18.05.1984
Neðri deild: 97. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6260 í B-deild Alþingistíðinda. (5714)

155. mál, kosningar til Alþingis

Kristín S. Kvaran:

Virðulegi forseti. Við erum hér enn einu sinni að fjalla um frv. um kosningar til Alþingis. Þetta frv. þýðir í raun og veru nær einungis breytingu á því hvernig þingsætum skuli úthlutað til þingflokka á grundvelli ákvæða í framangreindu frv. Hér erum við að vinna að breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins. Er það töluvert merkileg staðreynd þegar til þess er litið að þessi mál eru, eins og margsinnis hefur komið fram, nær einungis rædd í skjóli myrkurs. Telst það því til tíðinda að því skuli nú vera hleypt á dagskrá á þessum tíma dags. Og í ljósi þeirra leiðu atburða sem áttu sér stað í atkvgr. í gær held ég að það sé mjög vel til fundið að taka málið til afgreiðslu á þessum tíma dags, svo ekki eigi sér mistök stað áþekk þeim sem urðu í gær.

Eins og ég gat um áðan þá er hér um að ræða mjög mikilvægt mál og því ekki úr vegi að athuga nánar í hverju það felst. Það felst einfaldlega í því að fjölga þm. um þrjá, það er allt og sumt, fjölga þeim um þrjá. Það er ekki eins og um sé að ræða að það eigi að fara að jafna aðstöðumun eða jafna atkvæðisrétt, auka valfrelsi eða eitthvað í þá veru fyrir landsmenn. Að mati BJ er hér einungis um að ræða að valda- og hagsmunavarsla þeirra fjögurra stjórnmálaflokka sem að þessu frv. standa sé tryggð, að það sé þeirra samkomutag sem í húfi er. Það er það sem þetta frv. fjallar um og ekkert annað. Það er mikið talað um þetta samkomulag sem orðið hafi á milli þessara flokka og það sé eitthvað sem virkilega þurfi að taka tillit til. Nú er frv. lagt fram í óbreyttri mynd eins og það er hér, þrátt fyrir allan tímann sem það hefur verið í n. En það segir ekki alla söguna. Það er ekki um að ræða samkomulag í raun og veru, því það er ekki eins slétt og fellt og í fyrstu kann að virðast og eins og það er á yfirborðinu.

Menn vita sumir hverjir ekki sitt rjúkandi ráð, hvernig þeir eiga að snúa sér í þessu máli, a. m. k. í sumum flokkum. Talað er um að æskilegra hefði verið að ná viðeigandi jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis án fjölgunar þm. Margir telja óæskilegt að fjölga þm. um þrjá og gefa skoðun sína til kynna með mörgum yfirlýsingum þar að lútandi. Sumir hefðu viljað ganga lengra til jöfnunar kosningarréttar milli dreifbýlis og þéttbýlis. Aðrir tala um skort á jöfnuði á mörgum sviðum milli þéttbýlis og dreifbýlis og talað er um að fjölgun þm. verði dreifbýlinu til hagsbóta eða það stuðli a. m. k. að því að dreifbýlið haldi hlut sínum óskertum. Ég get nú fyrir mitt leyti ekki séð hvaða hag dreifbýlið á að hafa af því að hafa fleiri en færri þm. hér innan veggja. Ég get ekki séð að það eitt út af fyrir sig stuðli að einhverju hagræði fyrir dreifbýlið. BJ lítur svo á að þessi málflutningur miði einungis að því að auka ágreining um áherslur milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Það frv. sem hér liggur fyrir er nánast einskis virði. Það er einungis um að ræða lítilvæga, léttvæga breytingu á áframhaldandi misvægi atkvæða sem felur nær einungis í sér þessa fjölgun þm. um þrjá. Það sem hefst upp úr þessu frv., verði það samþykkt, er að enn á að koma í veg fyrir það að landsmenn hafi jafnan rétt gagnvart lögum og leikreglum. Það er ekkert réttlátt við það og ekkert sem réttlætir það að nota þessa aðferð, skerðingu atkvæðisréttar til að ná fram pólitískum markmiðum. Við þurfum að nota allt aðrar aðferðir ef við viljum að einhver tiltekinn hópur einstaklinga nái fram rétti sínum, hvort sem um er að ræða hóp á þéttbýlis- eða dreifbýlissvæði, fram yfir einhvern annan hóp. Það er ekki gert með því að margfalda atkvæðavægi þessa hóps hver sem hann er, heldur með því að sú skoðun sem slíkur hópur er málsvari fyrir nái af eigin rammleik að afla þess fylgis sem til þarf og að með því móti fáist fleiri fulltrúar þessarar skoðunar inn á þing. Þetta þarf að skiljast vegna þess að það eru margir hópar í þjóðfélaginu sem hafa ólíkar skoðanir á hinum ýmsu þjóðmálum eða sérhagsmunum. Og málið snýst ekki um það hvort fólkið býr í þéttbýli eða dreifbýli eins og haldið er fram. Þetta er mun umfangsmeira mál en svo að einungis sé um að ræða hvort menn búa á höfuðborgarsvæðinu eða utan þess.

