21.05.1984
Sameinað þing: 93. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6405 í B-deild Alþingistíðinda. (5913)

Minnst látins þingmanns

Forseti (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Sú harmafregn barst í gærmorgun að Ólafur Jóhannesson alþm. og fyrrv. forsrh. hefði andast nóttina áður, aðfaranótt sunnudagsins 20. maí. Fyrir tæpum mánuði fór hann af Alþingi til sjúkrahúsdvalar en átti ekki afturkvæmt hin að. Hann var aldursforseti Alþingis, 71 árs að aldri.

Ólafur Jóhannesson var fæddur 1. mars 1913 í Stórholti í Fljótum. Foreldrar hans voru Jóhannes Friðbjarnarson bóndi þar og kennari og síðar bóndi á Lambanesreykjum í Fljótum og Kristrún Jónsdóttir kona hans. Hann brautskráðist úr Menntaskólanum á Akureyri vorið 1935 og lauk lögfræðiprófi úr Háskóla Íslands vorið 1939 að loknum glæsilegum námsferli. Hann varð héraðsdómslögmaður 1942 og stundaði framhaldsnám í Stokkhólmi og Kaupmannahöfn 1945–1946. Hann var lögfræðingur og endurskoðandi hjá Sambandi ísl. samvinnufélaga 1939–1943, var yfirmaður endurskoðunarskrifstofu Sambandsins 1942–1943 og rak jafnframt með öðrum lögmanni málflutningsskrifstofu í Reykjavík 1940–1943. Í viðskiptaráð var hann skipaður í júní 1943 og starfaði þar rúmt ár. Haustið 1944 varð hann framkvæmdastjóri félagsmáladeildar Sambands ísl. samvinnufélaga og lögfræðilegur ráðunautur þess og kaupfélaganna. Hann var stundakennari við Samvinnuskólann 1937–1943 og við Kvennaskólann 1942–1944. Í febr. 1947 varð hann prófessor í lagadeild Háskóla Íslands og kenndi þar þangað til hann varð forsrh. sumarið 1971. Starfi sínu við Háskólann sagði hann lausu 1978.

Við inngöngu Íslendinga í Sameinuðu þjóðirnar 1946 var Ólafur Jóhannesson einn af fulltrúum á þingi þeirra. Hann var í útvarpsráði 1946-1953, formaður þess frá 1949, endurskoðandi Sambands ísl. samvinnufélaga 1948–1960, í stjórn Háskólabíós 1949–1971, í stjórn Seðlabanka Íslands 1957–1961 og í bankaráði hans 1961–1964, í stjórn hugvísindadeildar Vísindasjóðs 1958–1962, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs togarasjómanna, síðar Lífeyrissjóðs sjómanna 1959–1971, stjórnarformaður prentsmiðjunnar Eddu 1962–1979, fulltrúi í Norðurlandaráði 1963–1969 og tók síðan þátt í störfum ráðsins sem ráðh. og í Þingvallanefnd var hann 1974–1980.

Ólafur Jóhannesson átti sér langan og merkan starfsferil. Að námi loknu tóku við lögfræðistörf og lögfræðikennsla. Varð hann vel til þeirra starfa búinn, samdi kennslubækur og önnur rit og fjölda ritgerða um lögfræðileg efni og var oft kvaddur til dómarastarfa í Hæstarétti í fjarveru aðaldómaranna. Á árinu 1954 varð hann félagi í Vísindafélagi Íslendinga. Í stjórnmálum skipaði hann sér ungur í flokk framsóknarmanna. Hann var formaður Félags ungra framsóknarmanna 1941, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur 1954, tók sæti í miðstjórn Framsfl. 1946, varð varaformaður hans 1960–1968, formaður 1968–1979 og formaður þingflokksins 1969–1971.

Við alþingiskosningarnar 1956 var hann í framboði fyrir flokkinn í æskuhéraði sínu, Skagafjarðarsýslu, var kjörinn varaþm. og tók fyrsta sinn sæti á Alþingi vorið 1957. Í vorkosningum 1959 var hann kjörinn þm. Skagfirðinga. Eftir kjördæmabreytinguna það ár varð hann þm. Norðurl. v. og var þm. þess kjördæmis tvo áratugi. Hann hvarf þó ekki af Alþingi árið 1979 því að hann varð þá við áskorun um framboð í Reykjavík og var upp frá því þm. Reykvíkinga. Hann sat á 29 þingum alls. Á 14 þingum átti hann sæti í ráðherrastól.

Í júlí 1971 myndaði hann ríkisstj. og var forsrh. fram í ágúst 1974 og jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra. Við stjórnarskiptin 1974 varð hann dóms- og kirkjumálaráðherra og viðskrh. Að því stjórnartímabili loknu um mánaðamótin ágúst/september 1978 myndaði hann ríkisstj. öðru sinni og var forsrh. fram í miðjan okt. 1979. Að lokum varð hann utanrrh. frá því í febr. 1980 fram í maí 1983.

Af starfsferli Ólafs Jóhannessonar, sem hér hefur verið rakinn, má ljóst vera að við fráfall hans er á bak að sjá mikilhæfum fræðimanni og stjórnmálaleiðtoga sem lokið hefur miklu ævistarfi. Honum var falið forustuhlutverk þjóðar sinnar innanlands og í samskiptum við aðrar þjóðir. Hann gegndi mikilvægum störfum í ríkisstj. á þeim árum sem síðustu áfangarnir náðust í stækkun fiskveiðilandhelgi Íslands í 200 mílur. Sýndi hann í þeim málum sem oftar staðfestu og stjórnvisku. Öll störf sín rækti hann með vandvirkni og látleysi, var gjörhugull og glöggskyggn.

Ekki fór hjá því um slíkan forustumann að skoðanir manna væru skiptar um einstakar ákvarðanir og einstök verk. Ekki er þó að efa að hann vann af heilindum og í samræmi við lífsskoðun sína og þjóðmálastefnu og það sem hann taldi þjóðinni fyrir bestu.

Á Alþingi hafði hann mest afskipti af stjórnsýslumálum, dóms- og utanríkismálum auk umr. um stjórnmál almennt. Hann var stefnufastur, talaði skipulega í ræðustól og varði málstað sinn með festu þegar á reyndi. Hann var þeim mannkostum búinn að hann naut mikils trausts og virðingar samþm. sinna og nú er hann kvaddur með söknuði og samúð með þeim sem næst honum stóðu og mest hafa misst.

Ég vil biðja hv. alþm. að minnast Ólafs Jóhannessonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]