10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

Umræða utan dagskrár

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er ekki að ástæðulausu að þessi mál eru rædd hér á Alþingi og er að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera það. Hitt er svo annað mál að hér er um svo margslungið og mikilvægt mál að tefla að það verða hvorki teknar í því skjótar ákvarðanir að öllu leyti né gerð viðhlítandi grein fyrir því sem fram undan er nú á næstunni. Ég vil segja að það er ánægjulegt að heyra að háttvirtir þm. telja eins og kom fram í ræðu hv. 7. landsk. þm. hér áðan að sjávarútvegurinn væri sá grunnur sem við byggjum á. Að sjálfsögðu er það rétt. Það væri betur að á því væri almennur skilningur í þjóðfélaginu að svo væri, m.a. þegar teknar eru ákvarðanir hér á Alþingi um fjárlög, erlendar lántökur og annað sem mætti lengi telja. Ég hef nú ekki orðið var við það á undanförnum árum oft og tíðum að sá skilningur væri nægilega ríkur. Það væri betur að menn gerðu sér almennt betri grein fyrir því hvað sjávarútvegurinn er í reynd mikilvægur þjóðarbúinu í heild.

Þess vegna er það að sjálfsögðu mjög mikilvægt þegar þjóðhagsáætlun er gerð á hverjum tíma að það liggi fyrir sem bestar upplýsingar um það hvert aflamagn geti orðið fyrir það ár sem þjóðhagsáætlunin er gerð fyrir. Það eru um það lagafyrirmæli hvenær þjóðhagsáætlun skuli lögð fram og þeim lagafyrirmælum er að sjálfsögðu reynt að hlíta. Hins vegar hafa aldrei legið fyrir fullnægjandi niðurstöður um ástand fiskstofna þegar þjóðhagsáætlun hefur verið lögð fram og er það að sjálfsögðu mjög alvarlegur veikleiki í þessari áætlun miðað við þá þýðingu sem sjávarútvegurinn hefur fyrir gerð hennar og afkomu þjóðarbúsins í heild.

Á s.l. vori stuttu eftir að núv. ríkisstj. tók við völdum gengu fiskifræðingar á minn fund og tjáðu mér það að ástand þorskstofnsins væri verra en þeir höfðu gert ráð fyrir haustið áður þegar þeir mæltu með því að veidd yrðu 350 þús. tonn og sögðust nú vilja mæla með því að veidd yrðu 300 þús. tonn. Eftir samráð við hagsmunaaðila og nánari athugun á málinu kom í ljós að mjög ólíklegt væri að þorskaflinn færi svo neinu næmi yfir 300 þús. tonn miðað við það að aflabrögð væru þau sömu og árið áður. Það sem eftir væri ársins gæti hann mestur orðið 320 þús. tonn. Þannig að ekki þótti tilefni til neinna sérstakra aðgerða vegna þessarar viðvörunar enda hefur komið í ljós að aflinn mun vart verða meiri en 290 þús, tonn. Við gerð þjóðhagsáætlunar í sumar þá kallaði ég að sjálfsögðu fiskifræðinga á minn fund og einnig hafði Þjóðhagsstofnun náið samstarf við þá. Þá lágu ekki fyrir niðurstöður varðandi þorskrannsóknir — síðasti leiðangur var eftir það — og fyrstu upplýsingar komu ekki fyrr en þennan dag, þ.e. a. s. þriðjudaginn fyrir rúmri viku síðan. Það var seinni part dags sem haft var samband við mig og ég fékk þá þessar upplýsingar þennan nefndan þriðjudag. Þegar þjóðhagsáætlun var gerð lá sem sé ekki annað betra fyrir en að gera ráð fyrir svipuðum eða sama afla og árið áður.

Í þessu sambandi vil ég geta þess að ég vil á engan hátt gera lítið úr rannsóknum sem þessum, langt frá. En reynslan segir okkur einnig mikið og við höfum upplýsingar 60 ár aftur í tímann um þorskafla á Íslandsmiðum og meðalafli síðustu 60 ára er 367 þús. tonn. Á árunum 1923–1932 er þorskaflinn að meðaltati 377 þús. tonn, 1933–1942 292 þús. tonn, 1943–1952 272 þús. tonn, fer síðan mjög vaxandi eftir 1953 eða á þeim áratug 1953–1962 í 472 þús, tonn, 1963–1972 í 404 þús. tonn, 1973-1982 381 þús. tonn. Þannig að aflabrögð sem eru 300 þús. tonn af þorski er veiði sem nánast aldrei hefur tíðkast á Íslandsmiðum og við þurfum að fara liðlega 30 ár aftur í tímann til þess að finna svipaðar tölur.

