19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6328 í B-deild Alþingistíðinda. (5783)

261. mál, lyfjalög

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Breytingar sem felast í þessu frv. til lyfjalaga eru gerðar í samráði og með vitund þeirra er þær varða helst. Á ég þá við Lyfjaeftirlit ríkisins, landlækni og lyfjanefnd. Þetta frv. kostar ríkissjóð engin útgjöld því að skráningargjöldum, árgjöldum sérlyfja og sérlyfjaskrám er ætlað að standa straum af kostnaði við starfsemi nefndarinnar.

Þetta er í þriðja sinn sem frv. til l. um breytingu á lyfjalögum er lagt fram, en hafa ávallt dagað uppi. Frv. er búið að liggja alllengi fyrir Ed. Þetta frv. er ákaflega einfalt í sniðum og fljótskilið og um það er full samstaða hjá þeim sem þessi mál varða mestu. Ed. gerði á því nokkrar smávægilegar breytingar sem eru, að ég hygg, fremur til bóta.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. heilbr.- og trn.