10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 746 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

Umræða utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Þær umr. sem hér fara fram gefa vissulega tilefni til margvíslegra hugrenninga og ég vil þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir að óska eftir þeim hér utan dagskrár. Það er sannarlega ástæða til þess að ræða þessi mál hér á hv. Alþingi og hefði ekki verið óeðlilegt að það hefði komið til umr. jafnvel fyrr. Ég held að fyrir utan það að líta á þann vanda, sem fyrir liggur eða fyrirsjáanlegur er ef við tökum mark á þeim spám sem fram hafa komið um minnkandi þorskafla á næsta ári og næstu árum, sé tilefni til þess að ræða um ýmsa þætti í sambandi við þróun okkar þjóðarbúskapar og ýmislegt sem horfir til lengri tíma. Sveifla af þessu tagi eins og hér er spáð er þess eðlis að hún dregur dilk á eftir sér á mörgum sviðum. Gamalt máltæki segir að vísu að fátt sé svo með öllu illt að ekki geti það boðað nokkuð gott, og ef þjóðin ber gæfu til að taka á málum sínum af raunsæi og í ljósi þess sem horfur eru á, gætum við kannske vænst þess að standa betur eftir á heldur en fyrir.

En ég vil ekki ræða þessi mál út frá því að þær spár sem fiskifræðingar hafa sett fram um aflahorfur séu óyggjandi, en vil þó taka fram strax að ég er síður en svo að gera lítið úr þeim eða vefengja þær miðað við þær forsendur sem að baki þeim liggja. Spár verða aldrei betri en forsendurnar og upplýsingarnar sem á er byggt og við vitum það úr fortíðinni, það sýnir reynslan okkur, að slíkar spár eru verulegri óvissu háðar.

Ég vek athygli á því, sem mér finnst ekki hafa verið dregið fram nægilega hér í umr. til þessa, að við höfum í rauninni nokkurn tíma til þess að átta okkur betur á hvaða takmarkanir er nauðsynlegt að setja á heildarafla á þorski á komandi ári með því að endurskoða málin í ljósi fyllri upplýsinga og reynslu. Það hefur verið gert á liðnum árum eftir því sem upplýsingar hafa komið fram og það hljótum við einnig að gera nú að þessu sinni. En almennt viðhorf til þessara mála hlýtur að vera það að vera varúðarmegin í sambandi við veiðar úr okkar þýðingarmesta fiskstofni og taka aðvaranir vísindamanna okkar, sem þeir setja fram af bestu samvisku og eftir.fáanlegum upplýsingum, alvarlega á meðan annað kemur ekki í ljós. Allt annað væri í rauninni óráðlegt og óforsvaranlegt því að hér megum við ekki taka of mikla áhættu.

Sá óvissuþáttur, sem mér virðist vera mestur í þessum efnum eins og stendur, er hvort inn á Íslandsmið komi eitthvert verulegt magn af þorski á þessum vetri frá Grænlandi, frá Austur-Grænlandi, og bætist þar með inn í aflamöguleika á komandi vetrarvertíð. Slíkt hefur gerst áður og orðið veruleg björg og breytt stöðunni í sambandi við veiðar hér og ég held að ég muni það rétt að björgin 1975–1976, aukinn afli þá umfram það, sem spáð var í svörtu skýrslunni, hafi að hluta til verið rakin til göngu frá Grænlandsmiðum, og ekki síður sú aflaaukning sem varð á allra síðustu árum, þ.e. 1980 og 1981 alveg sérstaklega. Það liggur fyrir nokkur vitneskja um að árgangur þorsks við Austur-Grænland frá árinu 1977 sé allstór miðað við það sem þar verið hefur, og því er ekki útilokað að göngur komi af þeim miðum yfir á Íslandsmið sem geti breytt þessari stöðu frá því sem nú horfir. En við hljótum hins vegar að ræða þessi mál út frá þeim möguleika að þetta gerist ekki og óráð sé að fara yfir eða stefna á meiri þorskafla en milli 200–250 þús. tonn eða kannske eitthvað á því bili. Þetta verða menn að skoða síðar. Seiðamælingar fara að jafnaði fram í marsmánuði og veita einnig upplýsingar um nýliðun í stofnum sem koma inn í veiðina síðar og auðvitað þurfa menn að hafa auga á því hvað er í uppvexti, hvað er það sem við getum átt von á á komandi árum inn í veiðarnar. Hver er staðan eins og fram kemur í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar sem flestir alþm. hafa væntanlega séð þó ekki hafi hún verið birt formlega eða henni dreift? Þar kemur fram að horfurnar eru mjög daprar varðandi þorskstofninn á heildina litið frá 1977. Meðaltalið er verulega undir því sem áður var og sumir árgangarnir mjög lélegir, með afbrigðum lélegir eins og árgangarnir frá 1979 og 1982 og stofnanir þar báðum megin við, 1978 og 1982 og árgangarnir 1977 og 1981 einnig slakir og aðeins einn árgangur á þessum árum, þ.e. 1980, nær meðaltali eða rösku meðaltali sem er 225 millj. miðað við þriggja ára fisk eins og fram hefur komið. Þetta held ég að sé rétt að við höfum í huga og málum þó ekki myndina svartari litum heldur en þörf er á og gerum okkur grein fyrir að við höfum visst svigrúm til þess að átta okkur á horfunum.

