19.05.1984
Sameinað þing: 92. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6391 í B-deild Alþingistíðinda. (5906)

380. mál, utanríkismál

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er vissulega miður að framhald þessarar umr. fer hér fram að hæstv. utanrrh. fjarverandi því að hugmynd mín var að beina hér örfáum fsp. til hans í sambandi við þá skýrslu sem fram hefur verið lögð og hér var til umr. í fyrradag. (Forseti: Má ég vekja athygli hv. ræðumanns á því að staðgengill utanrrh., sem gegnir nú störfum utanrrh., er hæstv. iðnrh. sem er hér í salnum.) Já, ég þakka hæstv. forseta fyrir þessa ábendingu og það má vera að hæstv. iðnrh. geti leyst úr einhverju af mínum fsp. En þó mun ég ekki síður beina þeim til hv. 4. þm. Norðurl. v., sem gegnir formennsku nú í utanrmn. og er trúlega kunnugra um þau efni sem ég mun aðeins víkja að en hæstv. iðnrh., og vefengi ég þó ekki að hann hafi reynt að fylgjast með í utanríkismálum eins og á fleiri sviðum.

Ég vil taka undir þakkir sem fram hafa komið fyrir skýrslu hæstv. ráðh. og einnig fyrir þá skýrslu um norrænt samstarf á síðasta ári sem mælt var fyrir hér í fyrradag. Vissulega er mjög gagnlegt að fá slík plögg hér fyrir þingið en jafnljóst að þau eru óþægilega seint fram komin, þannig að umr. verða takmarkaðri af þeim sökum og gagnsemi þeirra fyrir þingið.

Viðhorf okkar Alþb.-manna til meginþátta utanríkismála hafa komið fram hjá talsmönnum sem hafa tekið til máls hér fyrr í umr., hv. 3. þm. Reykv. og hv. 4. þm. Norðurl. e., sem fluttu hér allítarlegar ræður sem ég get vísað til og tek undir þau sjónarmið sem þar komu fram.

Eitt stærsta áhyggjuefni í sambandi við þann þátt utanríkismála sem varðar dvöl hins bandaríska herliðs hér á landi er vaxandi samtvinnun á herlífi og þjóðlífi, eins og kannske má orða það, þ. e. hvernig herstöðin er að verða æ gildari þáttur og að því er virðist æ sjálfsagðari þáttur í íslensku efnahagslífi í hugum margra hv. alþm. og hjá þeim sem mestu ráða um okkar utanríkismál. Í því sambandi nægir að minna á þá umr. sem fram hefur farið að undanförnu um flutninga í þágu herliðsins með skipum og þá áherslu sem lögð er á að íslensk skipafélög haldi sýnum hlut í þeim efnum. Ég held að fátt varpi skýrara ljósi á það hversu samtvinnaðir sterkir hagsmunir eru og það í vaxandi mæli í sambandi við efnahagslíf landsmanna. Bygging flugstöðvarinnar, sem mikið hefur verið rædd á undanförnum árum og á yfirstandandi þingi, er einnig skýrt dæmi um þetta svo og og ekki síður nýjar radarstöðvar norðanlands og austan og kannske víðar á landinu sem einnig hafa verið til umr. Ég veitti því athygli að hæstv. forsrh. vék að því máli og það var sérstök huggun í hans huga að íslenskir menn gætu starfað við hernaðarmannvirki. Lýsir það vel inn í þann sama hugarheim sem ég hef gert hér að umtalsefni, um samtvinnun hernaðarhagsmuna Bandaríkjanna og íslensks þjóðlífs, íslensks efnahagslífs.

