19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6308 í B-deild Alþingistíðinda. (5764)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. 2. minni hl. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Eins og nú hefur þegar komið fram hér í málsskjölum á Alþingi varð landbn. Ed. ekki sammála um afgreiðslu á 71. máli, frv. til l. um breytingu á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl. Hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir hefur þegar lýst sjónarmiðum þriggja nm., en ásamt henni undirrita nál. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Einn nm. hefur lagt fram brtt. og til viðbótar hafa þrír nm. lagt fram álit á þskj. 1045 þar sem lagt er til að málinu verði vísað til ríkisstj. Þessir þm. eru ásamt mér Þorv. Garðar Kristjánsson og Davíð Aðalsteinsson. Nál. er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Nefndin hefur rætt málið á fundum sínum og fengið umsagnir eftirfarandi aðila um málið: Búnaðarþings, Stéttarsambands bænda, Landssambands kartöfluframleiðenda, Grænmetisverslunar landbúnaðarins, Framleiðsluráðs landbúnaðarins, stjórnar Búnaðarfélags Íslands, og Sölufélags garðyrkjumanna sem leggja til að málið verði tekið til umfjöllunar í sambandi við þá endurskoðun sem nú á sér stað á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins.

Samband veitinga- og gistihúsa, Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin leggja áherslu á að innflutningur grænmetis og garðávaxta verði færður í frjálsræðisátt.

Augljóst er að sjónarmið umsagnaraðila eru mjög mismunandi. Stjórnarflokkarnir eru hins vegar sammála um að rækileg endurskoðun fari fram á sölumálum landbúnaðarins þar sem einokun verði aflétt, enda er t. d. nú þegar búið að taka ákvörðun um að fleiri en Grænmetisverslun landbúnaðarins fái að flytja inn kartöflur.

Með vísan til þessa leggjum við til að málinu verði vísað til ríkisstj.

Eins og kunnugt er eru framleiðsluráðslögin að stofninum til frá árinu 1947 og rætur þeirra má í raun rekja lengra aftur í tímann. Þessi lög voru í meginatriðum óbreytt fram til ársins 1959 þegar gerð var veigamikil breyting á þessari löggjöf eftir að átt höfðu sér stað allharðvítugar deilur um vissa þætti þeirra. Hér á ég við að þá var tekið upp það skiputag, sem gilt hefur síðan óbreytt, að landbúnaðurinn skyldi njóta ákveðinnar fjárhæðar, hinnar margumtöluðu 10% tryggingar til að bæta upp útfluttar búvörur.

Segja má að framleiðsluráðslögin hafi að meginstofni verið óbreytt síðan. Gerð var tilraun til breytinga árið 1979 en sú breyting, sem þá var upp tekin, hefur mistekist. Með þeim breytingum sem þá var að stefnt átti að leitast við að færa landbúnaðarframleiðsluna meira til samræmis við neysluþarfir þjóðarinnar og jafnframt að byggja upp nýjar búgreinar til að mæta samdrætti í hefðbundinni landbúnaðarframleiðslu. Sett voru inn í lög ákvæði hér að lútandi og gert samkomulag um þetta við bændurna í landinu. En það er skemmst frá því að segja að af hendi ríkisvaldsins hefur ekki verið staðið við þetta samkomulag og núna um þessar mundir og þegar núv. ríkisstj. tók við völdum var framleiðslu- og söluvandi í landbúnaðarmálum alveg eins mikill og fyrir lagasetninguna frá árinu 1979 þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr búvöruframleiðslunni hér innanlands.

Það er því ákaflega vel skiljanlegt að í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. sé beinlíms kveðið á um endurskoðun á framleiðsluráðslögunum sem, eins og ég sagði áðan, hafa verið að stofni til þau sömu í nálega hálfa öld með þeim tveimur breytingum sem reyndar eru með vissum hætti mjög stefnumarkandi og ég hef nú tilgreint. Sú vinna og það starf sem stjórnarsáttmálinn ákveður í þessum efnum er þegar hafin.