Við þurfum að átta okkur á því að kosningarrétturinn hefur verið ójafn og það er þess vegna sem við þurfum að rétta hann af og jafna hann en ekki stuðla að því að viðhalda þessum órétti og ójöfnuði. Við þurfum að átta okkur á því hvaða hlutverki þeir menn sem kjörnir hafa verið inn á Alþingi Íslendinga gegna og eiga að gegna. Við þurfum að átta okkur á því að þeir eiga að vera hér til þess að setja lög. Þeir eiga fyrst og fremst að setja hér lög og þeir eiga síðan að hafa eftirlit með því að þessi lög séu haldin og þeim sé framfylgt. Það á ekki að vera fyrst og fremst þeirra hlutverk sem hingað eru kjörnir að sitja í hinum ýmsu sjóðum og ráðum, t. d. bankaráðum og stjórn Framkvæmdastofnunar, og hluta þar út eða semja með sér hvernig hinu mikla fjármagni sem þar fer í gegn verði úthlutað, vegna þess að það samræmist ekki því hlutverki sem þeir eru kjörnir til. Þegar svo er komið, sem nú er, að menn líta á sig sem kjörna á þing til að fara með slík völd, einhver útdeilingarvöld, þá stuðlar það einungis að jafnvægisleysi í efnahagskerfinu. Það verður mun erfiðara að deila út því fjármagni sem er fyrirliggjandi ef það verður gert eftir þessum leiðum en ekki eftir því hvar þörfin er í raun og veru mest til að viðhalda byggð í landinu og hvar tækifærin liggja til að afla okkur markaða og annars þess háttar. Og því síður fer það eftir því hvaða áætlanir byggðadeild Framkvæmdastofnunar gerir sem þó hefur það hlutverk að stuðla að hagkvæmni í slíkri útdeilingu.

Þessi kjördæmaskipun veldur því ekki einungis jafnvægisleysi í efnahagskerfinu. Þetta er spurning um valda- og hagsmunavörslu. Þetta er spurning um valdapot. Þetta er spurning um að koma sér fyrir í góðum sætum. Þetta er spurning um það að menn séu bundnir flokkshagsmunum og engu öðru. Það er ekki lengur spurning um að vera bundnir kjósendum sínum og því síður samvisku sinni og þeirri stefnu sem þeir lögðu á borð fyrir kjósendur í kosningum og voru kosnir út á. Óeðlileg tengsl Alþingis við hina ólíku valdþætti þjóðfélagsins eru afleiðing af því hugarfari að það þurfi breytilegan kosningarrétt handa mönnum eftir því hvort þeir búa í dreifbýli eða þéttbýli. Það þarf að styrkja löggjafarstarfsemi þingsins og gera virkt eftirlit þess með framkvæmd laga. Það þarf að auka sjálfstæði þess og síðast en ekki síst þarf að banna þm. umboðsstörf í þágu framkvæmdavaldsins sem er auðvitað alls ekkert í tengslum við það sem þeir eru kjörnir til.