Það á ekki að mínu mati að ráðast að fiskifræðingum eða rannsóknaraðilum fyrir þær upplýsingar sem þeir hafa gefið á liðnum árum og sem ekki hafa staðist í mörgum tilvikum, frávikin verið mjög mikil eins og fyrir liggur. Við eigum þvert á móti að leitast við að taka á málum með þeim, skapa þeim aðstæður til þess að geta stundað sín fræði betur til að afla fyllri vitneskju um þennan geysilega þýðingarmikla þátt í okkar þjóðarbúskap, og ég vil inna hæstv. sjútvrh. eftir því, hvort hann hefur tekið til athugunar og hefur áform um að styrkja Hafrannsóknastofnun til þess að geta ræki sitt hlutverk betur heldur en hún hefur verið fær um með tilliti til fjárveitinga og búnaðar. Þar eru í þróun endurbættar aðferðir í sambandi við rannsóknir. Ég veit ekki hvort þær aðferðir krefjast aukins fjármagns frá því sem fyrirhugað hefur verið, en ég tel alveg nauðsynlegt að fara yfir þau efni af fyllsta raunsæi til þess að þessi rannsóknastofnun okkar líði ekki fyrir fjármagnsskort og geti endurbætt sínar vinnuaðferðir og rannsóknir af þeim sökum. Fyrir utan að sýna fyllstu varúð í sambandi við sókn í þorskstofninn og taka mark á ástandi og horfum hljótum við við þessar aðstæður að horfa til þess hvar er unnt að auka sókn í fiskstofna nú og á næstu árum. Þar hafa verið nefndir stofnar sem menn þykjast vita að þoli nokkuð aukna sókn, koli og rækja t.d. nú þegar, og væntanlega verða gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að unnt verði að nýta þessa stofna eftir því sem vogandi er talið.

En það eru fleiri stofnar sem við getum vænst að færi björg í bú í okkar sjávarútvegi og okkar þjóðarbúi á komandi árum. Við þurfum vegna þess hvernig horfir með þorskinn ekki aðeins nú heldur á næstu árum að búa okkur í dag undir að geta sótt í þessa stofna með arðbærum hætti. Þarna nefni ég sem dæmi kolmunnann, stofn, sem við höfum lítillega glímt við en með ekki eins markvissum hætti og skyldi. Ég held að það sé ástæða til að menn átti sig á að talið er að stór árgangur af kolmunna sé í uppvexti, árgangurinn frá 1982, og þessi fiskur getur komið í gagnið í veiði miðað við manneldisnot að tveimur árum liðnum. Þetta er mjög stór stofn. flökkustofn hér í Norður-Atlantshafi, sem ýmsar þjóðir hafa nýtt sér til hagsbóta, Færeyingar og ekki síður Rússar sem ausið hafa upp kolmunna í bræðslu norður af Færeyjum á liðnu sumri. Möguleikar eru á því að hann geti gengið inn á íslensk hafsvæði í auknum mæli. Hans hefur orðið vart í meira mæli en áður á svæðinu milli Íslands og Grænlands á liðnu sumri og ég tel að það sé einboðið að við reynum að búa okkur undir það að geta hagnýtt þennan stofn og gert okkur sem mest úr honum. Það verður ekki gert nema menn horfi fram fyrir sig og reyni að læra að búa sig undir viðfangsefni og taka á því skipulega og markvisst.

