19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6312 í B-deild Alþingistíðinda. (5767)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Öll meðferð þessa máls hér í þessari hv. deild hefur verið með einstökum endemum. Hér er í rauninni um lítið mál að ræða, en þó stórt og stærra en virðast kann við fyrstu sýn. Hér er um það að ræða að breyta lítillega lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins til þess að afnema það úrelta kerfi sem allt of lengi hefur viðgengist í þeim málum og hefur verið neytendum öllum og framleiðendum jafnt til mikillar bölvunar.

Ég vil byrja á að þakka þeim nm. í hv. landbn. þessarar deildar sem greiddu götu míns frv. Ég er sammála þeirri brtt. sem þeir hafa flutt og hún er raunar gerð að minni tillögu til þess að greiða fyrir framgangi þessa máls. Sömuleiðis get ég stutt með góðri samvisku þær brtt. sem hv. 2. þm. Austurl. mælti hér fyrir úr þessum ræðustól áðan. Ég teldi það til bóta ef þetta eina atriði væri tekið út úr, þ. e. einkaréttur Grænmetisverslunar landbúnaðarins, og um það fjallað hér sérstaklega og látið á það reyna hver væri þingviljinn í því máli.

Nú er það svo að árum saman hefur þetta einokunarfyrirtæki, sem starfar í skjóli löngu úreltra lagaákvæða, troðið á hagsmunum íslenskra neytenda og séð svo til að hér væru oft og tíðum á boðstólum þær kartöflur einar sem annars staðar þættu ekki boðlegur mannamatur. Árum saman, næstum svo lengi sem ég man eftir mér, hefur verið kvartað yfir þjónustu þessa fyrirtækis, Grænmetisverslunar landbúnaðarins, áður Grænmetisverslunar ríkisins. Árum saman hafa réttmætar óskir neytenda verið virtar að vettugi. Árum saman hafa neytendur mátt taka við þeim óþverra oft og tíðum sem Grænmetisverslun landbúnaðarins hefur skammtað þeim úr sínum gullna hnefa. Hvers vegna hefur þetta verið á þennan veg? mætti spyrja. Því er tiltölulega auðvelt að svara, hv. þm. Hér er á ferðinni gamalrotið valdakerfi þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi. Það má vel vera að á kreppuárunum hafi það verið réttlætanlegt, eða á styrjaldartímum, að láta verslun með kartöflur og grænmeti eiga sér stað undir handarjaðri ríkisins. Það má vel vera. En það er ekki réttlætanlegt árið 1984. Og það mætti svo sem spyrja sem svo: Hvers vegna eru þá ekki í lögum ákvæði um einkarétt ríkisins til að selja appelsínur og epli? Hver er munurinn? Var það ekki svo að íslensk verslun væri gefin frjáls þegar danskir einokunarkaupmenn hurfu héðan með sitt hafurtask og með sitt maðkaða mjöl? Aldeilis ekki. Í stað maðkaða mjölsins hafa komið rotnaðar kartöflur. Og þetta blómstrar undir verndarvæng Framsfl. með nokkrum stuðningi einstakra sjálfstæðismanna. Þar undanskil ég þó ýmsa hv. þm. eins og hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, hæstv. fjmrh. og raunar ýmsa fleiri þótt ég nefni ekki fleiri nöfn við þetta tækifæri. En innan Sjálfstfl. eru framsóknarmenn líka sem engu vilja breyta. Þeir vilja ekki raska hinu volduga valdakerfi SÍS, sem er samtvinnað hagsmunum Framsfl. á hverjum einum vettvangi. Þeir framsóknarmenn innan Sjálfstfl. hafa ráðið býsna miklu og ráða býsna miklu, eins og sú till. sem hér er nú fram komin um lyktir þessa máls og meðferð, að því verði vísað til ríkisstj., ber gleggstan vott um. En það bendir þó ýmislegt til, sem betur fer fyrir þá sjálfstæðismenn, að völd þessara framsóknarmanna í sjálfstæðisflokksforustunni fari nú dvínandi.