Það mundi því að sjálfsögðu enginn geta sett fram tölu eins og 200 þús. tonna afla í þjóðhagsáætlun eða aðrar áætlanir nema fyrir því liggi óyggjandi upplýsingar því eins og kom fram í máli hv. þm. þá er þessi afli svo nátengdur kjörum fólksins í landinu að það gerir það enginn að setja fram slíka hluti nema á grundvelli óyggjandi upplýsinga.

Varðandi þá spurningu — eða þá ábendingu — að þessar upplýsingar hafi ekki verið birtar alþm. þá þegar er það vissulega rétt að það er ástæða til þess að gera slíkt, að láta þm. fá almennt sem fyrst alvarlegar upplýsingar; ég tek undir það. Það má segja að það sé spurning um skipulag í stjórnkerfinu og skipulag stofnana hverjum slíkar upplýsingar eru sendar og hvenær.

Þessar upplýsingar bárust mér á þriðjudegi og þeir spurðu um það hvort ég heimilaði það að það yrði skýrt frá þessum niðurstöðum. Ég spurði þeirrar spurningar einnar: Hafið þið hugleitt þessi mál nægilega vel sjálfir og eruð þið nægilega vissir sjálfir til þess að vera tilbúnir að birta upplýsingar? Þeir sögðu það vera og í framhaldi af því voru þær sendar til þeirra aðila sem venja er að senda slíkar upplýsingar, þ.e. allra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Þá voru fram undan mikilvægir fundir þessara aðila og það var mjög mikilvægt að þetta lægi fyrir, bæði að því er varðaði þing Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og LÍÚ.

Þetta skiptir nú ekki meginmáli eins og nú er komið hvernig upplýsingastreymi er í þjóðfélaginu. Hér er um slæmar upplýsingar að ræða og ég á ekki von á því að nokkur hafi verið glaður við að fá þær og enginn hefur verið það en ég get tekið undir það að það er ástæða til þess að íhuga betur og endurskipuleggja slíkt upplýsingaflæði.

Þá er spurt um það hver séu viðbrögð stjórnvalda. Það er að sjálfsögðu allt of snemmt að fullyrða hver verða endanleg viðbrögð. En að sjálfsögðu var þegar sett af stað vinna til að athuga þessi mál betur og það sem skiptir meginmáli er hvernig við metum þessar upplýsingar og hvað við teljum mögulegt að veiða mikið. Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

Þær niðurstöður, sem nú liggja fyrir um ástand stofnsins, benda til þess að þessum markmiðum verði ekki náð nema með því að takmarka þorskafla á næsta ári við um 200 þús. tonn.

Auðvitað eins og þessi orð benda til eru menn ekki vissir í sinni sök. En það, sem fiskifræðingar vilja fyrst og fremst benda á, er að hér megi ekki taka mikla áhættu. Það kemur einnig fram að tölur um stærð hrygningarstofns og afli hrygningarfisks á vetrarvertíð suðvestanlands er háður göngum frá Grænlandi. Það er ekki gert ráð fyrir slíkum göngum.

Ég vil aðeins víkja að þeirri fyrstu spurningu sem kom upp í mínum huga varðandi þessar upplýsingar: Hvað er það sem hefur í reynd gerst frá spánni 1982 og þangað til núna í þeirri spá sem við fáum í hendur 1983? Og við nánari athugun á þessum spám kemur í ljós að í skýrslunni 1982 er gert ráð fyrir því að í þeim árgöngum sem hér eru, þ.e. þorskur á aldrinum 3ja–11 ára, séu 576 millj. fiska en í skýrslunni nú 537 millj. fiska. Á þessu er að sjálfsögðu nokkur munur. En hér eru einnig skekkjumörk þannig að þessi munur er í reynd ekki mjög mikill. (GS: ...stærðin á hverjum fiski.) Það er nú það sem ég ætlaði að koma að. hv. þm. Garðar Sigurðsson, og ég veit að þú veist manna best að stærð þeirra skiptir að sjálfsögðu meginmáli. En þessar 576 millj. fiska voru 1 416 þús. tonn en nú eru 537 millj. fiska 1 130 tonn — meðalþyngd hefur farið úr 2.46 kílóum í 2.10 kíló. Þannig að það, sem er alvarlegast, er þyngdin og hvenær fiskurinn verður kynþroska en vegna þess hvað hann hefur minnkað þá verður hann síðar kynþroska.