Annar stofn er það sem hleypti mörgum veiðimanninum kapp í kinn hér fyrr á árum sem ekki er ástæða til að útiloka að við eigum eftir að sjá aftur þó að hann hafi hrunið með eftirminnilegum hætti af völdum ofveiði eða náttúrulegra orsaka eða samblands af hvoru tveggja. Það er Norðurlandssíldin sæla, norsk-íslenski síldarstofninn, sem nú er í örum vexti eins og menn vita, og gæti farið að gera vart við sig, ef tekst að friða hann og veita honum næði til að vaxa upp. Þessi stofn gæti farið að gera vart við sig við Ísland kannske að þremur árum liðnum og í verulegum mæli eftir 6–10 ár. Ég nefni þetta hér þó að mönnum finnist það kannske vera horft nokkuð langt fram að vera að tala um síld sem hér geti fyrst farið að gera vart við sig eftir nokkur ár, vegna þess að við eigum að berjast fyrir að þessi stofn verði friðaður, honum verði ekki ofgert með veiðum. Þar hafa Íslendingar orð að mæla í Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndinni sem fjallar um veiðar á síld á hafsvæðum sem liggja utan við lögsögu ríkja.

Það náðist í síðustu viku eða fyrir skömmu fram þýðingarmikið atriði í Alþjóðahafrannsóknaráðinu þar sem fulltrúi Íslands, Jakob Jakobsson, fékk samþykkta tillögu eða tilmæli til Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar um að banna með öllu veiði á síld undir 27 cm lengd í Norður-Atlantshafi. Þetta eru einmitt þau stærðarmörk er síldin verður kynþroska en Norðmenn veiða þessa síld undir þessum mörkum. Norsku reglurnar eru við 25 cm lengd og það er nauðsynlegt að reyna að fá samstöðu og knýja fram bann við veiði á þessari síld undir þessum stærðarmörkum. Þar reynir á í þessari nefnd sem ég gat hér áðan um veiðar á hafsvæðinu norður af Færeyjum sem liggur utan við lögsögu ríkja.

Hér væri ástæða og tilefni til þess að víkja að mörgum öðrum þáttum. Ég vil nefna hér nokkur atriði til viðbótar því að sú umr., sem hér fer fram, þarf að leiða til þess að við endurskoðum frá grunni marga þætti í okkar sjávarútvegi í sambandi við sókn í stofnana, í sambandi við meðferð á aflanum og í sambandi við úrvinnslu hans. Við þurfum að nota þessar þrengingar, sem við þykjumst sjá fyrir stafni, til þess að ná fram breytingum sem eru í rauninni löngu tímabærar í sambandi við sjávarútveginn. Við höfum gengið þar fram með hugarfari veiðimennskunnar, með magnið í huga en síður hirt um afraksturinn, arðsemina og gæðin.

