19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6326 í B-deild Alþingistíðinda. (5776)

301. mál, atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Verndun starfsréttinda hafa verið allmjög á dagskrá hér í vetur og hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur flutt mál þau flest hér inn í þingsali. Þar hefur verið lögð áhersla á að hafi menn náð tilteknum prófum þá beri þeim starfsréttindi. Ég vil vekja á því athygli að menntun á sviði sjávarútvegsins, hvort heldur sem er stýrimannapróf eða vélstjóra, er ekki ný af nálinni eins og þegar iðnfræðslan kom til sögunnar á sínum tíma og að því leyti ekki sambærileg. Hér er verið að tala um starfsréttindi sem lengi hafa notið fullrar viðurkenningar.

Það sem gerir mig óhressan að taka þátt í afgreiðslu þessara mála í slíku skjótræði er að mér finnst að menn gleymi þeim stóra þætti sjóslysa sem þessi mál hljóta að tengjast. Undir forsæti hv. alþm. Péturs Sigurðssonar starfar nú nefnd að sjóslysamálum. Hann hefur kallað nefndina saman tvívegis og eitt af því fyrsta sem þar var minnst á var menntun skipstjórnarmanna. Það er ekkert nýtt að menntun sé rædd í tengslum við sjóslys.

Á Kollabúðafundinum við Þorskafjörð, þar sem stuðningsmenn Jóns Sigurðssonar komu saman, var fyrsta ályktunin send og ósk um stýrimannaskóla í landinu. Þeir óskuðu eftir því að sá skóli yrði á Ísafirði. Dönsk yfirvöld lögðust aftur á móti alfarið gegn því að stýrimannafræðsla yrði á Ísafirði. Samt sem áður fóru svo leikar að á Flateyri og Ísafirði hófst það nám hér á landi. En það hvarflaði ekki að þeim sem þar sátu annað en þekkingin væri undirstaða þess að koma í veg fyrir sjóslysin. Þær voru ófáar skúturnar sem höfðu farist við Vestfirði og það var ástæða þess að þeir vildu fá þetta nám.

Ég tel að framkvæmdavaldið í landinu hafi verið að brjóta niður þetta menntakerfi með gáleysislegum undanþágum á undanförnum árum. Mér finnst sanngjarnt að það eitt reyni að bjarga sér út úr því máli en velti ekki ábyrgðinni yfir á þingið. Mér er ljóst að núv. hæstv. samgrh. ber enga ábyrgð umfram aðra í þeim efnum og ég efa það ekki að honum er alvara þessa máls ljós. Sjóslysin við Ísland eru því miður svo alvarleg að það er ekki hægt að leggja til að slakað sé á menntun þeirra manna sem eiga að bera ábyrgð á mannslífum við strendur landsins.

Ég vænti þess að það þurfi ekki að valda misskilningi þó að ég lýsi þeirri skoðun minni að ég telji óraunhæft að gera ráð fyrir því að þessi frumvörp fari í gegnum þingið í því mikla tímahraki sem hér er.