19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6374 í B-deild Alþingistíðinda. (5891)

28. mál, afnám bílakaupafríðinda embættismanna

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur haft til meðferðar till. til þál. um afnám bílakaupafríðinda embættismanna. Þessi umr. hefur einnig staðið í þjóðfélaginu. Það fer ekki á milli mála að eins og þetta hefur verið framkvæmt má segja að þetta sé hluti af kjarasamningum. En að því leyti er þetta sérstætt, að eins og það hefur verið afgreitt þýðir þetta í reynd skattfríðindi handa ákveðnum hópum manna.

Allshn. hefur því lagt til að till. verði samþykkt með breytingu sem hún flytur á sérstöku þskj. og ég vil með leyfi forseta lesa upp:

Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um að felldar verði úr gildi þær reglur sem nú kunna að gilda gagnvart yfirmönnum ríkisstofnana, svo sem ríkisbanka og Framkvæmdastofnunar, um fríðindi hliðstæð þeim er ráðherrar hafa notið varðandi bifreiðakaup.“

Hér er sú ein efnisleg breyting gerð á að í staðinn fyrir forsrh. felum við ríkisstj. að hlutast til um málið. Hugsunin á bak við það var sú m. a. að þær stofnanir sem þarna ættu hlut að máli heyrðu ekki allar beint undir forsrh. en þær heyrðu allar undir einhvern af ráðh. ríkisstj. Ég lít svo á að með þessari brtt., sem er mjög óveruleg, sé fyrst og fremst tekið á framkvæmdaþætti þessa máls en ekki efnisatriðum.