19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6361 í B-deild Alþingistíðinda. (5864)

335. mál, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa ánægju með þá samstöðu, sem tókst um afgreiðslu þessa máls í hv. atvmn. Sþ., en þar tók ég þátt í nefndarstörfum um þetta mál í fjarveru hv. 4. þm. Suðurl., Garðars Sigurðssonar. Þótt einn nm. kysi að skila séráliti, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem hér hefur gert grein fyrir sinni afstöðu, virðist mér ekki sem um djúpstæðan skoðanamun sé að ræða af hennar hálfu annars vegar og meiri hl. n. hins vegar. Ég vek hins vegar athygli á því að brtt. hennar mundi færa þetta mál í nákvæmlega sömu stöðu og það væri að gildandi lögum án þess að nokkur ný afstaða væri tekin til málsins.

Samstaða tókst hjá meiri hl. n. um breytingu og umorðun á þáltill. Með þeirri breytingu er málið sett í skýrara samhengi við lög nr. 70 frá 1982 sem kveða m. a. ótvírætt á um meirihlutaeign íslenska ríkisins í verksmiðjunni. Einnig er tekið fram að ríkisstj. hafi heimild til að leita eftir samvinnu við innlenda ekki síður en erlenda aðila innan marka laganna.

Ég skrifa undir nál. með fyrirvara og varðar hann samvinnu við erlenda aðila um eignaraðild að verksmiðjunni. Við Alþb.-menn höfum út af fyrir sig ekki útilokað að samvinna við erlenda aðila um einstaka þætti í stóriðju geti komið til greina í einstökum tilvikum, bæði varðandi eignaraðild og aðföng og sölu afurða, enda sé fullt forræði íslenska ríkisins þar tryggt bæði með meirihlutaeignaraðild og fullum tökum á markaði. Slík samvinna á hins vegar ekki að vera regla heldur fremur undantekning og þá gerð að vandlega athuguðu máli. Það fyrirtæki sem hér er fjallað um, kísilmálmverksmiðja á Reyðarfirði, er þannig vaxið að engin ástæða er til að leita eftir erlendri meðeignaraðild að fyrirtækinu og hægt er að sýna fram á með skýrum rökum að hún sé þarflaus og til trafala við ákvarðanir um þetta fyrirtæki og uppbyggingu þess.

Við undirbúning kísilmálmverksmiðjumálsins á árunum 1980–1982, sem leiddi til lagasetningar um verksmiðjuna 7. maí 1982, var gert ráð fyrir að hún gæti orðið alíslenskt stóriðjufyrirtæki, þótt lögin banni út af fyrir sig ekki meðeign erlendra aðila, að minni hluta, með íslenska ríkinu fremur en í öðrum hlutafélögum.

Hins vegar er skýrt tekið fram í 2. gr. laga nr. 70 frá árinu 1982 um verksmiðjuna að verði gerðir samstarfssamningar milli ríkissjóðs og annarra hluthafa skal leggja slíka samninga fyrir Alþingi til staðfestingar. Á það jafnt við um erlenda sem innlenda aðila sem samstarfssamningar yrðu hugsanlega gerðir við. Þetta er mikilsvert atriði og mikilsverð trygging og ég bendi á að heimild til handa ríkisstj. um að leita samvinnu við erlenda aðila, sem rætt er um í þáltill., getur ekki gengið lengra en lög um verksmiðjuna heimila. Gilda þá einu hugmyndir einstakra manna, ráðherra, þm. eða annarra um að breyta þessum lögum. Það verður að sjálfsögðu ekki gert nema með meiri hl. hér á hv. Alþingi. Ég vænti eindregið að til þess komi ekki.