Við höfum séð það mjög vel í vetur, ég get auðvitað ekki dæmt um nema af afspurn hvernig það hefur verið á undanförnum þingum, að Alþingi er orðið að einni allsherjar afgreiðslustofnun ríkisstj. Það held ég að hafi m. a. stuðlað að því að Alþingi hafi virkilega sett ofan, ekki aðeins í augum þjóðarinnar heldur í raun og ekki síst í augum alþm. sjálfra. Það er auðvitað ljóst að hlutverk Alþingis á að vera að setja hinar almennu leikreglur. En jafnljóst er það að framkvæmdavaldsins á það að vera að framkvæma og taka hinar sérstöku ákvarðanir. Það samkrull sem er á milli þessara ólíku þátta nú hefur að mínu mati leitt þjóðina út í mjög alvarlegan efnahagsvanda. Því er alveg bráðnauðsynlegt að um þessi nánu tengsl verði losað. Sami maðurinn á auðvitað ekki að gegna áhrifastöðum í tveimur eða þremur ólíkum valdþáttum á sama tíma. Það er ekkert sem getur réttlætt það. Það er í fullu ósamræmi við mannlegt eðli að fólk hreinlega skipti um ham, rétt eins og að klæða sig í ný föt, um það bil að þingfundir hefjast. Maður sem er í því hlutverki á morgnana að fjalla um það að taka einhverjar ákvarðanir úti í bæ, það segir sig sjálft að það er alveg útilokað að slíkur maður geti sest á Alþingi eftir hádegið og fjallað um og sett almennar leikreglur.

Það er ljóst af framansögðu að það þarf að auka stöðugleikann í þingstörfum og treysta löggjafarmátt Alþingis. Ég vek athygli á því að enn þá, eftir allan þann tíma sem liðinn er frá því að þetta frv. var lagt fram, hafa flokkarnir ekki getað komið sér saman um eftir hvaða reglum á að skipta þingsætum. Ekkert er sagt um það hvernig á að reikna út og alls ekki er fyrir séð hvernig það verður enn þá. Það hefur verið gengið á milli Droop og d'Hondt og ekkert hefur komið út úr þeirri umr. á öllum þessum tíma sem liðinn er.

Þá er og athyglisvert að þeir menn sem unnið hafa að hinni lögfræðilegu hlið málsins fyrir þingflokka Alþfl. og Sjálfstfl. eru mjög andvígir þeim tillögum sem birtast í þessu frv. Sú andstaða er ekki byggð á þeim rökum að eitthvað sé athugavert við það sem snýr að hinni lagatæknilegu hlið. Það eru sem sagt ekki lagatæknilegir gallar á frv. sem slíku eins og ég kem að á eftir í tilvitnun í þessa menn. Þar liggja allt aðrar ástæður að baki. Þær eru fyrst og fremst að í till. er gert ráð fyrir verulegu misvægi atkvæða landsmanna eftir því hvar þeir eru búsettir á landinu. Með þessu frv. er því gert ráð fyrir að viðhalda og binda misvægi atkvæða áfram í stjórnarskrá. Vegna þeirrar staðreyndar að hér er um að ræða tillögur, sem formenn Sjálfstfl., Alþfl., Alþb. og Framsfl. hafa komið sér saman um að leggja fram, þá er merkilegt til þess að hugsa að knýja skuli eiga fram slíkar breytingar með hliðsjón af því að um er að ræða mjög skiptar skoðanir innan þessara flokka um ágæti þessara tillagna. Og ekki síður öflug hreyfing fólks úr öllum flokkum sem er mjög mótfallin þessu misvægi atkvæða. Enn athyglisverðara er að þetta eru gamlar tillögur Alþfl. Þær hljóða upp á jöfnun atkvæðisréttar. En það er eins og í öðru, gengið er þvert á það sem mönnum þykir rétt vera.