Hér eru miklir hagsmunir í húfi — og hvar eru þeir hagsmunir? Við skulum horfa aftur á þessar skemmdu kartöflur. Hverjir keyptu þessar kartöflur? Hverjir keyptu skemmdu kartöflurnar frá Finnlandi? SÍS. Hver fékk umboðslaun fyrir skemmdu kartöflurnar, sem fluttar voru inn frá Finnlandi, þessi líka fyrirmyndarviðskiptin? SÍS. Og hver ætli hafi svo flutt kartöflurnar til landsins og tryggt þær á leiðinni? Auðvitað SÍS og aftur SÍS. Í þessu máli hefur SÍS allt sitt á þurru. Það er eins og fyrri daginn í þessu landbúnaðarkerfi. Það eru neytendur og bændur sem er skákað til hliðar, settir út undan. SÍS hefur sitt á þurru. Og hverjir skaðast? Neytendur skaðast. Hvernig er það þegar menn koma hér í búð og kaupa kartöflur að öllum jafnaði? Jú, menn fara heim til sín með 2 eða 5 kg poka og þeir byrja á því að tína úr honum ruslið og henda því. Síðan er farið að sjóða kartöflurnar og þá er nú raunin reyndar oft sú að það verður að henda helmingnum af því sem búið er að sjóða. Og hverjir borga þær kartöflur sem fleygt er með þessum hætti? Það gera neytendur.

Það er hrikalegt til þess að vita að hér skuli finnast talsmenn þess kerfis sem býður neytendum upp á slíkt. Talsmenn hinna skemmdu kartaflna eru óneitanlega sterkir á Alþingi. En ég spyr: Hver treystir sér til að verja þetta hrikalega atferli? Ég held að það geri enginn maður með heilbrigða og óbrenglaða dómgreind. Þetta er reginhneyksli og þetta er ekki nýtt hneyksli. Þetta er hneyksli sem búið er að viðgangast hér árum saman. Ég orðaði það svo hér í gær og endurtek það, að þeim öflum sem hér ráða ferðinni má líkja við nátttröll sem dagað hefur uppi á heiði — eða eigum við heldur að segja núna á vordögum að þetta séu snjókarlar sem hafa kartöflur í augna stað og gulrót fyrir nef og finna ekki þann fnyk sem leggur um allt samfélagið af þessum viðskiptum og því atferli sem hér á sér stað? Hafa menn hugsað þær fréttir til hlítar sem fram komu í Ríkisútvarpinu í fyrrakvöld þegar frá því var greint að nýjar kartöflur frá þessu fyrirtæki hefðu komið á markaðinn og ein verslun, ein sú stærsta hér í borginni, hefði ekki fengið svo sem venja var úr þeirri sendingu? Þegar forráðamenn þessa fyrirtækis, sem Hagkaup nefnist, kvörtuðu undan þessu við forráðamenn Grænmetisverslunar landbúnaðarins, hver voru þau svör sem þeir fengu? Ég hef það staðfest að þau svör, án þess að ég sé að vitna orðrétt í nein einkasamtöl, voru efnislega á þá leið að í þessu máli ætti Hagkaup svo sem ekkert gott skilið. Þegar fyrirtæki sem starfar í skjóli ríkisins leyfir sér slíkt tekur nú í hnúkana.

Það er fullkomin ástæða til að fram fari ítarleg rannsókn á starfsháttum þessa fyrirtækis þar sem ekki aðeins verði könnuð þessi síðustu dæmi heldur ferill þess allur lengra aftur í tímann, þar sem ekki aðeins verði kannað hvort þetta fyrirtæki hefur með þessum hætti, sem ég hef nú frá skýrt, mismunað viðskiptavinum sínum, heldur hvernig þetta fyrirtæki stendur að innkaupum á sínum vörum, hvernig þetta fyrirtæki stendur að verðlagningu á sínum vörum, hvernig er háttað eignaraðild að þessu fyrirtæki. Það er alkunna að það er hér frægt hús sem nefnt hefur verið „gullaugað“ og segir sú nafngift auðvitað nokkra sögu. Þetta hús er að stórum hluta leigt út. Er það hlutverk Grænmetisverslunar landbúnaðarins að standa í því að reka húsnæði til að leigja öðrum? Hvaða opinbera skatta borgar þetta fyrirtæki, hvaða opinber gjöld borgar það? Hvernig fjármagnaði það sína húsbyggingu á sínum tíma? Allt eru þetta atriði sem eru mikillar athugunar virði. Og ég held að það sé óhjákvæmilegt í ljósi þeirra atburða sem gerst hafa nú á vordögum að kanna alla sögu þessa fyrirtækis, rekstur verðlagningu og sitthvað fleira. Ég vitna hér í dagblaðið NT sem gefið er út af hálfu Framsfl. og ekki ætti að vera lök heimild. Þar sagði fyrir tveimur dögum, með leyfi forseta:

