21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6414 í B-deild Alþingistíðinda. (5939)

155. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Stjórnarskrárnefnd hefur tekið þetta frv. til meðferðar, en það hefur ekki orðið mikil meðferð n. á frv. vegna þess að frv. var ekki vísað til n. fyrr en síðast liðinn laugardag, en í gær kom n. saman til fundar til þess að fjalla um þetta mál.

Það var augljóst að það yrði ekki komið við í n. efnislegum umræðum um þetta frv., til þess var enginn tími ef gengið er út frá því að það þurfi að lögfesta þetta frv. áður en þessu þingi lýkur. Stjskrn. gekk út frá því að það þyrfti, enda hefur alltaf verið gengið út frá því að það þyrfti, að fylgjast að afgreiðsla á breytingu á stjórnarskránni sem nú hefur verið samþykkt og afgreiðsla á þessu frv. sem lagt var fram á síðasta þingi sem fskj. með frv. til breyt. á stjórnarskránni. Hins vegar er það, að þó að n. hafi ekki gefist neitt ráðrúm til þess að fjalla um þetta mál efnislega í einstökum atriðum er málið nm. öllum kunnugt svo og þdm. vegna þess að málið er búið að vera lengi til meðferðar í öllum þingflokkum.

N. náði ekki samkomulagi um afgreiðslu þessa frv. Meiri hl. stjórnarskrárnefndar leggur til að frv. verði samþ., en minni hl., hv. 8. þm. Reykv. Stefán Benediktsson, skilar séráliti.

En till. meiri hl. stjórnarskrárnefndar um það að frv. verði samþ. er gerð á ákveðnum forsendum: annars vegar á þeirri forsendu að unnið verði áfram að þessu máli milli þinga og hins vegar á þeirri forsendu að niðurstöður athugana á málinu verði lagðar fram í frumvarpsformi á næsta haustþingi.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess við þessa umr. að fara á nokkurn hátt út í efnisleg atriði frv. með tilliti til þess sem ég hef hér sagt, en ítreka að meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt.