21.05.1984
Sameinað þing: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6401 í B-deild Alþingistíðinda. (5912)

358. mál, kjörskrárstofn fyrir Alþingiskosningarnar 1983

Fyrirspurnin er í fjórum liðum og hljóðar svo:

1. Hversu margir voru þeir erlendu ríkisborgarar sem felldir voru út af kjörskrárstofni fyrir alþingiskosningarnar 1983 en hefðu átt að vera þar ef fylgt hefði verið sömu reglu og við gerð kjörskrárstofns 1979?

2. Hve margir þessara erlendu ríkisborgara voru teknir inn á kjörskrá af sveitarstjórnum við fullnaðarfrágang kjörskrár við alþingiskosningarnar 1983?

3. Er ráðherra ljóst að hér á landi er talsverður hópur fólks sem hafði kosningarrétt til Alþingis og hefur íslenskt vegabréf, en var fellt út af kjörskrá 1983?

4. Mun ráðherra beita sér fyrir því að réttarstöðu þessa fólks verði komið á hreint?

Svör:

1. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru 1050 einstaklingar, 20 ára og eldri, ekki teknir á kjörskrárstofna sem sendir voru sveitarstjórnum utan Reykjavíkur vegna alþingiskosninganna 1983 þar sem þeir voru skráðir erlendir ríkisborgarar í þjóðskrá, en hefðu verið teknir á kjörskrárstofn ef fylgt hefði verið sömu reglu og áður. Í Reykjavík var um að ræða 1230 einstaklinga, en þar varð ekki breyting á gerð kjörskrárstofna frá því sem verið hafði.

2. Engin gögn eru um það, hvorki í dómsmálaráðuneyti né hjá Hagstofu, hverjar breytingar sveitarstjórnir gera á kjörskrárstofnum.

Rétt er að taka fram að í leiðbeiningum, sem fylgdu kjörskrárstofnum 1983, var vakin athygli á því að erlendir ríkisborgarar væru þá ekki teknir á kjörskrárstofna við alþingiskosningar og að sveitarstjórnir þyrftu að athuga að á íbúaskrá kynnu að vera einstaklingar sem væru nýorðnir íslenskir ríkisborgarar eða ranglega taldir erlendir borgarar. Ef svo væri skyldu þeir teknir á kjörskrá. Sama gilti um danska ríkisborgara sem hér hafa kosningarrétt samkvæmt lögum nr. 85/1946.

Ráðuneytinu er hins vegar kunnugt um að í mörgum tilvikum fór fram könnun á ríkisfangi einstaklinga. Reyndust sumir vera íslenskir ríkisborgarar, aðrir vera erlendir ríkisborgarar sem sótt höfðu um íslenskt ríkisfang en ekki fullnægt áskilnaði um nafnbreytingu, og enn aðrir danskir ríkisborgarar sem hér njóta jafnréttis á við íslenska ríkisborgara. Jafnframt er kunnugt um einstaklinga sem réttilega voru skráðir erlendir ríkisborgarar en höfðu þó verið á kjörskrá við fyrri kosningar.

3. Ráðuneytið hefur haft spurnir af því að á endanlega kjörskrá hafi vantað nöfn einstaklinga þar sem þeir voru ranglega taldir erlendir ríkisborgarar í íbúaskrá. Þau tilvik eru örfá.

4. Ætla verður að í þeim tilvikum, þar sem ríkisfang var ranglega fært í íbúaskrá, hafi gögnum um hið rétta verið komið til þjóðskrár. Ljóst er að íbúaskrá er ekki örugg heimild um ríkisfang og þurfa þeir, sem verða varir við ranga færslu þar, að koma leiðréttingu á framfæri. Handhöfn íslensks vegabréfs þarf ekki að vera full sönnun ríkisfangs. Árlega koma upp fjölmörg tilvik til athugunar í ráðuneytinu þar sem vafi er um ríkisfang, og ef í ljós kemur röng færsla í íbúaskrá er leiðréttingu komið á framfæri. Að því er varðar kjörskrárgerð verður að leggja á það áherslu að sveitarstjórn ber ábyrgð á undirbúningi og endanlegri gerð kjörskrár og að þar er um vandasamt ábyrgðarstarf að ræða. Kjörskrárstofn frá þjóðskrá er þar að sjálfsögðu mikilvægt heimildargagn sem sveitarstjórn ber að leiðrétta eftir þörfum.

Að því er varðar þá breytingu, sem gerð var á kjörskrárstofnum 1983 þegar erlendir ríkisborgarar voru felldir af kjörskrárstofni, verður að ætla að sú skipan hafi leitt til traustari kjörskráa en áður. Þau tiltölulega fáu tilvik að nafn hafi ranglega vantað á kjörskrá ættu ekki að endurtaka sig. Jafnframt hverfur sú hætta sem var að á kjörskrá væru teknir erlendir ríkisborgarar sem þar eiga ekki að vera.