Eitt er það atriði, sem hefur verið til umr. um langt skeið meðal þeirra, sem láta sig sjávarútvegsmálefni mestu skipta, hjá hagsmunaaðilum og nokkuð hjá stjórnmálamönnum, en ekki þó sem skyldi, og það er spurningin um stjórnun veiðanna. Hæstv. sjútvrh. er farinn að velta upp þeim möguleika þó að hann tali nú ekki mjög skýrt um þessi efni, og ég get út af fyrir sig skilið það að hann leggur áherslu á að reyna að laða hagsmunaaðila saman, áður en ákvarðanir eru teknar. Slíkt er út af fyrir sig ekki nema góðra gjalda vert en við höfum ekki nema takmarkaðan tíma ef við ætlum að ná fram breytingum við stjórnun veiðanna, breytingum sem hafi áhrif á veiðiskapinn hér á næsta ári. Hann hefur nefnt þann möguleika, sem fyllilega er til athugunar, að skipta þeim afla sem ákveðinn verður, þeim heildarafla á þorski niður á skip sem heimild hafa til þorskveiða, setja svokallaðan kvóta á skip með einhverjum hætti. Ég fagna því að hæstv. sjútvrh. er farinn að taka á þessum málum. Ég heyrði það hins vegar hjá öðrum hæstv. ráðh., hæstv. heilbrrh. sem hélt á sjávarútvegsmálum á árum áður að hann var nú ekkert glaðbeittur þegar kom að spurningunni um kvótann í sambandi við þorskinn. Það er viðhorf sem við þekkjum frá honum og höfum heyrt og heyrum ekki síst úr röðum manna í hans kjördæmi á Vestfjörðum. Auðvitað hljótum við að hafa skilning á slíkum sjónarmiðum. Spurningin verður hins vegar hversu lengi hefur íslenska þjóðin efni á að taka tillit til afmarkaðra landshlutasjónarmiða? Það er þekkt að Austfirðingar hafa um árabil barist fyrir því á vettvangi Fiskifélags Íslands, á Fiskiþingum og innan Landssambands ísl. útvegsmanna að tekin verði upp slík stjóri veiðanna með kvótaskiptingu og fyrir því hafa ekki mælt einhverjir undirmálsmenn í þeim hópi, heldur hafa þar verið framarlega aflakóngar sem menn gjarnan bera fyrir sig, þeir sem eru að andmæla þessari tilhögun á stjórnun veiðanna og segja að verið sé að verðlauna skussana og draga úr þeim nauðsynlega hvata sem menn hafa í sambandi við magnið, í sambandi við aflavonina.

Ég vil, hæstv. forseti, leyfa mér hér aðeins að vitna til eins þjóðkunns aflaskipstjóra sem hefur oft minnst á þessi mál og ritaði í Þjóðviljann 3. mars s.l. um þessi efni þar sem hann mælir sterklega með því að tekin verði upp stjórnun veiða með kvóta. Þar er um að ræða Magna Kristjánsson skipstjóra í Neskaupstað. Hann segir m.a. í þessari grein sinni:

„Til að byggja upp fiskstofnana dugir aðeins eitt ráð. Láta verður af gegndarlausri græðgi undanfarinna ára. Hættum að skamma í sífellu fiskifræðingana. Þeim verða auðvitað á mistök ekki síður en öðrum, en þeir drepa ekki fiskstofna. Aðhaldssemi í þessum efnum kann að verða sársaukafull um stundarsakir en mun áreiðanlega borga sig þegar til lengdar lætur. Þegar allt kemur til alls er betra að veiða aðeins of lítið en aðeins of mikið. Þetta kallar auðvitað á stjórnun veiðanna og henni er hægt að haga á margan hátt. Ég hallast að því að kvótaskipting sé besta leiðin, ekki síst til að ná hámarksgæðum og draga úr tilkostnaði.“ — Og síðan segir hann: „Því er stundum haldið fram, að kapp skipstjórans sé heft og viljinn lamaður með kvótaskiptingarfyrirkomulaginu. Hann fái engan veginn notið sín. Þetta er misskilningur. Kappinu er aðeins beint í annan farveg. Auðvitað verður hver og einn að ná sínum kvóta, en í stað þess að tonnafjöldinn verði meginatriði kemur annað til. Aukin gæði, stærri og þar með verðmeiri fiskur gefa tækifæri til aflaverðmætis umfram meðaltal. Að þessu mun kappið beinast. Auk þess mun olía og veiðarfæri sparast með kvótaskiptingu. Sá þáttur kemur útgerð strax til góða og síðar einnig sjómönnum. Hafnarfrí munu aukast og útgerð skipanna mun á margan hátt verða hagkvæmari og ódýrari.“

Hann víkur líka að vissum mótbárum við kvótanum og ræðir það en að lokum vitna ég í Magna þar sem hann einmitt kemur að því atriði að munurinn á milli skipa á þorskveiðum og sérstaklega togara er í reynd ekki eins mikill eins og úr er gert. Um það segir hann:

