19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6347 í B-deild Alþingistíðinda. (5857)

Um þingsköp

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli hv. Alþingis á því sem hér hefur verið að gerast á síðustu dögum. Það er talin skylda hverrar ríkisstj. í lýðræðisþjóðfélagi að stefna hennar sé nokkuð skýr, þjóðin eigi auðvelt með að fylgjast með hvert hún stefni. Svo hefur hins vegar nú borið við að í öllum stærstu og viðkvæmustu átakamálum þeirra tveggja stjórnmálaflokka sem landinu stýra hefur afgreiðsla mála farið á þann veg að þessir umræddu stjórnmálaflokkar hafa vísað málinu til sjálfra sín, þ. e. til ríkisstj. Nægir að nefna frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins, frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins og við munum eftir mangómálinu fræga.

Ég vil aðeins vekja á þessu athygli, því að ég held að það sé orðið ærið erfitt fyrir hinn almenna borgara í landinu að skilja hvert þessi ríkisstj. er að fara. Þeir tveir stjórnmálaflokkar, sem að henni standa, hafa ekki pólitískt þrek til að afgreiða nokkurt mál. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þm. hefur ekki leyfi nema til að tala um þingsköp.) Ég tel mig vera að tala um þingsköp, því að hér er fjallað um vinnuaðferðir, ekki einungis Alþingis, heldur einnig ríkisstj. Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti, og virða það tímahrak sem við erum í, en ég vil aðeins biðja menn að nota nú helgina, hv. alþm., til þess að hugsa þetta mál og velta fyrir sér hvort hér sé ekki allóvenjulega að verki staðið.