstaklingar vélstjórar sem eru með full vélstjóraréttindi og munu vera í verkalýðs- og sjómannafélögum víðs vegar í kringum landið, þannig að í reynd má segja að fulltrúar Farmanna- og fiskimannasambandsins, sem þarna er gert ráð fyrir að séu í þessari nefnd, eru ekki endilega fulltrúar sjónarmiða vélstjóra sem eru innan vébanda annarra félaga en rúmast innan Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Ég vildi því gjarnan fá upplýst, það getur að sjálfsögðu komið fram í nefndinni, hvort meiningin er að breyta frá því sem nú er. Ég a. m. k. á ekki von á að fulltrúar þeirra verkalýðs- og sjómannafélaga víðs vegar í kringum landið sem hafa sem félaga hjá sér fullgilda vélstjóra með réttindi telji nægjanlegt að Farmanna- og fiskimannasambandið sé umsagnar- eða ákvörðunaraðili gagnvart þeim þó að það geti að sjálfsögðu verið það gagnvart þeim vélstjórum sem eru innan vébanda þeirra samtaka.

Á þessu vildi ég vekja athygli, hvort hér er verið að breyta frá þeirri framkvæmd sem verið hefur mörg undangengin ár, eða hvort menningin er að sama gildi að því er þetta varðar.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða lengri tíma í þessi mál að þessu sinni, eins og ég sagði áðan. Ég hef væntanlega til þess tækifæri að kynna mér þau frekar í nefnd og þá kunna að koma fram upplýsingar um þau atriði sem ég hef hér gert að umræðuefni. Undanþágumálin eru, að því er fram kom hjá hæstv. ráðh., þau mál sem hvað mestum ágreiningi valda um þessi frv. Ég skildi hæstv. ráðh. svo, að sú yfirlýsing sem hann hér gaf mundi líklega leiða til þess að menn sættust a. m. k. að einhverju leyti á þessu stigi málsins í ljósi þeirra yfirlýsinga sem hann gaf um framhald þess.

Þessu vildi ég sérstaklega, herra forseti, koma hér á framfæri strax við 1. umr. og vænti þess að um þetta, og þá trúlega margt fleira, fáist upplýsingar við meðferð málsins í viðkomandi nefnd.