Enn fremur hlýt ég að benda á það sem Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., sem vann að lögfræðilegum undirbúningi þessa frv. fyrir Sjálfstfl. bendir á í grein sinni, með leyfi forseta, — að í 21. gr. 3. tölul. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá allsherjarþinginu 1948 hafi eftirfarandi samþykkt verið gerð:

„Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstj. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvgr. viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.“

Við Íslendingar erum ein sameinuðu þjóðanna og ættum að taka töluvert tillit til þeirrar yfirlýsingar sem felst í samþykkt allsherjarþingsins og við ættum að taka mið af því sem þar stendur við breytingu á íslensku stjórnarskránni. En áfram segir Jón Steinar í grein sinni með leyfi forseta:

„Þessi yfirlýsing hefur að vísu ekki lagagildi á Íslandi. Hún var hins vegar samþykkt með vísan til stofnskrár Sameinuðu þjóðanna og til hennar er einnig vísað í inngangi mannréttindasáttmála Evrópu sem fullgiltur var af Íslands hálfu 29. júní 1953. Íslenska ríkinu er því siðferðislega skylt að laga löggjöf sína að yfirlýsingunni.“

Svo mörg voru þau orð. Enda eru margir þm., sem sæti eiga nú á Alþingi og sem hafa átt það áður, mjög andvígir þessu frv. Vil ég því leyfa mér að lesa hér upp úr grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson sem birtist í Morgunblaðinu 9. mars 1983. Þykir mér rétt að lesa þetta upp þar sem hann er ekki staddur hér. Hann segir undir kaflanum „Skýrar línur“ með leyfi forseta: „Afstaða mín er þessi:

1. Ég er andvígur fjölgun þm. Sýnt hefur verið fram á að hún er óþörf. Hægt er að ná svipaðri leiðréttingu á misvægi atkvæðisréttar og felst í framlögðum málamiðlunartillögum án fjölgunar þm.

2. Allir sanngjarnir menn hljóta að viðurkenna, að markmiðið í kosningaréttarmálum hlýtur að vera að allir Íslendingar hafi sama atkvæðisrétt. Fáist sú leiðrétting ekki fram nú, þá er það alger lágmarkskrafa að misréttið verði leiðrétt í áföngum fyrir hverjar kosningar í framtíðinni.

3. Þess vegna má undir engum kringumstæðum binda málamiðlun um misrétti í sjálfa stjórnarskrána. Það er gersamlega fráleitt. Stjórnarskrá er ekki venjuleg lög sem hægt er að breyta á hverju þingi. Stjórnarskrárbreytingar á því aðeins að gera að þær eigi að vera varanlegar, þ. e. gilda í áratugi. Það á ekki að hringla með stjórnarskrárákvæði.“

Áfram heldur Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrá er til þess að tryggja þegnunum sameiginleg almenn réttindi. Að ætla sér að stjórnarskrárbinda alvarlegt misrétti, eins og t. d. að sumir þegnar ríkisins skuli hafa fjórða part úr atkvæði, aðrir einn þriðja og enn aðrir helming, er í raun og veru hið sama og að stjórnarskrárbinda mannréttindabrot. Það er gersamlega fráleitt og óviðunandi.

Ef fyrirhuguð stjórnarskrárbreyting á ekki að fela í sér annað en fjölgun þm., sem allir eru á móti nema meiri hluti þm., og niðurfærslu kosningaaldurs og heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, sem unnið hefur verið að árum saman, er þar með slegið á frest, þá vaknar ný spurning. Hún er þessi: Er þetta nægilegt tilefni til stjórnarskrárbreytingar sem kallar á tvennar kosningar?“

Svo mörg voru þau orð sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson hafði um þetta mál í grein sinni í Morgunblaðinu 9. mars. Og verð ég að segja að það er alveg ljóst að hér inni eru mjög margir honum sammála. Frá því að kjördæmabreytingin var gerð 1959 hefur smám saman ýmislegt breyst. Ranglætið hefur aukist stöðugt. Það er m. a. vegna þess að atvinnuhættir og lífsstíll hafa breyst. Atvinnutækifærunum hefur fjölgað á þéttbýlissvæðunum og fólksfjölgun þar með orðið þar meiri. Það hefur eðlilega leitt af sér að atkvæðisréttur þeirra sem búa á þéttbýlissvæðunum hefur stöðugt orðið léttvægari.

