18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6259 í B-deild Alþingistíðinda. (5711)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég skil vel óþolinmæði þeirra hv. þm. sem hafa kvartað yfir þessu fundarhaldi í dag. Gert var tiltekið samkomulag um að kjördæmamálið næði fram að ganga við 2. og 3. umr. fyrir kl. sjö í dag, að hér stæðu fundir í deildinni frá tvö til sjö og þá yrðu kjördæmamálið og stjórnarskrárfrv. tekin fyrir og þessi mál afgreidd til Ed. í dag. Síðan var gert ráð fyrir því að þrjú stjórnarfrv. eða fjögur færu til 2. umr. Það voru frv. um fjarskipti, tvö frv. um atvinnuréttindi og frv. til lyfjalaga. Ég skildi það svo að niðurstaðan væri sú að kjördæmamálið hefði allan forgang á þessum fundi og við hefðum verið að gera þetta samkomulag í nótt til þess að tryggja að það gæti komist greiðlega til Ed. í dag og þess vegna hefðu menn sett á langa fundi til samninga um þessi mál. Þess vegna vil ég skora á hæstv. forseta að hefja þegar í stað, eða eftir örfáar mínútur í síðasta lagi, umr. um kjördæmamálið svo að hægt verði að ganga í þetta verk.

Það er óskynsamlegt að efna til ófriðar um afgreiðslu á þessu máli eftir að jafngott samkomulag náðist og um var að ræða á þeim fundum sem við héldum í nótt. Ég held þess vegna að langskynsamlegast væri að hefja nú þegar kjördæmaumr. Ég leyfi mér að vænta þess að þeir þm., sem áttu aðild að samkomulaginu í nótt, mundu þar með gera sitt til þess að unnt yrði að ljúka málunum frá 2. og 3. umr. í dag hér í deildinni sem var innihald þess í meginatriðum sem við ræddum um. Hitt var svo aldrei nefnt að þingflokkur Sjálfstfl. þyrfti að hanga á fundum hálfan þingtíma deildarinnar, það kom aldrei fram. Talað var um að þingflokkur Sjálfstfl. þyrfti að hittast í hálftíma eða svo, en að menn væru þar gaufandi á fundum í klukkutíma eða meira meðan jafnmikilvæg mál eru hér til meðferðar, það var aldrei nokkurn tíma nefnt.