18.05.1984
Neðri deild: 98. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6280 í B-deild Alþingistíðinda. (5730)

155. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Hér liggur fyrir frv. til l. um breytingar á kosningalögum til Alþingis. Ég vil reyna að útskýra það fyrir hv. 5. þm. Reykv., hv. 4. landsk. þm. og fleirum sem talað hafa í sama dúr að hér er verið að afgreiða frv. til l. um breytingar á kosningum til Alþingis sem gerir ráð fyrir hnífjöfnum atkvæðarétti í þessu landi, nákvæmlega sama vægi atkvæða hvar sem er á Íslandi, en með aðstoð tölvusérfræðinga, röngum greinargerðum og dálkauppsetningu um vægi atkvæða sem er vitleysa hefur tekist að blekkja svo háskólamenntaða menn að ljóst er að öll alþýða þessa lands er blekkt af formönnum flokkanna á þann veg að hún er látin standa í þeirri trú að atkvæðisréttur á Vestfjörðum verði meiri en annars staðar á Íslandi þegar þetta hefur orðið að lögum. Það er lygi. Það er makalaus ósvífni að menn skuli vera svo vitlausir í stærðfræði og þora að halda því fram hér í þingsölum að þessu sé öðruvísi varið. Hvernig fær það staðist, ef það væri rétt, sem flm. þessa frv. halda fram, að atkvæðisrétturinn sé meiri í dreifbýli en þéttbýli, að flokkur sem fyrst og fremst sækir fylgi sitt til dreifbýlisins skuli koma út með jafnmarga þm. hlutfallslega gagnvart fylgi og hinir sem hafa aðalfylgi í þéttbýlinu? Hvernig fær það þá staðist að atkvæðisrétturinn sé meiri úf á landi? Hvers lags blekkingar eru hér á ferðinni? Gera þessir menn, sem halda því fram að hér sé um misjafnan atkvæðisrétt að ræða, sér ekki grein fyrir því hvað um er að tefla? Auðvitað er kosningarrétturinn hnífjafn.

Hins vegar kom það fram að foringjarnir gáfust upp þegar kom að persónubundnu kjöri og skyldi engan undra því þegar hv. 5. þm. Reykv. fer á kjörstað næst og kýs í alþingiskosningum getur vel farið svo að hans atkv. dreifist í ótal áttir. Það færi brot af því austur, vestur, norður og suður. Það er ekki skrítið þó það sé erfitt að gera grein fyrir því hvaða mann hann raunverulega kaus á þing og hvernig persónuleg tengsl þm. verði eftir þessu kerfi. Það er búið að setja flokkinn fyrir ofan einstaklinginn sem verið er að kjósa. Það er verið að skipuleggja það að kjósa hóp manna á þing með hópaðferðum og hópsálarfræði og hópkerfi og hóphugsun þar sem enginn þykist bera ábyrgð á því sem verið er að gera en menn eru markaðir í hópa og skipt niður í reiti. Það má vel vera að það sé flott að segja að Vestfirðir hafi fimm þm. eftir þetta, fimm gesti sem koma þangað af og til e. t. v. Þannig er staðan. Það mætti nú alveg eins taka upp á því að telja hv. varaformann Sjálfstfl. með, svona part úr sumri, þegar hann fer vestur. (HBl: Ha? Nú skil ég ekki.) Þeir sem halda fram þeim blekkingarleik að Vestfirðir, Norðurland, Austurland eða Suðurland fái þessa þm., sem hér verða skráðir á þá vegna þess að mönnum hefur fundist það skammaryrði að vera kallaður uppbótarþingmaður eða landsk. þm., vita ekkert hvað þeir eru að tala um. Haldið þið að það yrði kátína í Grænlandi ef danska stjórnin setti upp það kerfi að Grænland yrði skráð með 100 þm. á danska þinginu, en Danir fengju að ráða þeim öllum? Haldiði að það yrði ánægja?

Það eru blekkingar og aftur blekkingar sem eru notaðar í þessum málflutningi. Það er engin nauðsyn að hafa langt mál um jafneinfalt mál og þetta, en það þarf að hafa mikið af töflum, grg. og athugasemdum til þess að villa svo um fyrir mönnum að halda því fram, eins og hér er gert, að vægi atkvæða á Vestfjörðum, eins og gert er á bls. 25, neðst á blaðsíðunni, sé slíkt að hver kjósandi á Vestfjörðum samsvari 2.97 kjósendum í Reykjavík. Hvers vegna er verið að þessu? Hvers vegna er verið að reyna að halda því fram að atkvæðisrétturinn sé meiri á Vestfjörðum en annars staðar? Hvaða rök liggja fyrir því að stjórnmálaflokkarnir telja sig þurfa að blekkja menn á þennan hátt? Það er búið að taka það fram í þessum kosningalögum að safna á öllu saman í einn kassa og þaðan á að skipta á milli hópsins. Gera menn sér ekki grein fyrir þeirri einföldu staðreynd að ef þetta væri satt hlyti flokkur í dreifbýli að fá hlutfallslega fleiri þm. en flokkur í þéttbýli? En þetta er lygi og þess vegna er þetta jafnað út.