Ég vil í þessu sambandi vitna hér í grein sem Vilmundur heitinn Gylfason skrifaði í Alþýðublaðið þann 12. júlí 1980. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Stjórnarskrárnefndir hafa verið skipaðar aftur og aftur. Árangur hefur enginn orðið. Þessi mál hafa verið látin dankast þar til nær hefur dregið kosningum. Þá hefur því síðan verið borið við að ekki sé tími til breytinga. Hætta er á að ef ekki verður þegar í stað farið að sinna þessum málum, þá endurtaki sá ferill sig að þessi mál komist í eindaga, að einfaldlega ekkert gerist.

Það má leiða að því gild rök að ranglát kjördæmaskipan er einmitt ein veigamesta ástæða þeirrar efnahagslegu óstjórnar sem einkennt hefur síðasta áratug. Þegar kosið er til Alþingis, þá er verið að kjósa fólk m. a. til þess að ráðstafa almannasjóðum. Það segir sig sjálft að ef eitt byggðarlag einhvers staðar á landinu hefur fimmfalt fleiri fulltrúa til þess að þrýsta á sín mál heldur en annað byggðarlag, miðað við íbúafjölda, þá leiðir sú skekkja til þess að fjármagnið er í stórum stíl flutt til, án nokkurs tillits til arðsemi og hagsýni.

Slík skekkja í kjördæmamálum hlýtur í vaxandi mæli að valda óhagkvæmri notkun almannasjóða, arðminni fjárfestingu, minni hagsýni.

Í raun er ekki hægt að hafa nema einn réttan mælikvarða á það hvernig atkvæðisrétti skuli skipt. Sá mælikvarði er að sérhver einstaklingur í þjóðfélaginu, óháð eignum, skattgreiðslu, búsetu eða öðrum ytri kennimerkjum, hafi eitt og jafnt atkvæði. Það er jafnfráleitt nú að veita fólki aukinn atkvæðisrétt vegna búsetu eins og það var fráleitt á síðustu öld og reyndar vel fram á þessa öld að veita fólki aukinn atkvæðisrétt eftir efnum.

Fólk á að eiga nákvæmlega sama rétt til þess að hafa áhrif á stjórnskipunina, hvort sem það býr í Grindavík eða á Kópaskeri, hvort það býr í Breiðholti í Reykjavík eða á Höfn í Hornafirði. Sérhver einstaklingur á að hafa einn og jafnan rétt til þess að hafa áhrif á það hvernig fjármunum úr almannasjóðum er varið. Og það verður ekki gert nema með því að haga kjördæmaskipan svo að atkvæðisréttur sé alls staðar jafn.“ Ég endurtek: „Það verður ekki gert nema með því að haga kjördæmaskipan svo að atkvæðisréttur sé alls staðar jafn.“

Það er auðvitað alveg útilokað að svo skuli vera farið í þessu landi að það skuli ekki nema annar til þriðji hver maður á þéttbýlissvæðinu hafa atkvæðisrétt í raun og veru. Þegar svo er komið fyrir okkur held ég að það segi okkur ekki nema eitt. Við eigum að taka okkur betri tíma til að endurskoða þessi lög. Nógu langur tími hefur liðið nú þegar til þess að við getum leyft okkur að nota enn lengri tíma til að skoða þessi mál og gera þær úrbætur á þeim sem við teljum vera fullnægjandi. Þær endurbætur sem nú liggur fyrir að gera á þessum stjórnskipunarlögum eru engan veginn fullnægjandi á meðan ekki er enn gengið svo langt að jafna kosningarréttinn. Það er einungis gengið í þá átt að jafna út atkvæðum, út sætum á milli flokkanna. Vilmundur heitinn Gylfason segir í grein sinni í Alþýðublaðinu 30. júlí 1980, með leyfi forseta:

„Hætt er samt við að að þessu sinni verði valið erfitt. Hugmyndin um að fjölga þm. mun vafalaust mælast illa fyrir. Sagt verður með þungum rökum að Alþingi gangi nógu illa að stjórna og að fjölgun muni ekki verða til bóta. Á hinn bóginn er einnig ljóst að strjálbýlli kjördæmi munu snúast öndverð gegn þeirri hugmynd að flytja þm. til.“

