19.05.1984
Neðri deild: 99. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6332 í B-deild Alþingistíðinda. (5797)

318. mál, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Frsm. minni hl. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta mál er að ýmsu leyti hið nýtasta mál, þ. e. verið er að jafna og auka réttindi þeirra sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins með ýmiss konar hætti. T. d. er verið að auðvelda það að menn geti dregið við sig vinnu þegar liður á ævina án þess að það þurfi að bitna á lífeyrisréttindum þeirra eins og það gerir nú. En á málinu eins og það liggur fyrir er einn verulegur hængur. Nefnilega sá að ákvæði laganna eru afturvirk með þeim hætti að ýmsir þeir, sem eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, missa rétt sem þeir hafa búið við um alllanga hríð. Það er þetta ákvæði laganna sem mér og öðrum fulltrúum í minni hl., þeim Guðmundi Einarssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur frá Kvennalista, þykir mjög varasamt.

Þetta frv. var til umfjöllunar á seinasta þingi og þá samþykkti Ed. breytingu á frv. sem var efnislega samhljóða brtt. sem við nú flytjum við frv. Þetta varðar þá sem eru sjóðfélagar og hafa mátt vænta þess að lífeyrisgreiðslur úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins yrðu miðaðar við starfshlutfall þeirra á seinustu árum ævinnar þegar þeir hafa verið og eru í fullu starfi.

Eins og frv. er úr garði gert á að breyta hlutunum þannig að í stað þess að lífeyrissréttindin miðist við seinasta starfsár miðist þau við meðalstarfstíma í gegnum starfsævina.

Nú er það svo að það er fjöldi fólks sem hefur kannske unnið hjá hinu opinbera í hálfu starfi einhvern hluta ævinnar, við skulum segja í 10–15 ár til að taka eitthvert dæmi, en hefur seinustu 10–15 árin verið í fullu starfi. Þ. á m. getur verið fólk sem er komið að því að taka ellilífeyri núna og hefur búið við þá samninga að það fengi ellilífeyri í samræmi við starfshlutfall sitt núna, þ. e. við það að vera í fullu starfi. Þegar og ef þessi lög hafa verið samþykkt breytist það á einni nóttu. Þá verður tekið meðaltalsstarfshlutfall þess yfir starfsævina.

Við getum tekið mjög einfalt dæmi. Einhver hefur unnið 15 ár í hálfu starfi hjá ríkinu, kannske við kennslu eða eitthvað slíkt, en síðustu 15 árin verið í fullu starfi. Þessi aðili er kominn að því að taka ellilífeyri. Hann veit ekki betur og hefur ekki vitað betur seinasta áratuginn eða svo en að hann muni fá lífeyrisréttindi miðað við störf sín eins og hann hefur unnið þau seinustu 15 árin. En með samþykkt þessa frv. mundi á einni nóttu lífeyrisréttur hans skerðast um 25%. Hér er um afturvirkni að ræða. Þessi hópur fólks hefur ráðið sig til ríkisins miðað við þau kjör sem voru á undanförnum árum. Ríkið hefur oft hagnýtt sér það í samningum við opinbera starfsmenn að lífeyrisréttur væri þar betri en á hinum almenna vinnumarkaði. Nú á að afnema þetta að þessu leyti.

Þetta er í rauninni kjarni málsins. Hér er í fyrsta lagi um afturvirkni að ræða og í annan stað hefur þetta mikla röskun í för með sér fyrir þann hóp sem ég er hér um að ræða. Ég trúi reyndar að að líkindum sé meiri hluti fólks í þessum hópi konur sem hafa t. d. unnið í hálfu starfi hluta af starfsævinni vegna aðstæðna á heimilinu, vegna barnauppeldis, bústarfa og þess háttar sem gjarnan lenda frekar á konunum en körlunum þrátt fyrir alla okkar viðleitni til jafnréttis. Til að mæta þessu leggjum við til að gefinn verði aðlögunartími sem nemi fimm árum. Það er brtt. sem við leggjum til að verði samþykkt, þ. e. aðlögunartími upp á fimm ár til að þetta skelli ekki yfir á einni nóttu að þessi hópur fólks verði fyrir þessari réttindasviptingu. Í samræmi við þetta gerum við ráð fyrir að aftan við frv. bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðist þannig:

„Þeir, sem orðnir eru sjóðfélagar við gildistöku laga þessara og eiga betri lífeyrisrétt skv. eldri ákvæðum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, skulu halda honum.“