Fyrirvari minn við nál. varðar, eins og hér hefur komið fram, hugmyndir og áform um að draga erlenda eignaraðila til þátttöku í fyrirtækinu. Komi til þess að stjórnvöld beri slíkt erindi upp við Alþingi munum við Alþb.-menn taka afstöðu til þess eftir málsatvikum. Sú stefna hæstv. núverandi iðnrh. að leita eftir erlendri eignaraðild að kísilmálmverksmiðjunni hefur nú þegar tafið það allt frá því að þing kom saman að Alþingi tæki ákvarðandi á þessu máli. Því miður eru horfur á að þessi stefna eigi enn eftir að tefja fyrir ákvörðun um framkvæmdir við verksmiðjuna til næsta hausts og jafnvel fram á næsta ár.

Á sama tíma og verið er að leita eftir erlendri meðeignaraðild að verksmiðjunni hefur verið vanrækt að kanna áhuga innlendra aðila, annarra en íslenska ríkisins, á þátttöku í fyrirtækinu. Það er því til bóta að minna á það atriði, eins og gert er með brtt. við þáltill., en eins og ég benti á í fyrri hluta umr. um till. ber enga nauðsyn til þess fyrir Alþingi að álykta sérstaklega um að ríkisstj. megi leita samvinnu við aðila um eignaraðild að verksmiðjunni að minni hluta til. En á sama hátt breytir slík ályktun litlu því að lögin um verksmiðjuna skera hér úr hversu með skuli farið. Meginatriðið, sem till. kveður á um, er að Alþingi tekur afstöðu til niðurstaðna könnunar á ýmsum þáttum verksmiðjumálsins sem stjórn Kísilmálmvinnslunnar var falið að vinna að í samræmi við 3. gr. laga um verksmiðjuna.

Niðurstöður í skýrslu stjórnarinnar í janúar 1983, sem fylgdi þáltill. um verksmiðjuna og sem lögð var fram á síðasta þingi, voru jákvæðar. Þá var mælt með að ráðist yrði í framkvæmdir og miðað við gangsetningu verksmiðjunnar á árunum 1986–1988 og allur undirbúningur ætti að miðast við gangsetningu hennar á árinu 1986. Síðari athuganir á vegum stjórnar Kísilmálmvinnslunnar, sem skilað var til hæstv. iðnrh. 5. apríl s. l., styðja enn frekar það mál að hér eigi að vera um arðvænlegt fyrirtæki að ræða. Því áliti var í engu hnekkt í þeim viðræðum sem n. átti við aðila sem kvaddir voru á fund hennar.

Menn getur vissulega greint á um hversu líklegt sé að niðurstöður úr afkomuspám fyrir verksmiðjuna standist í reynd, en heimild af hálfu Alþingis til ríkisstj. um að taka ákvörðun um að ráðast í framkvæmdir hlýtur að byggja á sterkum líkum um að verksmiðjan sé þjóðhagslega arðvænlegt fyrirtæki. Ég minni á að allir arðsemisútreikningar miða við raforkuverðið 18 mill á kwst. sem Landsvirkjun telur tryggt að standi fyllilega undir framleiðslukostnaði, t. d. frá Blönduvirkjun. Með því er brotið í blað í verðlagningarstefnu á raforku til stóriðju og horfið frá þeirri meðgjöf í raforkuverði sem við höfum bitra reynslu af í orkufrekum iðnaði hérlendis.

Ég legg áherslu á að stjórn Kísilmálmvinnslunnar hf. fái nú svigrúm til að taka með eðlilegum hætti á málefnum fyrirtækisins eins og hún er kjörin til lögum samkvæmt. Þar hef ég m. a. í huga að sinna þarf með virkari hætti en hingað til markaðsmálum og mótun markaðsstefnu af hálfu fyrirtækisins út frá þeirri forsendu að Íslendingar séu með fullt forræði einnig á því sviði. Ég leyfi mér að vænta þess, virðulegi forseti, að ríkisstj. taki sem fyrst ákvörðun um að hefja framkvæmdir við kísilmálmverksmiðjuna á grundvelli gildandi laga nr. 70/1982 um þetta stórfyrirtæki á Reyðarfirði.