Seinna í grein sinni segir hann með leyfi forseta: „Ójafnvægi milli landshluta er allt of mikið. Ef þessu heldur enn áfram er hætt við því að ágreiningur milli landshluta fari vaxandi. Það er t. d. hætt við því að landshlutasamtök fari að bjóða fram í kosningum til þess að mótmæla þessu ójafnrétti. Slíkt mundi einasta auka enn á togstreituna og getur ekki verið eftirsóknarvert.“

En það er alveg ótrúlegt hvað fólk, hvað þm. ætla að láta draga sig langt á asnaeyrunum verandi ósammála því frv. sem hér liggur fyrir og sjáandi að misvægið viðhelst og að kosningarrétturinn verður ójafn eftir sem áður. En allt er gert fyrir flokkshagsmunina og allt er gert fyrir hrossakaupin sem þegar hafa átt sér stað. Ég vil hér enn vitna í grein hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar sem hann skrifar í Morgunblaðið í mars 1983. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Atkvæðisrétturinn er m. ö. o. veginn á pólitískan kvarða, eftir mati manna á félagslegri aðstöðu kjósandans, alveg eins og atkvæðisrétturinn var áður fyrr bundinn við eign, efnahag og kynferði, eða er reyndar enn í dag bundinn við litarhátt í sumum ríkjum heims.“

Seinna í grein sinni segir hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, með leyfi hæstv. forseta.:

„Því hefur heyrst fleygt að Íslendingar myndu una því illa, t. d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, að fara þar með minna en eitt atkvæði á móti þúsund milljón kínverskum. Hvers vegna þá að gera veður út af bara fimmföldu atkvæðismisrétti í okkar eigin félagsskap?“

Það er auðvitað alveg fáránlegt að vera stöðugt að leggja út af því að sú ákvörðun sem tekin er með þessu frv. sé til þess gerð að rétta hlut dreifbýtismanna. Slíkur áróður er til þess eins fallinn að ala á sundurlyndi innbyrðis á milli Íslendinga og þá er allt of langt gengið að mínu mati. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er ekki um það að ræða að það skerði á einhvern hátt hlut dreifbýlisins ef kosningarréttur verður jafnaður. Það sem þarf að vera ljóst er að hver og einn Íslendingur þarf að eiga aðgang að því að hafa sambærilegan kosningarrétt við alla aðra, jafnt nágranna sína sem þá sem búa úti á landi og eða öfugt. Sú regla sem nú gildir um kjördæmaskipan og skiptingu þm. milli kjördæma verður í reynd alveg óbreytt þrátt fyrir þetta frv. sem hér er til umr.

Eitt er það enn sem mér finnst nauðsynlegt að geta um, en það er hversu lítið þetta mál hefur enn náð að komast í umr. á meðal manna úti í þjóðfélaginu. Er einhver hræddur? Það segir sig sjálft að hér er um að ræða að viðhalda áfram því misvægi atkvæða sem verið hefur og á nú að binda áfram í stjórnarskrá. Þess vegna tel ég rétt að í stað þess að samþykkja þetta frv. nú, þá verði farið út í það að setja reglurnar upp á þann hátt að þær verði hverjum manni auðskiljanlegar og komið verði af stað umr. í fjölmiðlum og þá reynt að ræða um þetta mál þannig að hver og einn skilji hvað um er að ræða.

Þessi mál voru lítið sem ekkert rædd í kosningum fyrir ári síðan þó að í raun ættu kosningarnar að snúast um þau. Það var engu líkara en þm. héldu að þetta væri mál sem ekki bæri að ræða utan þessa húss. Það er mikill misskilningur. Þeir eiga auðvitað að bera þetta mál eins og önnur undir kjósendur sína, undir þá sem þeir eru fulltrúar fyrir hér á Alþingi. Auðvitað má til sanns vegar færa að sumir eru fulltrúar fleiri og aðrir eru fulltrúar færri. En það þarf ekki endilega að fara eftir kjörfylgi þess flokks sem þeir eru í framboði fyrir. Það fer allt eins eftir því hvar á landinu þeir voru í framboði.

