10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 736 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

86. mál, samstarfssamningur Norðurlanda

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. um fullgildingu samkomulags um breytingu á samstarfssamningi Norðurlanda, sem hér er til umr., á sér þá forsögu að undanfarin ár hefur verið rætt um og kannaðar tillögur um aukna aðild Færeyja og Álandseyja að Norðurlandaráði og ráðherranefnd Norðurlandaráðs og um samsvarandi aðild Grænlands. Samkomulag varð í þessum efnum og var það undirritað í Reykjavík 15. júní s.l. á fundi samstarfsráðherra Norðurlanda. Matthías Á. Mathiesen viðskrh. undirritaði samkomulagið fyrir Íslands hönd og er það birt hér sem fskj. Samkomulagið er háð fullgildingu og með till. þessari er leitað heimildar Alþingis til að fullgilda það fyrir Íslands hönd.

Meginbreytingar sem gerðar eru á Helsingforssamningnum eru þessar:

1. Í samningnum er tekið fram að í skólum í sérhverju Norðurlandanna skuli vera fræðsla í tungumálum og um menningu og þjóðfélagsástand á hinum Norðurlöndunum. Þessu ákvæði er breytt til að árétta að það taki til Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

2. Landsþing Grænlands kýs fulltrúa í Norðurlandaráðið.

3. Í stað 78 kjörinna fulltrúa í Norðurlandaráði verða nú 87 fulltrúar: frá Danmörku 16 (óbreytt), Finnlandi 18 (áður 17), Íslandi 7 (áður 6), Noregi og Svíþjóð 20 áður 18, Álandseyjum 2 (áður 1), Færeyjum 2 (óbreytt) og Grænlandi 2 (enginn áður). Deildir Færeyja og Grænlands starfa í deild danska ríkisins og deild Álandseyja í deild finnska ríkisins.

4. Stjórn Álandseyja og landstjórnir Færeyja og Grænlands taka þátt í starfi ráðherranefndarinnar. Ákvörðun ráðherranefndarinnar er bindandi fyrir Álandseyjar, Færeyjar og Grænland í þeim mæli sem löndin fallast á hana í samræmi við sjálfstjórnarreglur.

Þá hafa og verið gerðar breytingar á Helsingforssamningnum varðandi kostnaðarskiptingu svo og breytingar á menningarmálasamningi Norðurlanda og samkomulagi um samstarf á sviði flutninga og samgangna, en það er ekki óskað eftir sérstakri fullgildingu á þeim síðasttöldu breytingum þar sem þess er ekki talin þörf. Bæði er að samningur um þau atriði mun ekki hafa áður verið fullgiltur af Alþingis hálfu og talið er að um svo litilvægar breytingar sé að ræða að eigi þarfnist sérstakrar fullgildingar.

Herra forseti. Ég geri það að tillögu minni að þessari till. til þál. verði vísað til utanrmn.