19.05.1984
Efri deild: 107. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6325 í B-deild Alþingistíðinda. (5772)

71. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Mig minnir að ég kannist vel við rakarafrv. og þær umræður sem Brekkukotsannáll greinir frá í því sambandi, m. a. að einn formælenda frv. bað menn sanna það með nótaríal vottorði að Gunnar á Hlíðarenda hafi ekki rakað sig.

Ég læt mér raunar í léttu rúmi liggja hvort hv. 5. landsk. þm. tekur mark á orðum mínum eða ekki. Hann hafði stór orð í frammi um það fyrirbrigði sem heitir Grænmetisverslun landbúnaðarins, en hvaðan skyldi nú þessi vanskapningur vera ættaður? Hvaðan ætli þetta fyrirkomulag sé runnið? Hverjir börðust fyrir því í árdaga að hafa þennan hátt á um einokun (Gripið fram í.) á öllum sköpuðum hrærandi hlutum? En það er auðvitað gott að menn sjá að sér. Sjálfstfl. kenndi Alþfl. gríðarlega mikið í þessum sökum og eiginlega heilaþvoði hann að þessu leyti og kom honum til manns Fyrir því er það líka að þar sem hér er komist að niðurstöðu um afgreiðslu málsins, þar sem segir svo, með leyfi virðulegs forseta, að „stjórnarflokkarnir eru hins vegar sammála um að rækileg endurskoðun fari fram á sölumálum landbúnaðarins þar sem einokun verði aflétt,“ þar hafa flokkarnir náð saman um afar mikilvægt atriði. Allir þingflokksmenn Sjálfstfl. samþykktu þetta að undanskildum hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni, sem hafði ráðið sig áður í annað skiprúm, og það vistband hlaut að halda, enda þótt ég viti að hann harmi það mjög að hafa ekki getað skrifað undir tvö álit í þessu því að þetta hlýtur alveg sérstaklega að vera honum skapfellt að sjá hvar Sjálfstfl. hefur náð höndum saman við Framsfl. um að aflétta einokun.

Ég mun svo sem starfandi viðskrh. leggja mig í líma við að bráðabirgðalausnir finnist á ef vandi er fyrir höndum enn og/eða kemur upp á meðan ég á að heita að gegna þessu embætti í fjarveru viðskrh. En aðalmálið er sem sagt þetta, að að þessu leyti verða sölumál landbúnaðarins af rétt sem og annað sem lýtur að söluskipulagi landbúnaðar yfirleitt. Því er það að við teljum okkur hafa náð höfuðmarkmiðum okkar fram að þessu leyti og er ástæða til að fagna því sérstaklega.