21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6411 í B-deild Alþingistíðinda. (5934)

298. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Það þarf ekki að vekja athygli hv. þdm. á því að okkur hefur borist bréf frá því ráði sem á að vera Alþingi til leiðsagnar í þessu efni og það er lögum samkv. kjörið til sérstaklega, þ. e. áfengisvarnaráði, og menn hafa þetta á borðum hjá sér og vita eflaust hvað það hefur inni að halda þó þeir hafi kannske ekki getað lesið það allt saman. Við 1. umr. þessa máls hér benti ég sérstaklega á að Alþingi bæri samkv. lögum að leita umsagnar varðandi áfengislögin í heild sinni hjá áfengisvarnaráði, til þess er það kjörið, en það hefur því miður oft verið svo í önnur skipti en þetta að breytingar hafa farið fram á áfengislögunum án þess að þetta ráð kæmi þar við sögu. Ég vil þess vegna núna leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa upp þetta bréf frá áfengisvarnaráði sem er einmitt tilkomið sérstaklega vegna þess að ég tilkynnti formanni ráðsins að ég hefði komið með ábendingu um þetta á fundi Ed. og ráðsmenn reiknuðu með því að hv. n. mundi hafa við þá samband um það, eins og var t. d. varðandi þá breytingu á áfengislögunum sem við vorum að fjalla um núna fyrir helgina. Þar var sérstakur fundur með áfengisvarnaráði og dómsmrh. áður en það mál var tekið fyrir, en hér er um þmfrv. að ræða og þar af leiðandi þingdeildirnar eða þn. sem eiga þar um að fjalla. Ég ætla ekki að halda uppi neinu málþófi um þetta mál: Ég mun að sjálfsögðu greiða atkv. gegn þessu frv. sem slíku í ljósi þess álits sem hér er komið frá áfengisvarnaráði og með tilliti til þess einnig hver mín afstaða er í málinu, en ég tel það umhugsunarefni hvað hér er um þetta mál sagt og bréfið hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Áfengisvarnaráði gafst ekki kostur á að láta í té umsögn um frv. til l. um breyt. á áfengislögum, 298. mál þessa þings. Ljóst er að lenging vínsölutíma um níu mánuði á ári í sextán vínsöluhúsum jafngildir því að tólf ný vínveitingahús séu sett á laggirnar og starfrækt allt árið. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin telur sannað að neysla áfengis aukist ef sölutími er lengdur og sölustöðum fjölgað. Sú stofnun hefur eindregið lagt til við aðildarþjóðirnar að farið verði í öfuga átt við það sem frv. þetta gerir ráð fyrir, enda talið að tjón af drykkju aukist jafnan um kvaðratið af neysluaukningunni. Sú aukning verður mörgum dýrkeypt, auk þess sem hún þyngir enn álagið á heilbrigðiskerfið.“

Þarna eru þeir, sem gerst þekkja til áfengismála, greinilega á öndverðum meiði við hreppsnefnd Skútustaðahrepps, enda ekki kunnugt að sú ágæta nefnd hafi nokkra sérþekkingu á áfengismálum. Þess má geta að samkv. áfengislögum eru hreppsnefndir ekki (Gripið fram í.) umsagnaraðilar um veitingu vínsöluleyfa, heldur sýslunefndir. — Hvað sagði hv. frsm.? (StB: Þær hafa ekki haft tækifæri til þess.) Hún hefur ekki haft tækifæri til þess? Jú, hún hefur nefnilega haft nokkurra mánaða tækifæri til þess og ár að kynna sér það, ef það er það sem hv. þm. á við, og ég hygg að ef sú reynsla á ein að gilda um þetta muni sú reynsla hafa dugað þeim mönnum.

„Ekki virðist sérlega brýnt að hrapa að ákvörðunum um jafnstórfellda breytingu á áfengislögunum og hér um ræðir, enda greinilegt að ekki hefur unnist tími til að leita álits dómbærra aðila um þessi mál. Þá má minna á að nú er að störfum nefnd sem vinnur að undirbúningi tillagna um mörkun opinberrar stefnu í áfengismálum samkv. þál. Alþingis frá 7. maí 1981. Áfengisvarnaráð leyfir sér því að fara þess á leit við þá hv. alþm. sem um mál þetta fjalla í dag að þeir skjóti ákvörðuninni á frest og gefi sér tóm til að kynna sér eins nákvæmlega og kostur er hverjar afleiðingar líklegt sé að samþykkt frv. hafi í för með sér.“

Undir þetta skrifar Ólafur Haukur Árnason formaður áfengisvarnaráðs, en í fylgigagni, sem ég ætla ekki að lesa nema sérstök ástæða verði til, um minnisatriði varðandi opnunartíma vínveitingahúsa, og hér fylgir með, hafa allir nm. í áfengisvarnaráði skrifað undir, þ. e. Ólafur Haukur Árnason, Jóhannes Bergsveinsson, Páll V. Daníelsson, Sigrún Sturludóttir og Einar Björnsson. Þar er enn frekari áhersla lögð á þetta mál, en gert er í þessu stutta bréfi. Ef ég sé ástæðu til er velkomið að lesa það fyrir hv. dm. til þess að þeir komist eitthvað örlítið nær áttum í þessu máli en mér virðist að ætli að verða.

Misræmið í þessu máli, öllum breytingunum nú, felst í raun og veru í því, að mínu viti, að Alþingi hefur samþykkt einróma, alveg mótatkvæðalaust, ágæta tillögu um stefnumörkun í þessum málum í heild sinni og ég tel að meðan að því starfi er unnið jafnvel og raun ber vitni af jafnmörgum aðilum með jafnmismunandi sjónarmið og sú nefnd hefur inni að halda eigum við ekki hér, meðan beðið er eftir nál., að gera neinar meiri háttar breytingar á áfengislögunum og ekki minni háttar heldur. Þetta er mitt álit og ég vil bíða þeirrar nefndar og ég sætti mig við það sem þar kemur út í meginatriðum vegna þess að þar er verið að reyna að sætta ólík sjónarmið. Þessu starfi miðar vel áfram. Það kom í ljós í vetur að hæstv. heilbrmrh. hefur þegar fengið áfangaálit í þessu máli frá þessari nefnd og þessi nefnd vinnur það samviskusamlega að til fyrirmyndar er varðandi ýmsar milliþinganefndir því þrátt fyrir fjölmennið í þessari nefnd mun hún starfa þannig að fundir eru vikulega eða þar um bil og mættu margar nefndir taka sér það til fyrirmyndar út af fyrir sig.

Ég ætla aðeins núna að nota sem mín lokaorð lokaniðurstöðuna úr athugasemdum áfengisvarnaráðs um þetta, með leyfi virðulegs forseta:

„Að lokum er rétt að ítreka að sú niðurstaða áfengisvarnaráðs að miklu betri undirbúning og forvinnu þurfi, ef breyta á áfengislögum, en um hefur verið að ræða í sambandi við þessa till. til þál., þ. e. varðandi till. um bjórinn og þau lagafrv. um áfengismál sem komið hafa fram á Alþingi nú eftir áramótin, og við bendum í því sambandi á nefnd sem fyrr var á minnst og vinnur að tillögum um mótun áfengismálastefnu.“

Þetta vil ég gjarnan að komi hér fram og verður minn rökstuðningur m. a. í því að greiða atkv. gegn þessu frv.