Ég efa það að menn hafi áður lagt jafnmikla áherslu á blekkingar í málflutningi og notað hefur verið til að koma þessu fram. En hvers vegna hefur verið nauðsynlegt að falsa grg. á þann hátt sem hér er gert? Vegna þess að menn vildu svæfa dreifbýlið á Íslandi svo að það gerði sér ekki grein fyrir þeirri breytingu sem verið væri að framkvæma. Ég hef sagt það við hæstv. forsrh. að ég tel ástæðulaust að halda uppi málþófi hér á þinginu. Ég hef ekki talað lengi um þessi mál, en ég ætlast til þess að alþm. hafi þá stærðfræðiþekkingu að hægt sé að gera ráð fyrir að þeir geri sér grein fyrir jafneinföldum hlutum og ég nefndi áðan. Ef það er rétt að dreifbýlið hafi meiri kosningarrétt en þéttbýlið hlýtur flokkur sem á aðalfylgi sitt í dreifbýlinu að koma betur út en flokkur í þéttbýli þegar farið er að telja upp í sölum þingsins. Þetta eru staðreyndir. Þetta viðurkenndi Þorkell Helgason á umræðufundi, að það væru ósættanleg sjónarmið að halda því fram annars vegar að kjósandi á Vestfjörðum ætti að hafa margfalt vægi á við aðra hér og svo ætti að vera jafnvægi á milli flokkanna, og stærðfræðilega eru þetta ósættanleg sjónarmið.

Ég vil vekja á því athygli (HBl: Þetta er einmitt kjarni málsins.) að jafnframt því sem þarna er verið að halda fram er verið að feta sig áfram á þeirri braut að fella gengi íslenskra stjórnmálamanna. Það er félagsfræðileg staðreynd að leiðin til að fá hæfustu mennina inn í þingsalina eru einmenningskjördæmi. Það eru einmenningskjördæmi og aftur einmenningskjördæmi sem eru leiðin til að fá hæfustu mennina á þing, vegna þess að hæfur foringi, hvort sem hann heitir Þorsteinn Pálsson, Steingrímur Hermannsson eða Kjartan Jóhannsson, ef þeir eru í mjög fjölmennum kjördæmum, getur haft mótandi áhrif og náð inn mönnum með sér; mönnum sem ekki færu inn ef það væri einmenningskjördæmi. Það gildir jafnt um Steingrím og aðra. Ég orða þetta svo til að fyrirbyggja að menn telji að ég sé með persónulegt aðkast gegn einum né neinum. Það hefur verið kannað af félagsfræðingum gagnvart sænska þinginu að fjölgaði kjördæmum væri það beinasti vegurinn til þess að harðskeyttir foringjar söfnuðu fyrst og fremst í kringum sig já-rusli sem hlýddi. Ég vil undirstrika að mér þykir það ekki gæfulegt á 40 ára afmæli lýðveldisins að standa þannig að málum og framkvæmd að við fjarlægjumst það að um persónubundið kjör sé að ræða. Við fjarlægjumst það að tengsl fólksins og stjórnmálamannsins tengist ákveðnum svæðum og við framkvæmum gengisfellingu á þm.

Mér er ljóst að það var aðeins eitt sem stjórnmálaforingjarnir sátu við fram á nótt oft, því það verður aldrei af þeim skafið að þeir lögðu mikla vinnu í þetta frv., en það var aðeins eitt atriði sem skipti þá máli, því miður. Það var útkoman hjá eigin flokk og draumurinn um að koma í veg fyrir að smáflokkar kæmust inn á þing. Sérstaklega væri viðsjált ef uppreisnarmenn í þeirra eigin röðum ættu í hlut og færu nú að bjóða fram sérstaka lista. Ég hygg að svona verk verði aldrei unnin af viti út frá þeim leiðarljósum sem notuð voru. Ég harma að þannig skuli hafa verið að málum staðið, sem hér er gert, og við vitum öll að það er engin félagsfræðileg nauðsyn, það er engin þingleg nauðsyn eða hagfræðileg nauðsyn að skipuleggja mál á þann veg sem hér er verið að gera. En menn trúðu því að fjögurra flokka kerfið héldi velli og það var miðað við útreikninga aftur í tímann — útreikninga sem áttu að sýna að þetta kerfi væri fullkomið með því að miða við úrslit kosninga á undanförnum árum. En það sem vantaði í þessa útreikninga og það sem gleymdist var að þetta kerfi kemur aldrei til með að ráða úrslitum um þær kosningar vegna þess að þær eru liðnar. Þetta kerfi kemur til með að ráða úrslitum um þær kosningar sem verða í þessu landi og þar hygg ég að þurfi meiri spámenn en þá sem sátu yfir þessu tafli til að meta hvernig flokkaskipunin verður á ókomnum árum.