Ég ætlaði hins vegar ekki að gera einstök atriði varðandi þessi efni að umtalsefni hér en vildi þó bæta við það sem fram kemur í skýrslu hæstv. utanrrh. varðandi málefni Mið-Ameríku, þar sem fram koma að mínu mati mjög óeðlilegar áherslur, svo ekki sé tekið dýpra í árinni, í sambandi við mat á þeirri þróun sem orðið hefur í þeim heimshluta, í EI Salvador og Nicaragua og raunar víðar. Nægir að benda á það sem um þetta er fjallað á bls. 13 í skýrslu utanrrh. Ég vil aðeins lýsa þeirri skoðun að ég tel brýnt að hæstv. utanrmn. fjalli um þessi efni og fordæmi með ákvarðandi hætti þá augljósu íhlutun sem Bandaríkjastjórn stendur fyrir í málefnum Nicaragua, varðandi m. a. tundurduflalagnir fyrir ströndum úti og annað sem varðar stuðning og beina þátttöku í hernaðaríhlutun með aðstoð svonefndra skæruliðasveita frá Honduras í málefni Nicaragua.

Það er einnig athyglisvert hvernig hæstv. utanrrh. kýs að orða viðhorf sitt til málefna El Salvador í skýrslu sinni, þar sem hann leggur nokkuð að jöfnu málefni þeirra sem berjast fyrir frelsi landsins, víðtækari lýðréttindum alþýðu í landinu annars vegar og hinna hægrisinnuðu morðsveita sem farið hafa fram með dæmafáum hætti gagnvart almenningi í landinu. Það segir sína sögu um almennt viðhorf til hræringa í þessum heimshluta það sem fram kemur frá hæstv. ráðh. um þetta efni í skýrslu hans. Ég vona hins vegar að takast megi að fjalla um þessi efni í utanrmn. fyrr en seinna og þar verði leitað samstöðu til að fordæma þá yfirgangsstefnu sem Bandaríkin beita einstök ríki í þessum heimshluta.

Ég tek það skýrt fram, herra forseti, að það er vissulega þörf á því fyrir okkur að hafa vakandi auga á þróun í öðrum heimshlutum og fordæma íhlutun stórvelda þar, þar sem Afghanistan er lýsandi dæmi um hroðalega íhlutun gagnvart nágrannaríki Sovétríkjanna og sem fyllsta ástæða er til að fordæma mjög harðlega.

Ég vildi víkja hér aðeins að tveimur till. sem vísað hefur verið til hv. utanrmn. Ég er flm. að annarri þeirra ásamt fulltrúum fimm þingflokka hér á Alþingi, þ. e. till. um fordæmingu á hernaðaríhlutun Bandaríkjanna og fylgiríkja þeirra í Grenada á síðasta hausti. Ég þykist vita að sú till. hafi verið til umr. í utanrmn. en hún hefur ekki enn hlotið þar afgreiðslu. Ég vil inna starfandi formann utanrmn., hv. 4. þm. Norðurl. v., eftir því hvort þess sé ekki að vænta að frá utanrmn. komi afgreiðsla á þessari till. sem er 74. mál þingsins. Ég minni á þá samþykkt sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gerði í þessu máli og einnig allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þann 2. nóv. 1983. Ég teldi ekki óeðlilegt að Alþingi Íslendinga tæki undir þessar ályktanir og fordæmdi þessa grímulausu íhlutun og brot á alþjóðalögum sem þarna fór fram.

Ég vil aðeins minna á það að margt í þróun mála í Grenada frá því að innrásin var gerð sýnir með skýrum hætti að sú rétttæting sem fram var borin af Bandaríkjastjórn fyrir þessari íhlutun var léttvæg. Margt hefur komið fram sem leitt hefur það í ljós, t. d. það atriði sem fram var borið, og ef ég man rétt tók hæstv. utanrrh. undir það hér þegar hann skýrði sína afstöðu til málsins í umr. utan dagskrár. Þar á ég við þá staðhæfingu bandarískra stjórnvalda að bygging flugvallar á eynni væri liður í því að gera Grenada að stökkpalli fyrir sovéskar og kúbanskar hersveitir, en flugvöllur þessi væri ekki þáttur í að efla ferðamannastarfsemi á eynni, eins og fram hafði verið borið af stjórnvöldum þarlendis og bent var á í umr. um þessi mál á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Það er athyglisvert að síðan þetta gerðist hefur það komið fram að bandarískum stjórnvöldum hefur snúist hugur í þessum efnum. Stofnanir þarlendis hafa lýst því mati sínu að þessi flugvöllur sé ekki til þess fallinn að þjóna herflugvélum af þeirri gerð sem Bandaríkjastjórn hafði haldið fram og beinlínis mælt með því að lokið verði við gerð þessa flugvallar með þeim hætti sem fyrirhugað hafði verið. Þetta er eitt dæmi af mörgum sem sýnir að tilburðir bandarískra stjórnvalda til réttlætingar á þessari innrás voru ekki á rökum reistir og þeir sjálfir hafa átt hlut að því að afhjúpa það með mjög ákvarðandi hætti. Ekki meira um þessa till.