„Sekkir af finnskum kartöflum: Hækka um 74%–120% á leið frá hafnarbakka til Grænmetisins.“

Hvers konar viðskiptahættir eru það sem hér eru tíðkaðir? Er þetta sú frjálsa samkeppni sem Sjálfstfl. þykist vilja standa að, að einokunarfyrirtæki skuli hegða sér með þessum hætti? Vekja þessar fréttir ekki menn til umhugsunar um hvernig þessum málum er nú háttað? Ég held að það hljóti að vera, og með leyfi virðulegs forseta segir hér:

„Gunnlaugur Björnsson, forstjóri Grænmetisverslunarinnar, var spurður hvers vegna kartöflurnar hækkuðu svo mjög í meðförum Grænmetisverslunarinnar.

„Það er fullt af gjöldum sem leggst á þetta — alls konar gjöldum sem ríkisstjórnin ákveður. Já, há gjöld, t. d. matskostnaður, neytendagjöld“ — það væri nú fróðlegt að fá nánari skýringu á því — „flutningssjóðsjöfnunargjald og ýmis fleiri — ég man ekki hvað þau heita öll saman.“

Þetta eru svörin. Og það segir hér:

„Heildsöluverð á 2.5 kg kartöflupokum til verslana er 40 kr. eða 16 kr. hvert kg. Pökkunarkostnaður er því 8.38 kr. á hvern poka. Kartöflurnar hafa þá hækkað um 120% frá því þær komu að hafnarbakkanum og þar til Grænmetið skilar þeim af sér aftur“.

Þetta eru dágóð viðskipti sem hér eru stunduð í skjóli ríkiseinokunar sem þeir framsóknarmenn í Sjálfstfl. mega ekki hugsa sér að haggað verði við með einum eða neinum hætti.

Nú er það að vísu svo að á þessum síðustu dögum hefur hið rotna valdakerfi á þessu sviði látið að nokkru undan þeim þrýstingi almenningsálitsins sem hér er á ferðinni þannig að hæstv. landbrh. hefur ákveðið að beita sér fyrir því að lítillega verði rýmkað hér um, en einokunarákvæðin standa eftir sem áður. En ég vek athygli á því að hv. þm. þessarar deildar gefst nú kostur á að breyta þessum lögum og hnekkja þessum löngu úreltu einokunarákvæðum. Til þess gefst tækifæri þegar þetta mál kemur hér aftur til afgreiðslu. Ég gef lítið fyrir allar þær yfirlýsingar sem ég veit að hæstv. ráðh. eiga hér eftir að gefa í þessari deild um að nú séu þessi mál komin í athugun og nú verði þau löguð. Það er rétt ár síðan núv. ríkisstj. tók við völdum. Í hennar stefnuyfirlýsingu segir að unnið verði að meiri hagkvæmni í verslun með garðávexti. Hvað hefur verið gert í því máli? Ekki nokkur skapaður hlutur. Og því marka ég lítið þær yfirlýsingar sem hér á eftir kunna að verða gefnar. Ég vil hins vegar taka undir þau orð sem er að finna í forustugrein Morgunblaðsins í dag. Þar segir, með leyfi forseta:

„Kartöflueinokun brennur á bændum sjálfum.“ Þetta er hárrétt. Hvaða áhrif hefur það á íslenska kartöfluframleiðslu að hér eru stöðugt á boðstólum meira og minna skemmdar kartöflur? Auðvitað hefur það þau áhrif að fólk leitar að öðrum vörum, að öðrum matvætum sem komið geta í stað þessara skemmdu kartaflna: hrísgrjón, brauð, sitthvað fleira. Þetta breytir neysluvenjunum og það er auðvitað ekki til góðs fyrir íslenska kartöfluframleiðslu. Ég minni á að þetta frv. mitt og sú till. mín sem hér er til umr. miðar einungis að því að gefa þennan innflutning frjálsan þegar íslensk framleiðsla fullnægir ekki eftirspurn á markaðinum. Og svo skammt gengur þetta í rauninni að ég hélt að það væri útlátalaust fyrir flokk hinna frjálsu viðskipta og frjálsa markaðar að greiða þessu máli veg í gegnum þessa hv. deild. En svo er því miður ekki. Að vísu veit ég að þetta mál á stuðning meðal stakra þm. Sjálfstfl. í þessari deild og það mun koma í ljós þegar greidd verða atkv. um þetta.