Þessi setning gefur til kynna að ekki sé meginstefnan að hafa afturvirkni í réttindasviptingu eins og er þó í þessu frv. Hins vegar kemur næsta setning sem er þannig:

„Það telst ekki skapa rétt skv. eldri lögum í þessu sambandi að starfshlutfall sjóðfélaga hækki eftir að 5 ár eru liðin frá gildistöku laga þessara.“

Með þessu móti mundi það ekki dynja yfir fólk á einni nóttu að fá réttindasviptingu, lífskjaraskerðingu af þessu tagi. Ég tel að þegar þessi breyting hafi verið við lýði í 5 ár hafi menn haft nægan tíma til að aðlaga sig hinu nýja kerfi. Sá hópur fólks, sem við í minni hl. höfum áhyggjur af, er fólk sem ég lýsti áðan og er búið að vinna kannske 30 ár hjá hinu opinbera, þar af kannske helming tímans, 10–15 ár, í hálfu starfi en seinustu 10–15 ár í fullu starfi og er að því komið að taka sinn ellilífeyri. Fyrirvaralaust eins og frv. er hér úr garði gert geta menn þarna misst mjög í réttindum sínum. Eins og ég gat um áðan var brtt. af þessum toga samþykkt í Ed. Alþingis í fyrra en málið náði síðan í heild sinni ekki fram að ganga og það er skýringin á því að þetta er hér enn til umfjöllunar.

Í annan stað flytjum við brtt. varðandi það hvernig með skuti fara ef óeðlilegur dráttur verður á greiðslu lífeyris eða leiðréttingum á greiðslu lífeyris. Mér er kunnugt um dæmi um að orðið hafi mistök í þeim efnum og þegar kom að leiðréttingunni vildi Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins gera það upp krónu fyrir krónu þrátt fyrir alla þá verðbólgu sem hefur verið í landinu. Króna var borguð með tíeyringi, þ. e: 5 ára gömul króna var borguð með krónu dagsins í dag og var þá í rauninni tíeyringsvirði. Sem betur fer fékkst leiðrétting á þessu í því dæmi sem ég þekki en okkur þykir eðlilegt að fram komi og tryggt sé í lögum að þegar um slíka vangá sé að ræða sé greiðslan verðtryggð. Þess vegna flytjum við till. um að slíkt ákvæði komi inn í lögin og að ný mgr. bætist við 20. gr. sem orðist þannig:

„Verði óeðlilegur dráttur á greiðslu lífeyris eða leiðréttingum á greiðslu lífeyris skal lífeyrissjóðurinn greiða það sem á vantar með verðtryggingu. Skal verðtryggingin miðuð við hækkun á lánskjaravísitölu frá þeim tíma er upplýsingar, sem rétt lífeyrisgreiðsla byggist á, hefði fyrst getað komið í hendur sjóðsins og til þess tíma er greiðsla fer fram.“

Hér er greinilega um öryggisatriði að ræða, réttlætisatriði, verið að hindra að nokkurn tíma komi upp sú hugmynd, sem ég lýsti áðan að hefði verið framkvæmd innan sjóðsins, að hafa af gömlu fólki verðmæti vegna þess að menn hefðu ekki staðið sig í því að standa í skilum með lífeyrinn. Lífeyrissjóðurinn hafði farið rangt að sjálfur og hafði svo verðmæti af gömlu fólki. Hér er sem sagt um ákvæði að ræða sem mundi tryggja að aldrei yrði reynt að láta fara fram slíkt uppgjör á lífeyrisgreiðslum þegar sjóðurinn sjálfur af vangá hefur gleymt að greiða lífeyrinn.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri þó að fylista ástæða kynni að vera til. Ég vænti þess að dm. sé ljóst hvað hér er um að ræða. Eins og ég gat um í upphafi felast í frv. ýmis ágæt ákvæði, en það er þessi hluti þess, þessi réttindasvipting annars vegar, sem við í minni hl. teljum að eigi að koma til móts við og leiðrétta með þeim hætti sem ég gerði grein fyrir. Okkar mat er að hættulegt sé fyrir löggjafann að láta þetta fram hjá sér fara eins og ekkert sé. Í annan stað er ákvæði um að tryggja að ef af vangá er ekki greiddur réttur lífeyrir á réttum tíma sé öruggt að þeir gömlu verði ekki snuðaðir í þeim viðskiptum við sjóðinn.