En þá minni ég á aðra till. sem ég flutti hér fyrr á þinginu, 186. mál þingsins, sem var till. til þál. um takmörkun á umsvifum erlendra sendiráða hérlendis. Þar var lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að setja reglur um takmarkanir á umsvifum erlendra sendiráða hérlendis, m. a. varðandi fjölda sendiráðsmanna og byggingu og kaup fasteigna á grundvelti laga nr. 16/1971 og laga nr. 30/1980. Gert var ráð fyrir því f till. að við mótun á reglum verði m. a. höfð hliðsjón af smæð íslensks samfélags og af starfsemi og aðbúnaði að íslensku utanríkisþjónustunni í löndum sem Íslendingar hafa stjórnmálasamband við og starfrækja sendiráð í. Í grg. og þeirri ræðu sem ég flutti þegar ég mælti fyrir þessari till. lagði ég ríka áherslu á að gagnkvæmnissjónarmið yrðu látin ríkja í þessum efnum og minnti á þá fótfestu sem við höfum í Vínarsamningnum um þessi efni til að koma hér á eðlilegri skipan mála. Ég lagði fyrst og fremst áherslu á þau óeðlilegu umsvif sem risaveldin tvö hafa hérlendis í sambandi við sendiráðsstarfsemi og hversu gífurlega hallar á miðað við sendiráðsstarfsemi Íslendinga í viðkomandi löndum. Ég minnti m. a. á þær miklu og óeðlilegu takmarkanir sem íslenska sendiráðið í Moskvu á við að búa á sama tíma og ekkert hliðstætt er gert hér gagnvart sendiráði Sovétríkjanna á Íslandi. Og ég minnti á þær takmarkanir í sambandi við vegabréfsáritanir til Bandaríkjanna sem látnar eru viðgangast og eru bein móðgun við íslenska þegna. Útfærslan á reglum um vegabréfsáritanir eru á þann veg að þar er um einhliða framkvæmd að ræða.

Ég vil inna hv. 4. þm. Norðurl. v. eftir því hvort ekki sé að vænta þess að hv. utanrmn. taki á þessu máli og skili áliti um það til Alþingis. Hæstv. utanrrh. tók að mörgu leyti mjög jákvætt undir þetta efni þegar till. var til umr. hér fyrr á þinginu en greindi frá því að könnun færi fram af hálfu utanrrn. á þessum málum með tilliti til þess hvernig á þeim er haldið í ýmsum löndum. Ég vil inna hv. þm. eftir því hvar þetta mál er á vegi statt í hv. utanrmn. og ég vil inna hann eftir eigin viðhorfi til þessa máls.

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykn., Gunnar G. Schram, minntist hér í umr. á hvalveiðimálefni. Ég ætla alls ekki að fara að gera þau hér að umtalsefni í minni ræðu en vil þó rétt víkja að því sem fram kom hjá hv. þm. Hann taldi að Íslendingar ættu að leggja fram þegar í sumar undanþágubeiðni í alþjóðahvalveiðiráðinu varðandi hvalveiðar við Ísland. Ég vil aðeins með almennum orðum vara mjög eindregið við því að í nokkru verði horfið frá þeirri stefnu sem tekin var hér á hv. Alþingi um þetta efni á síðasta þingi. Mér er mjög til efs að það þjóni hagsmunum Íslendinga á heildina litið að ætla sér að taka á því efni með öðrum hætti. Ég læt þetta nægja í ljósi þess að tími okkar til umr. er mjög takmarkaður.