19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6329 í B-deild Alþingistíðinda. (5788)

341. mál, Íslensk málnefnd

Frsm. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Nefndin hefur rætt þetta mál ítarlega á fundum sínum og fengið til viðtals fulltrúa frá Málvísindastofnun, Íslenskri málnefnd, Orðabók Háskólans og forseta heimspekideildar Háskólans. Þeir gerðu aths. við efni frv. og í stuttu máli sagt hefur menntmn. tekið þær aths. til greina og breytt frv. í samræmi við ábendingar Háskóla, Málvísindastofnunar og Orðabókar Háskólans.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á að í sambandi við stjórn stofnunarinnar er gert ráð fyrir að Orðabók tilnefni einn mann í stjórn Íslenskrar málnefndar, en það kom fljótt í ljós eftir að Jakob Benediktsson lét af störfum sem formaður málnefndarinnar að tengsl milli Orðabókar og Íslenskrar málnefndar voru minni en æskilegt væri. Voru þeir sammála um það orðabókarmenn og formaður málnefndar. Þessar breytingar eru því í fullu samræmi við þær óskir sem fram hafa komið. Nefndin öll er sammála um að mæla með samþykkt frv. og óskar eftir því að málið fái greiðan aðgang í gegnum þingið.