Þegar fjallað er um lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins verður ætíð að hafa margt í huga, m. a. það að framleiðsluráðslögin eru vinnulöggjöf bændanna í landinu. Ég held að það sé sammerkt með allri vinnulöggjöf, hver sem í hlut á, að hana beri að fjalla um í fullri sátt við þá sem slík löggjöf tekur til og það verður að sjálfsögðu að gilda gagnvart bændum eins og öðrum stéttum þjóðfélagsins. En það verður líka að horfa til þess að í þjóðfélaginu sem slíku verður að vera sátt um þessi mál og það meira að segja góð sátt og landbúnaðarframleiðslan snertir marga fleiri en bændurna í landinu. Mikil verðbreyting á sér stað frá því að bændurnir sleppa hendi af þessari framleiðslu og þar til að hún kemur á borð neytandans og eðlilegt að litið sé á það að frjálsræðis gæti í þeim efnum sem mest þótt auðvitað verði að vera skipulag á þessum málum alveg eins og á öllum sölumálum atvinnuveganna í landinu.

Ég legg áherslu á að þegar jafnvíðtækt og mikilvægt starf er hafið og þegar unnið er að því með sama hætti og nú hefur verið til stofnað af hæstv. ríkisstj. þá verði leitast við að laða fram sem flest sjónarmið og ná sem allra víðtækustu sátt um málið hér í þjóðfélaginu. Einmitt við það að menn hafa ekki til þessa treyst sér til að takast á við endurskoðun á framleiðsluráðslögunum hefur sá vandi, sem landbúnaðurinn stendur frammi fyrir núna, orðið til og einmitt vegna þess að þeir, sem hafa setið við stjórnvölinn á undanförnum árum, hafa ekki haft þrek eða mátt til að takast á við það viðfangsefni að fella íslenskan landbúnað að nýjum háttum í framleiðslu sem er honum alveg lífsnauðsynlegt ef hann á að geta haldið sinni hlutdeild og sem er forsenda þess að við höldum því byggðasamfélagi uppi hér á þessu landi sem við allir óskum að sé við lýði.

Að tilhlutan ríkisstj. og þá sérstaklega fyrir forgöngu núv. hæstv. landbrh. hefur þegar verið hafið starf á mörgum sviðum til að fjalla um endurskoðun á framleiðsluráðslögunum og raunar annarri löggjöf sem tengd er þessu stóra verkefni. Þannig metur nú sérstök nefnd hve búvöruframleiðslan á að vera mikil, þ. e. skilgreinir framleiðslusjónarmiðið. Unnið er að endurskoðun á annarri löggjöf eins og jarðræktarlögunum og búfjárræktarlögunum. Viðskrn. hefur hafið athugun á því með hvaða hætti hægt sé að fella saman afurðalán og rekstrarlán við það markmið að búvöruframleiðslan verði staðgreidd sem er eitt allra mikilvægasta hagsmunamál fyrir bændurna í landinu sem nú er um rætt. Það er líka fjallað um aukið frjálsræði í viðskiptum og er þá skemmst að minnast þess að núna er búið að leyfa fleiri aðilum innflutning á kartöflum en áður hefur tíðkast. Mjög mikilvægt er að menn hafi í huga hve þetta starf er víðtækt og raunar enn þýðingarmeira að menn geri sér grein fyrir því að ekkert í þessum málum er það einfalt að hægt sé að taka það sérstaklega út úr þessari endurskoðun og allra síst er ástæða til þess þegar hún á sér stað.

Virðulegi forseti. Ég hef hér gert grein fyrir því starfi sem nú er hafið að endurskoðun á framleiðsluráðslögunum. Ég hef bent á hversu mikil þörf er á að ná hér fram markvissari niðurstöðu og ég legg áherslu á að þar leggi menn sig fram einmitt með það fyrir augum að sem víðtækust samstaða megi nást meðal þjóðarinnar um að tryggja að árangur náist. Það er í samræmi við þessi markmið sem nál. á þskj. 1045 er komið fram og ég fagna því að góð samstaða skuli hafa náðst hér innan Alþingis og vænti þess að það fái greiðan byr í þessari virðulegu deild.