„Síðustu þrjú ár hafa 52–60% af öllum togaraflotanum verið með innan við 10% fráviki frá meðalaflaverðmæti pr. úthaldsdag. Á sama hátt hafa aðeins 15–22% verið með meira en 25% frávik. Aflinn er því í aðalatriðum tiltölulega jafn og mun jafnari en t.d. hjá loðnuflotanum fyrir breytingu hjá honum. Við lauslega athugun kemur í ljós, að aflahæstu skipin eru í flestum tilfellum eyðslusömust þó vissulega séu á þessu undantekningar. Í mögrum tilfellum má því mæta minnkuðum afla með lægri tilkostnaði. Í mörgum tilfellum eru aflalægstu skipin lítil og/eða vanbúin og því vanhæf til að ná meðalafla.“

Ég held að full ástæða sé til þess að íhuga orð þessa fengsæla skipstjóra og margra fleiri sem gerst mega þekkja til þessara mála og hika ekki við í rauninni að ganga gegn því sem margir halda að séu þeirra hagsmunir en hafa ekki til þess hug og þor að draga fram sín sjónarmið út frá hagsmunum heildarinnar.

Það er vissulega svo, að kvótaskipting á skip kallar á ýmsar ráðstafanir sem ekki hefur þurft að grípa til með núverandi hætti á stjórnun veiðanna. T. d. þarf vafalaust meira eftirlit við löndun því það er þekkt að þar sem kvóti hefur verið settur á t.d. í síldveiðum er nokkur freisting til að gefa ekki upp landaðan afla, eða landa framhjá, eins og kallað er, og það er atriði og fleiri slík sem auðvitað verður að taka mið af.

Hér hefur verið rætt af hæstv. ráðherrum um ýmsa þætti þessara mála, m.a. skipastólinn, og það er vert að hugsa til þess að hér í þessum umr. talar fyrrv. hæstv. sjútvrh. frá árunum 1974–1978. Hann hafði sinn hátt á við meðferð þessara mála og má segja að hann hafi sloppið allvel frá þeirri happa- og glappaaðferð, sem byggt var á á þeim tíma og gilt hefur framundir þetta og gildir enn á allt of mörgum sviðum í sambandi við okkar sjávarútveg. (Gripið fram í: Ekki meðan hann var ráðh.) Jú, ekki síður meðan hann var ráðh. og mætti nú margt um það segja. Hér sat undir umr. áðan hæstv. forsrh., sem tók við, að vísu kom Alþfl. um eins árs bil inn í þessa mynd í stjórnun sjávarútvegsmála en þá tók við núv. hæstv. forsrh., þannig að í núv. ríkisstj. sitja fyrir utan núv. hæstv. sjútvrh. tveir menn sem hafa borið ábyrgð á þessum málum á liðinni tíð. Þegar farið er yfir þá sögu, ef það er gert gagnrýnið, má auðvitað finna margt sem augljóslega hefði betur mátt fara.

Ég ætla ekki að hafa hér uppi neinn reiðilestur í þessum efnum og tel ekki ástæðu til þess. Það er meira virði að menn reyni að leggjast á eitt um úrræði sem horfa til framtíðarinnar. En við hljótum hins vegar að íhuga, hvað gerst hefur á liðinni tíð. Af því verðum við að læra í þeim brýnu aðgerðum varðandi aðlögun að breyttum aðstæðum sem nú eru horfur á að taka þurfi mið af. Og þegar ég kom inn í ríkisstj. fyrst 1978 minnist ég þess að eitt fyrsta verkefnið, sem sú ríkisstj. fékkst við þá um haustið, voru tveir stórir togarar sem fyrrv. ríkisstj. hafði látið þröngva upp á sig ef svo má segja, látið þröngva upp á Íslendinga og lofað að taka við. Það voru hinir svonefndu spænsku togarar sem síðan var ráðstafað eftir miklar umr. til Bæjarútgerðar Reykjavíkur öðrum, ef ég man rétt, og hinum til Snæfellsness. (Gripið fram í: Þeir voru portúgalskir.) Þeir voru portúgalskir, já, og þeir voru margir sem komu í kjölfarið. Og á þeim árum, fram hjá því verður ekki horft, hélt Framsfl. á þessum málum, hafði fullt forræði á þessum málum varðandi innflutning fiskiskipa þar sem hann hafði í síðustu ríkisstj. bæði viðskiptamálin og sjávarútvegsmálin og það er ekki allt of falleg mynd sem þar blasir við ef á hana væri nú litið.

