18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6260 í B-deild Alþingistíðinda. (5713)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Ég held að heppilegt sé að ljúka þessum umr. um þingsköp. Ég verð að taka það fram um þann hæstv. forseta sem hér stendur nú að hann er alveg maður til að bera jafnvel dylgjur, sem á hann eru bornar, án þess að hann fari að bera sérstaklega hönd fyrir höfuð sér og líklega er hann einnig maður til þess að bera aðra krossa sem kunna að verða lagðir á hann með ýmsum hætti og tekur þá á sig ýmsa sök sem hér kann að vera uppi. En það er hverju orði sannara að það var ætlunin að ljúka þeim tveimur málum, þ. e. 9. og 10. dagskrármálinu á þessum fundi. Það hefur forseti margsinnis tekið fram og lýst því strax í upphafi með ákveðinni grg. um það hvernig þingfundi yrði háttað. En margt hefur kannske farið öðruvísi en jafnvel forseti bjóst við. Ég get sagt það nú að marggefnu tilefni að það var ætlun forseta að ekki síðar en kl. hálffimm hæfust umr. um 9. dagskrármálið — og nú er kl. einmitt u. þ. b. — og umr. um 5. og 6. dagskrármál þá einnig. Þessu verður frestað en fyrir tekið 9. dagskrármálið.