Það segir enn fremur, virðulegi forseti, með leyfi, í þessari forystugrein:

„Landbrh. hefur tekið ófullnægjandi ákvörðun í kartöflumálum þeim sem mest hafa verið til umræðu undanfarna daga. Ráðherrann hefur ákveðið að veita nokkrum aðilum „tímabundið“ leyfi til innflutnings á kartöflum og það á að vera „sameiginlegt“. Jafnframt sýnir ráðherrann það göfuglyndi að segja að náist ekki samkomulag milli innflutningsaðila um dreifingu vilji rn. hans „greiða fyrir að koma þeim kartöflum, sem þegar hafa verið keyptar, á markað.““

Síðan segir hér:

„Þeir sem fylgst hafa með þessum fréttum af ákvörðun Jóns Helgasonar landbrh. hafa vafalaust margir spurt sjálfa sig hvort nú sé árið 1984 eða kannske 1948, þegar alræmt Fjárhagsráð skammtaði mönnum leyfi til þess að flytja til landsins vörur og skipti þá ekki máli hvort um var að ræða smátt eða stórt.

Landbrh. og ráðunautar hans í Framleiðsluráði landbúnaðarins eru þröngsýnir menn. Þeir eru á eftir tímanum. Stefna þeirra er tímaskekkja. Þeir gera sér bersýnilega enga grein fyrir því að tíðarandinn hefur breyst á þann veg að almenningur gerir kröfu til frjálsræðis í viðskiptum, ekkert síður með kartöflur en annað. Þó að kartöflur spíri best í raka og myrkri er ekki þar með sagt að stjórnmálamenn eigi að halda fast í deigar og ljósfælnar skoðanir.“ Þetta er vel sagt.

„Auðvitað er sjálfsagt að gæta hagsmuna innlendra kartöfluframleiðenda, sem framleiða góða vöru, sem hins vegar er aðeins á boðstólum hluta úr ári. Á öðrum tímum ársins er jafneðlilegt að flytja inn kartöflur eins og appelsínur eða epli og raunar skaðar ekki að innlendir kartöfluframleiðendur hafi aðhald í þeirri samkeppni sem felast mundi í frjálsum innflutningi á kartöflum. Sem frjálsastur innflutningur hvetur innlenda kartöflubændur til að bæta vörugæðin. Margir þeirra framleiða samkeppnishæfa vöru hvað gæði varðar þótt undantekningar séu of margar og meðferð ábótavant, ekki síst þegar nýjar kartöflur eru settar á markað.

Þetta mál snýst hins vegar ekki eingöngu um kartöflur. Það snertir grundvallarþætti frjálsra viðskipta. Viðbrögð ráðamanna í málefnum landbúnaðarins eru svo fálmkennd og vanmáttug vegna þess að þetta er gamalt og úrelt einokunarkerfi sem er í dauðateygjunum“ — og ég bæti við: Vonandi að rétt sé. Og raunar hygg ég að með þeim atburðum, sem hafa gerst að undanförnu, hverjar svo sem verða lyktir þessa máls hér í deildinni, það er bara prófsteinn á vilja þm. til málsins, sé þetta mál komið í höfn. Ég held að þessu fyrirtæki, sem hér hefur verið til umræðu, muni ekki líðast lengur þeir viðskiptahættir sem það hefur tíðkað. Það eru ekki framsóknarmennirnir í Sjálfstfl. sem hafa staðið að því. Það er almenningsálitið í þjóðfélaginu.

Vegna þess hvernig tíma okkar er háttað nú í þessari hv. deild ætla ég ekki að rekja í löngu máli þau ummæli neytenda sem er að finna á miðopnu Morgunblaðsins í dag. Ég læt mér nægja að minna á nokkrar fyrirsagnir og benda hv. þm. á, áður en þeir greiða atkv., að kynna sér þessa lesningu. Hér segir:

„Fleygt allt að helmingi úr kartöflupoka.“ Og hér segir: „Kaupi ekki kartöflur fyrr en einokun Grænmetisverslunarinnar verður aflétt.“ Og hér segir: „Lenti heldur betur í lélegu kartöflunum.“ Og enn segir: „Nýjung, ætar kartöflur“ var auglýst í verslunum. „Ekki keypt kartöflur í mánuð.“

Hvaða áhrif hefur þetta kerfi, sem hér hefur riðið húsum, haft á neysluna? Það hefur haft miklu skaðlegri áhrif á kartöfluneysluna en menn gera sér atmennt grein fyrir og ef svo heldur sem horfir mun auðvitað áfram úr þessari neyslu draga til mikils skaða fyrir íslenska kartöflubændur.