Á morgun er fundur með öllum hagsmunaaðilum og Hafrannsóknastofnun til þess að fara betur yfir þessar niðurstöður, svo að fulltrúum sjómanna, útvegsmanna, fiskvinnslu, Fiskifélags og annarra gefist kostur á því að spyrja fiskifræðinga um þessar niðurstöður og ég vænti þess að í framhaldi af því getum við betur metið það hvað við getum í reynd leyft okkur varðandi veiði á næsta ári og ég get að sjálfsögðu ekki svarað því hér á þessari stundu. Það er mjög mikilvæg ákvörðun og alvarleg ákvörðun og ég tel það ekki ráðlegt að taka hana fyrr en að mjög vandlega yfirveguðu ráði eftir að menn hafa fundað um það.

Eftir að sú ákvörðun er tekin liggur það fyrir að við þurfum að marka hér fiskveiðistefnu á næsta ári sem tekur mið af þeim niðurstöðum. Og það verður einnig erfitt mál. Ég hef látið koma fram ýmsar hugmyndir af minni hálfu og hef gert það á fundum hagsmunasamtakanna og ég skal ekki endurtaka það hér; það er alllangt mál. Á fundi LÍÚ komu fram hugmyndir og á fundi Farmanna- og fiskimannasambandsins en þeir töldu ráðlegt að það yrðu veidd um 300 þús. tonn og þar kom fram með hvaða hætti þeir vildu að sú veiði færi fram.

Það er sem sé í gangi mikil vinna í þessu sambandi eins og ávallt á haustdögum. Það eru stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun, Hafrannsóknastofnun, Fiskifélag Íslands, það eru samtök eins og LÍÚ, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Sjómannasambandið, samtök vinnsluaðila í landinu og það, sem ég hef lagt mikla áherslu á og hef verið að vinna að undanfarna daga, er að koma á samstarfi þessara aðila, föstu samstarfi, þannig að menn viti hvað aðrir eru að gera og geti komið saman reglulega til að bera saman ráð sín. Það verður því sett upp samstarfsnefnd þessara aðila þar sem verða fulltrúar frá sjútvrn., frá Þjóðhagsstofnun, Hafrannsóknastofnun, Fiskifélagi Íslands, LÍÚ, sjómannasamtökunum og frá vinnsluaðilum í landinu. Ég vænti þess að hér verði ekki um mjög fjölmenna nefnd að ræða og ég hef lagt á það áherslu að aðeins yrði einn frá hverjum aðila og vonandi tekst að koma þessu starfi á núna um eða upp úr helginni en ég tel það afar þýðingarmikið vegna þess að það eru starfandi nefndir á vegum allra þessara aðila um fiskveiðistefnuna fyrir næsta ár og mikilvægt er að reyna að samræma sjónarmiðin sem allra best.

Aðrar ákvarðanir, sem teknar hafa verið nú þegar, er m.a. sú að taka til endurskoðunar veiðiheimildir erlendra þjóða í fiskveiðilögsögu Íslands og fleira er að sjálfsögðu þýðingarmikið sem þarf að taka upp í þessu sambandi.

Ég vil svo að lokum leggja á það áherslu að það, sem verður erfiðast í þessu máli, er að aðlaga þjóðfélagið í heild að þeim viðhorfum sem þarna hafa skapast. Og það er e.t.v. það vandamál sem ávallt hefur verið erfiðast í íslensku þjóðfélagi því að við höfum ekki, Íslendingar, í reynd viljað taka mið af þeim aðstæðum sem hafa skapast í sjávarútvegi og á það oft og tíðum jafnt við um Alþingi Íslendinga og hina ýmsu hópa í þjóðfélaginu.

Það er alveg ljóst að sjávarútvegurinn þolir ekki aukna byrði á neinn hátt. Það þarf fremur að létta byrði af honum. Og það verður áreiðanlega sársaukafullt fyrir margan sem væntir þess að geta haldið áfram með opinberar framkvæmdir, með framkvæmdir á eigin vegum, með alls konar útgjöld, að sætta sig við þá staðreynd. Þannig að það getur enginn einn maður, hvorki ég né aðrir, svarað því á þessari stundu hvernig mál þetta endar.

Það skiptir þar höfuðmáli að almennur skilningur sé í þjóðfélaginu fyrir þessum aðstæðum og það er mjög mikilvægt að sá skilningur sé hvað ríkastur hér á hv. Alþingi. Og þess vegna tel ég það mikilvægt að umræður fari hér fram. Það getur að sjálfsögðu ekki orðið nein lokaumræða nú. Það er eðlilegt að þessi mál komi aftur til umr. síðar þegar liggur fyrir um það hvaða ákvarðanir verða teknar um veiði á næsta ári og þegar ákvarðanir liggja fyrir um hvernig veiðinni verður stjórnað þannig að settum aflahámörkum verði haldið.