Til að skýra þetta atriði ögn nánar vil ég nefna sem dæmi að hv. 2. þm. Vestf., hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, hefur 1509 atkv. á lista í þessum kosningum. En sá sem komst næst því að komast inn í Vesturlandskjördæmi, þ. e. sá sem hefði orðið sjötti ef atkvæðatala hefði dugað honum til, það var Sturla Böðvarsson. Hans atkvæðatala var 2180. Þetta segir sína sögu um það, að ef raða ætti upp eftir atkvæðafjölda á landinu hvar sem þau dreifast, þá liti allt öðruvísi út hér inni á þingi, hvaða menn hefðu komist inn. Ég vil taka annað dæmi um þetta mál. Þegar búið var að raða öllum inn á lista í Reykjavík í þeirri röð sem þeir áttu að fara inn, plús öllum varamönnum allra flokka, þá var sú sem síðast var raðað inn, sem hafði möguleika á að komast inn sem varamaður, 1. varamaður Kvennalista, Kristín Ástgeirsdóttir, með 3893 atkv. eða rúmlega helmingi fleiri en forsrh. Það er þetta sem við erum að tala um, að það er ekki nema annar til þriðji hver Reykvíkingur sem hefur gilt atkv. Og þessu á að viðhalda í þessu frv. Er nema von þó að einhver setji spurningarmerki við svona lagað?

Það er grátbroslegt til þess að vita, eins og nú liggur mikið á að koma þessu frv. í gegn, að það skuli hafa verið mælt fyrir þessu frv. um kosningar til Alþingis, 155. máli þingsins, þann 19. des. og síðan, í nær fimm mánuði, hefur frv. verið í lausanefnd þingsins, stjórnskipunarnefnd. Að vísu hef ég ekki upplýsingar um það hvað margir fundir hafa verið haldnir þar um þetta mál þar sem við eigum ekki sæti í þessari tilteknu nefnd. Ég tel þó að þeir hafi verið allnokkrir. En á meðan ekki hefur verið unnið að því að kynna þetta mál jafnframt úti í þjóðfélaginu er ekki nóg að tala um að það hafi orðið samkomulag milli þessa fjögurra flokka.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl., sagði í ræðu sinni þegar hann mælti fyrir þessu frv. kl. 3 um nótt þann 19. des., með leyfi forseta:

„Það hafa alltaf orðið mjög harðvítug átök þegar breytingar á kosningalöggjöf og kjördæmaskipan hafa átt sér stað. Alþingi hefur klofnað í fylkingar og miklar deilur hafa staðið með þjóðinni um þessi mikilvægu málefni sem skipta lýðréttindi í landinu miklu máli.“ Það er nú gott til þess að vita að hann skuli vita það. „Það heyrir því til mikilla tíðinda þegar samkomulag hefur orðið um það meðal stærstu flokka þingsins að leggja fram frv. sem þetta til breytingar á kosningalöggjöf. Það er mikilvægur áfangi og markar óneitanlega þáttaskil í störfum Alþingis.

Auðvitað kunna að vera skiptar skoðanir um ágæti þessa frv. Það ber auðvitað þess merki að um er að ræða málamiðlun milli ólíkra skoðana. En engar sættir eru í þjóðfélaginu um áframhaldandi skipan mála eins og verið hefur vegna þess misgengis sem orðið hefur í vægi atkvæða og vegna hins að núverandi skipan hefur ekki tryggt þingstyrk í fullu samræmi við kjörfylgi.“

Þessi orð formanns Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteins Pálssonar, eru eins og til þess að sanna það sem ég greindi frá áðan, þegar ég tók dæmið um atkvæðamisvægið og hve mörg atkv. hæstv. forsrh. hefur á bak við sig. Það er ekki ráðið til að bæta úr því að bæta þremur þm. inn til viðbótar. Það er alveg ótrúlegt að þegar gera á nú breytingar á stjórnarskránni og búið er að vinna að því svo lengi sem raun ber vitni þá skuli eiga að hespa þessu af á kvöld- og næturfundum á síðustu dögum þingsins. Að það skuli eiga að gera þessar léttvægu breytingar á stjórnarskránni, á þessari stjórnarskrá sem okkur var færð af Danakonungi fyrir rúmri öld. Að það skuli ekki eiga að búa til alíslenska stjórnarskrá er jafni atkvæðisrétt, jafni aðstöðumun og auki valfrelsi. Það veldur vonbrigðum.