Það mætti, virðulegi forseti, tala um þetta í mjög löngu og ítarlegu máli. En vegna þess að ég veit að margir fleiri hv. dm. vilja kveðja sér hljóðs um þetta mál skal ég ekki lengja mál mitt mjög mikið úr þessu. En ég minni aftur á það sem ég sagði hér áðan um þá viðskiptahætti sem þetta fyrirtæki gerði sig bert að í fyrradag og frá var sagt í fréttum. Ætla menn virkilega með atkv. sínu í þessari hv. deild að stuðla að því að svona rekstur fái að halda áfram? Og ég spyr: Hver er munurinn á þessari hegðun hjá Grænmetisverslun landbúnaðarins og hegðun danskra einokunarkaupmanna gagnvart íslenskum almenningi fyrr á tímum? Sá munur er nákvæmlega enginn. Þegar sagt er við forustumenn ákveðins fyrirtækis efnislega: Ja, þið eigið nú ekkert gott skilið í þessu máli og þess vegna fenguð þið engar kartöflur í dag. — Hafa menn leitt að því hugann hvert þetta leiðir? Og svo standa menn hér upp og verja þetta fyrirtæki, verja þessa hagsmuni!

Það hefur oft komið í ljós hér á hinu háa Alþingi hversu hagsmunir Framsfl. og Sambands ísl. samvinnufélaga eru samantvinnaðir. En það hefur sjaldan komið jafnberlega í ljós og í þessu máli þegar menn hafa tækifæri til að skyggnast inn í skúmaskot kerfisins. Það er margt þar sem draga ber fram í dagsljósið. Þetta mál er bara einn angi af því kerfi sem viðgengst í landbúnaðinum íslenskum bændum til mikillar bölvunar, Sambandinu og hagsmunum framsóknar til framdráttar. Þetta er í rauninni kjarni þess máls sem við erum að ræða. Og ég bendi hv. þm. á hvernig afstaða manna er til þessa gerspillta valdakerfis, til þess viðskiptasiðleysis sem komið hefur í ljós á undanförnum dögum. Þessi afstaða manna mun kristallast í atkvgr. á eftir þegar menn mæla fyrir því að þessu máli verði vísað til ríkisstj. með haldlitlum yfirlýsingum ráðh. sem ekkert er á að byggja á þessu stigi og enginn veit hvaða raunverulega þýðingu hafa. Þá kristallast afstaðan til þessa rotnaða kerfis. Þá sjá menn í raun hvað menn vilja í málinu. Að vísu eru þeir til sem halda því fram að í þessu máli hafi stjórnarsamvinnan milli Sjálfstfl. og Framsfl. hangið á bláþræði, framsóknarmenn hafi gert það að algeru skilyrði að ekki yrði haggað við Grænmetisverslun landbúnaðarins, að ekki yrði haggað við þeirri ríkisreknu rotnu einokun sem tíðkast á þessu sviði nú, þá mundu þeir slíta stjórnarsamstarfinu. Þeir eru líka til sem halda því fram að það hafi verið ráðherrarnir í Sjálfstfl. sem réðu ferðinni í þessu máli, létu undan framsóknarmönnum um að drepa málinu á dreif, allt fyrir ráðherrastólana. Ég veit að um þetta mál er mikill ágreiningur í Sjálfstfl. og það er eins gott að sá ágreiningur komi fram í dagsljósið úr þingflokksherberginu og verði lýðum ljós hér við atkvgr. í þessari hv. deild. Þá mun það opinberast hverjir styðja valdakerfi SÍS og framsóknar í þessu máli.

Virðulegi forseti. Þar sem nú er liðið nokkuð á okkar fundartíma og til þess að standa við það samkomulag sem gert var hér í gærkvöld um gang mála hér í þessari hv. deild í dag ætla ég ekki að sinni að hafa þessi orð fleiri, en vera má að tilefni gefist til að mæla hér fáein orð aftur síðar við þessa umr. ef leikar skyldu þannig fara og mál skipast á þann veg að ástæða sé til. En ég ítreka að það mun kristallast hér í atkvgr. væntanlega innan skammrar stundar hverjir það eru sem vilja viðhalda þessu viðskiptasiðleysi sem viðgengist hefur allt of lengi í íslensku þjóðfélagi.