10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (591)

Umræða utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér þykir leitt að það er nokkuð farið að fækka hérna í salnum. Ég hafði óskað eftir þessu tækifæri fyrir tveimur dögum en féllst á að draga það af tillitssemi við menn sem vildu gjarnan taka þátt í þessari umr., en síðan átti ég von á að hún yrði strax kl. 2 í dag. Engu að síður vil ég þakka fyrir það tækifæri sem mér er veitt til að hefja umr. utan dagskrár um efni sem varðar hvern einasta þegn þessa þjóðfélags, þ.e. niðurstöður rannsókna fiskifræðinga á ástandi þorskstofnsins, tillögur þeirra um aflamagn og ráðstafanir stjórnvalda í framhaldi af þeim uggvænlegu niðurstöðum.

Ég hlýt að lýsa undrun minni á því að skýrsla fiskifræðinganna, sem lögð var fram í síðustu viku, skyldi ekki vera birt alþm. þá þegar. En þar sem nú eru liðnir 8 dagar frá birtingu skýrslunnar má ætla að efni hennar hafi þegar verið rætt ítarlega í ríkisstj. og við hagsmunaaðila og því er þess að vænta að viðbrögð stjórnvalda séu farin að skýrast.

Um allt land bíður fólk í ofvæni eftir fréttum af aðgerðum ráðamanna, hvernig þeir hyggjast bregðast við þeim hrikalega vanda sem nú blasir við okkur öllum. Það er ekki bara togarasjómaðurinn, fiskverkunarkonan og útgerðarmaðurinn sem sjá nú fram á óvenjumagurt ár. Þorskstofninn og þjóðarbúið eru sameign okkar allra. Það er fyrst og fremst sjávarútvegurinn sem hefur staðið undir því þjóðfélagi sem við nú búum við. Það er hann sem er meginundirstaða efnahagslífs okkar. Því miður höfum við nú komist að raun um að þessi auðlind er ekki óþrjótandi. Við höfum ekki kunnað með hana að fara. Við getum ekki afsakað okkur með því að hafa enga viðvörun fengið. Fiskifræðingar hafa svo sannarlega margsinnins á undanförnum árum varað við ofveiði og lagt til að dregið væri úr sókn í þá fiskstofna sem í mestri hættu væru. Á það var ekki hlustað nóg og nú uppskerum við í samræmi við þá skelfilegu skammsýni.

Þær raddir hafa heyrst að fiskifræðingar hafi ekki tæknina nægilega á valdi sínu og spár þeirra hafi aldrei reynst réttar. Hér má ekki rugla saman spádómum um hvað hugsanlegt sé að veiða af þorski og tillögum um skynsamlega nýtingu stofnsins. Á árunum 1976–1980 lögðu fiskifræðingar árlega til að ekki yrði farið yfir ákveðið aflamagn til að stofninn næði að byggja sig upp. Þeir spáðu engu um það hverju hægt væri að ná með ótakmarkaðri sókn. Öll árin var veitt miklu meira en fiskifræðingar lögðu til. Af því erum við nú að súpa seyðið.

Aflaforsendur í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984 miðast við 300–320 þús. tonna þorskafla á næsta ári. Augljóst er nú að þær forsendur fá ekki staðist, eins og ég hef reyndar áður lýst efasemdum um. Sá samdráttur sem nú blasir við er talinn geta þýtt 3.5% minnkun þjóðarframleiðslu og 12–13% samdrátt útflutningsframleiðslu. Og hvað er þá orðið um þann grunn sem fjárlagafrv. fyrir 1984 er reist á? Það er talað um allt að 1 000 ársverka samdrátt í fiskiðnaðinum ef þorskaflinn verður 200 þús. tonn en annar afli álíka og nú. Við hljótum þó að taka tillit til niðurstaðna rannsókna vísindamanna okkar. Þeir segja m.a. í skýrslu sinni, þar sem þeir fjalla um horfur og tillögur um aflahámark 1984, með leyfi forseta:

„Ef veidd verða 300 þús. tonn á árinu 1984 má ætla að heildarstofninn minnki um rúmlega 100 þús. tonn. Við 250 þús. tonna veiði minnkar heildarstofninn tímabundið um 50 þús. tonn en nær sömu stærð árið eftir. Við 200 þús. tonna veiði mun heildarstofnstærðin standa í stað en fara svo vaxandi er fram í sækir. Þróun hrygningarstofns er á svipaðan veg. Við 300 þús. tonna veiði minnkar hrygningarstofninn, við 250 þús. tonna veiði stendur hann nánast í stað og við 200 þús. tonna veiði fer hann vaxandi. Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að stuðla að vexti þorskstofnsins á komandi árum í þeim tilgangi að auka afrakstur stofnsins í náinni framtíð. Þær niðurstöður sem nú liggja fyrir um ástand stofnsins benda til þess að þessu markmiði verði ekki náð nema með því að takmarka þorskafla á næsta ári við um 200 þús. tonn.“

Sjútvrh. sagði á fundi Landssambands ísl. útvegsmanna fyrir síðustu helgi að menn yrðu að horfast í augu við vandann og taka nauðsynlegar ákvarðanir. Orðrétt sagði hann, með leyfi forseta: „Þær verða sumar sárar en sárast af öllu er að ganga allt of nærri eigin fjöreggi. Slíkt er skeytingarleysi við landið, sjálfstæði þess og sjálfsforræði.“

En hann sagði einnig, með leyfi forseta: „200 þús. tonna þorskafli á árinu 1984 eru aflabrögð sem bjóða upp á hættu á verulegu atvinnuleysi og rýrari lífskjör en við búum við í dag og þykja þau þó nánast óbærileg þegar.“

Þetta vil ég undirstrika. Við hljótum að taka tillit til niðurstaðna fiskifræðinga, en um leið verður að tryggja að þær aðgerðir sem grípa þarf til komi ekki niður á þeim sem verst eru settir. Og nú spyr ég hæstv. sjútvrh.: Hvaða ákvarðanir koma til greina? Hvað hefur verið gert til að mæta þessum vanda? Hvað er verið að gera? Og hvað verður gert? Ætlar ríkisstj. að fara að tillögum fiskifræðinga um 200 þús. tonna þorskafla á næsta ári og hvað verður gert til að koma í veg fyrir atvinnuleysi meðal sjómanna og fiskverkafólks af þessum sökum?