Það var ekki hlustað á till. um að taka skip af frílista. Þannig var hér laumað inn í landið skipum án þess að stjórnvöld, ríkisstj. og ráðuneyti, fengju í rauninni nokkuð við það ráðið, vegna þess að hæstv. þáv. viðskrh. mátti ekki heyra á það minnst að skip væru tekin af frílista. Og það var ekki fyrr en á liðnu sumri sem það loksins fékkst í gegn í ríkisstj., að setja bann við innflutningi fiskiskipa.

Það væri auðvitað þáttur út af fyrir sig að ræða um skipaiðnaðinn í þessu sambandi en ég ætla nú ekki að fara langt út í þá sálma. Ég vil aðeins segja, að einn sá lærdómur, sem við þurfum að draga af liðinni tíð, er það að ganga ekki af íslenskum skipaiðnaði dauðum. heldur þvert á móti, að stíga á stokk og vinna að því að innlendur skipaiðnaður geti leyst þau verkefni sem framundan eru við viðhald flotans og nýsmíði og endurnýjun, þegar að því kemur, eftir því sem þörf krefur í samræmi við þol fiskistofnanna, og gera þann iðnað samkeppnisfæran. Hann hefur aldrei fengið að spreyta sig við eðlileg skilyrði vegna þess m.a. að menn hafa ekki markað stefnu sem tæki til nokkurra ára í sambandi við þróun skipastólsins. Hann hefur verið endurnýjaður í stórum stökkum á liðnum áratugum sem hlaut að hafa það í för með sér að verkefnin fóru framhjá innlendum iðnaði. Þannig hafa mörg atvinnutækifæri flust úr landi og slík þróun má ekki halda áfram. Á því höfum við ekki efni.

Ég tek alveg undir það sjónarmið að ekki er eðlilegt að þeir sem eiga að gæta að hagsmunum eða telja sig með réttu vera að gæta hagsmuna sjávarútvegsins sem atvinnugreinar, vilji fara að skrifa upp á stóra styrki til iðnaðar. Auðvitað eigum við að leitast við að gera okkar skipaiðnað fyllilega samkeppnisfæran og það getur hann orðið ef rétt hefði verið að þessum málum staðið. Þá væri hann orðinn útflutningsgrein vegna þess að við erum hér með úrvalslið sem hefur sýnt það í mjög mörgum tilvikum að það ræður vel við sín verkefni.

Ég er hins vegar ekki að mæla með því að menn ráðist í ríkum mæli í nýsmíðar skipa nú eða alveg á næstunni. Það þarf að fara gagnrýnið yfir þá stöðu en þar ber einnig að horfa fram og kemur að því fyrr en varir að hér verða stórfelld viðhaldsverkefni í sambandi við flotann og endurnýjunarþörf hans.

Ég vil svo, herra forseti, aðeins minnast á að fyrir utan það að haga okkar fiskveiðum þannig í framtíðinni að við getum vænst þess að fá þar hámarksarð út úr okkar sjávarútvegi þurfum við að reyna að verða minna háðir hinum náttúrulegu sveiflum heldur en við erum í dag. Við þurfum að leita leiða til þess að hefja hér ræktunarbúskap í sjávarútvegi til hliðar við og til viðbótar við veiðiskapinn, það uppeldi sem fer fram við þær góðu aðstæður sem oft ríkja á Íslandsmiðum. Fiskeldið, ekki bara eldi vatnafiska heldur sjávarfiska, er stórt verkefni, sem Íslendingar verða að taka föstum tökum nú og á næstunni. Þar geta legið mjög miklir möguleikar fyrir okkar þjóðarbúskap ef þær vonir rætast, sem líkur benda til, að geti verið við bæjardyrnar.

Ég ætla ekki hér og nú að fara út í þá sálma, en minni hér á þetta því að þetta er stórt verkefni sem væntanlega kemur fljótlega til umr. hér í þinginu. Ég hef a.m.k. hug á að stuðla að því að svo verði.

