18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6254 í B-deild Alþingistíðinda. (5702)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Karvels Pálmasonar fyrir nokkrum mínútum að það segði lítið um hæfni manna hvort prófskírteini fylgi með eða ekki. (KP: Það segði ekki allt, hv. þm., það var þess efnis.) Þetta er einmitt setning sem hæfir meginhugsuninni í þessu frv. Skipstjórnarmenn þurfa svo sem ekki að hafa nein skírteini eða menntun.

Á þessu þingi og undanfarin ár hafa komið hér mörg frv. fram þar sem gerðar eru síauknar menntunarkröfur. T. d. létu menn sér detta það í hug nýlega að til þess að kona mætti taka á móti barni þyrfti hún fyrst að taka stúdentspróf, síðan að vera fjögur ár í hjúkrunarkvennaskólanum eða hvað það heitir og eftir það tvö ár í sérnámi ljósmæðra. Þ. e. viðkomandi mjúkhent og hreinleg kona, sem gat tekið á móti barni við eðlilegar aðstæður, þarf nú að leggja á sig nám sem er jafnlangt læknanámi við þann eðlilega og sjálfsagða og einfalda hlut.

Á sama tíma og menn eru að krefjast aukinnar menntunar og starfsþjálfunar leggja menn hér fram frumvörp um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og vélstjóra þar sem dregið er úr menntunarkröfum. Ábyrgð skipstjóranna er mikil. Þeir hafa í fyrsta lagi allmarga menn um borð og þeim ber auðvitað skylda til að hafa þekkingu til þess og reynslu að koma í veg fyrir að slys verði. Þeir bera ábyrgð á mörgum mannstífum og þeir bera einnig ábyrgð á mjög dýrum tækjum og bera í raun og veru ábyrgð á lífsmöguleikum þessarar þjóðar.

Það hefur verið samið um það, herra forseti, að menn styttu mál sitt nú til þess að þessi frumvörp gætu komist til nefndar og mun ég verða við því og tala ekki lengi að þessu sinni. En það verður ekki hjá því komist að drepa á örfá atriði í frv. Að vísu skal það viðurkennt að hæstv. ráðh. hefur komið fram með mjög mikilvæga brtt., sem breytir ansi miklu í þessu máli, með því að fella niður 15. gr., minnir mig að sé. En mér finnst illt að í lagasetningu eins og þessari, með tilliti til þess sem ég hef sagt hér áður, skuli vera sett í lög að þrátt fyrir öll ákvæði þessara laga megi víkja frá þeim varðandi fjölda skipstjórnarmanna og eins að hægt sé að veita mönnum svokallaðar undanþágur til þess að taka að sér skipstjórn í landinu. Hvenær fengi maður undanþágu til að keyra bíl hérna í Reykjavík, sem er auðvitað sáraómerkilegt atriði og hver meðalmaður getur lært á 10–15 mín. þar sem menn aka bílum eftir mjög merktum götum og sigla eftir götuvitum og ekki hægt að líkja því saman við skip við misjafnar aðstæður hér á Norður-Atlantshafinu? En það má sem sagt veita mönnum undanþágur, ef þeir hafa nægan áhuga, þó að þekkingin og reynslan sé kannske lítil eða engin. Það er meira að segja gengið svo langt að ef hefur tekist að kenna manni á kompás fái hann atvinnuréttindi, hann geti verið með 40 tonna bát ef hann hafi þetta svokallaða gamla pungapróf sem miðað er við 30 tonn og eru aðallega fyrir sportfiska.

Auðvitað mætti margt um þetta segja en ég ætla að láfa það vera og geyma mér til síðari tíma að ræða þetta mál, en ég verð að segja að mér finnst þessi tvö mál það mikilvæg að mér finnst tæplega sæmandi að ýta þeim í gegnum þrjár umr. í þessari hv. deild á kannske einum eða tveimur dagpörtum. Við fáum svo gott sem engan tíma til þess að kynna okkur þessi mál.

Hæstv. samgrh. er einnig hæstv. heilbrmrh. Hvernig væri nú ef sæmilega natinn maður, sem hefur gott lag á fólki, léti sér detta í hug að það væri hans köllun í lífinu að gerast læknir, en hefði hins vegar ekki til þess próf? Gæti hann fengið undanþágu til að stunda sjúklinga með því að senda skeyti í rn., eins og menn geta fengið skipstjórnarréttindi með einni skeytasendingu til sjútvrn.? Dytti einhverjum það í hug? Það held ég ekki. En ég held að það sé ekkert verra og ekkert meira mál að eiga við þau verk en þau verk sem skipstjórnarmenn þurfa að eiga við og síður en svo.

Nú hefur staðið yfir deila í kjaramálum flugmanna. Hvenær ætli hæstv. samgrh. leyfði einhverjum og einhverjum áhugamanni að fara að fljúga flugvélum innanlands eða milli landa án þess að hann hefði til þess menntun og starfsreynslu? Ég veit ekki til að slíkt hafi átt sér stað og ég veit að það hefur ekki verið gert og verður ekki gert þó að það sé síst flóknara mál en það að stýra skipi við alls kyns erfiðar aðstæður — auðvitað miklu auðveldara mál, enda er það sannað mál að menn læra að fljúga á nokkrum klukkutímum. Þessi stétt hefur bara gert sig að yfirstétt í landinu.

Herra forseti. Við eigum eftir að ræða þetta mál gaumgæfilega þegar það kemur úr n. og ég vil hvetja þá menn sem sitja í samgn. Nd. að flana ekki að neinu og kanna þetta mál vel áður en þeir mæla með því að það verði samþykkt.