Um einstaka þætti úr máli hæstv. ráðherra mætti ýmislegt fleira segja. Ég lagði þann skilning í orð hæstv. sjútvrh. að hann ætlaði að kynna till. sínar, sem liggja ekki enn fyrir, því að allt er það á hugmynda- og athugunarstigi, hér á Alþingi áður en ákvarðanir verða teknar. Ég bið hann að leiðrétta mig ef sá skilningur er ekki réttur.

Ég tel nauðsynlegt að þau stóru mál komi hér til umr. áður en fiskveiðistefnan verður endanlega mótuð fyrir næsta ár og jafnframt sé nauðsynlegt að reyna að marka stefnu til lengri tíma og ræða hana hér á hv. Alþingi.

Hæstv. heilbrrh. vék hér að málum sem gagnlegt gæti verið að ræða og hafa verið rædd hér. Hann vék hér að hvalamálum og fleira af því tagi. Það vakti ýmsar hugrenningar hjá mér. Ég gat nú ekki tekið undir margt af því sem hann sagði í þeim efnum og ég vara við því að menn fari að ýfa þau mál hér upp nú við þær aðstæður sem nú ríkja og eftir þá ákvörðun sem tekin var hér á hv. Alþingi í fyrra. Ég bind vonir við það að hæstv. sjútvrh. gæti þess að fara ekki að taka þau mál upp að nýju því ef ég man rétt þá vorum við á sama máli í því efni að mótmæla ekki banni við hvalveiðum. (Gripið fram í.)

En það eru hin stóru mál í þessu samhengi sem þurfa umræðu og úrlausnar við. Fjárfestingarmálin í þjóðfélaginu sem hæstv. sjútvrh. og enn frekar hæstv. heilbrrh. viku að og voru að brýna okkur stjórnarandstæðinga að taka á með sér í sambandi við niðurskurð í fjárfestingum opinberra framkvæmda. Ég vil nú vísa því til hæstv. ráðh. að þeir ættu að líta til ýmissa fleiri þátta þegar verið er að hvetja til endurskoðunar. Ég minni t.d. á það að samkv. þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir því að í verslunar- og viðskiptaþáttinn í íslenskum þjóðarbúskap eigi að verja hátt í milljarði kr. — ef ég man rétt — á komandi ári. Ég held að menn ættu nú að skoða það svið vel áður en farið er að beita hnífnum á bráðnauðsynlegar framkvæmdir á sviði félagsmála og heilsugæslu vítt um landið. Það er víða þar sem spara má og veita aðhald í íslensku þjóðfélagi, þar sem menn hafa getað gengið um garða óþarflega frjálst með aflafé þjóðarinnar og það er þar sem á að beita aðhaldinu fyrst af öllu, áður en farið er að horfa til þeirra þátta sem mestu skiptir að unnt sé að halda áfram í okkar þjóðfélagi.

Atvinnuöryggi kemur einnig inn í þessa mynd og ekki síst atvinnuöryggi fólksins víða um land. Hæstv. heilbrrh. vék að því að eitt af því, sem til athugunar þyrfti að vera, væri að stytta úthaldstíma skipa, stöðva skip í einstökum verstöðvum svo og svo lengi. Það kann að vera að það geti verið kleift sums staðar þar sem menn hafa mörg skip í takinu og hafa kannske dregið meiri afla að landi en stundum var viðráðanlegur. En ég vara mjög við því að menn fari að hampa slíkum lausnum fyrr en að vel athuguðu máli því að það háttar svo til víða í okkar landi að menn búa ekkert of vel að hráefnisöflun og ef fyrir hana er tekið og þess ekki gætt að jafna aflanum eins og frekast er kostur þá fer nú að verða lítið fyrir hendurnar að gera í frystihúsunum eins og ekki þarf að fara um mörgum orðum.

Það er þetta sem er kannske ekki minnsta áhyggjuefnið við þær aðstæður sem hér eru til umr. Og við hljótum hér á hv. Alþingi að leggja okkur fram, einnig stjórnarandstæðingar, við að ræða þessi mál og beina þeim í þann farveg sem verði þolanlegur og þolanlegastur fyrir þá hópa í þjóðfélaginu sem minnst hafa fyrir sig að leggja.