21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6414 í B-deild Alþingistíðinda. (5940)

155. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá frsm. meiri hl. stjórnarskrárnefndar legg ég til að frv. verði fellt og ástæður þeirrar tillögu minnar felast að nokkru leyti í þeim atriðum sem hann nefndi í sínu máli og sagði vera forsendur fyrir því að mælt er með samþykkt frv. Forsendurnar eru, eins og hv. 4. þm. Vestf. sagði, samkomulag milli flokkanna um að unnið verði áframhaldandi að skoðun þessa máls með það fyrir augum að leggja fyrir næsta þing hugsanlega nýtt frv. breytt og endurskoðað. Það gerist nú æ tíðar síðustu daga þessa þings að málum er vísað til ríkisstj. með ýmsum hætti og er það, að því er virðist, ekki hvað síst til þess að leysa ákveðinn ágreining sem upp kemur og eðlilegur geti talist. En til þess að ýta honum frá og flýta fyrir þinglausnum, losna við blessað þingið, er farin sú leið að vísa málunum í belg og biðu til ríkisstjórnarinnar og þetta hérna er í raun og veru óbeint enn ein leiðin í því að vísa þessu máli til ríkisstjórnar.

Þetta samkomulag, sem gert var, var gert á s. l. vori við afskaplega kynlegar aðstæður. Það þing, sem þá sat, var undarlega samsett þar sem sami flokkurinn var bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. Í ljósi þessa undarlega og nokkuð kynlega pólitíska umhverfis, jafnvel þótt við íslenskar aðstæður væri, komu menn sér saman um að bera fram frv. um breytingu á stjórnarskrá og síðan viðhangandi kosningalög og lög um sveitarstjórnarkosningar.

Þegar þessi frv. komu fram var alþjóð tilkynnt að flokkarnir fjórir hefðu komið sér saman um þetta mál og með það var haldið til kosninga þó að þessi frv. yrðu nú afskaplega lítið til umræðu í kosningunum. Þau fóru í gegnum þær kosningar nánast í rassvasa manna án þess að þau væru nefnd eða höfð í hávegum nokkurs staðar. Kosningamálin voru allt annars eðlis, efnahagsmál, holskefla.

Þegar þing hófst í haust örlaði til að byrja með afskaplega lítið á þessum málum. Það er ekki fyrr en í orrahríðinni rétt fyrir jól þegar nokkur átök höfðu orðið hér, ekki hvað síst milli stjórnarflokkanna, að samkomulag, enn eitt, varð um að formaður Sjálfstfl. Þorsteinn Pálsson fengi að mæla fyrir þessu máli í 5 mín. kl. 3 um nótt. Það samkomulag var þó ekki með öllu mótmælalaust því að a. m. k. einn maður rauk út úr þingsölum með þvílíkum hurðarskellum að annað eins hefur sjaldan heyrst.

Nú er þetta mál komið aftur á skrið og nú verður, að því er virðist, að keyra þetta mál í gegn til að uppfylla þetta margrædda samkomulag sem menn greinir orðið greinilega mjög mikið á um.

Hvað felst í þessu samkomulagi? Fyrir það fyrsta er þetta samkomulag milli fjögurra flokka. Síðan er þetta tæknilega líka nokkurs konar samkomulag milli kjördæma. Menn ákváðu hámörkun þingmannafjölda, 63 þingmenn, og menn komu sér saman um að draga eigi úr eða rýra möguleika dreifbýlis og smærri flokka til uppbótarþingsæta. Það þarf ekki að skerða hlut þeirra hvað þingmannatölu snertir miðað við heildaratkvæðafjölda, en til að fullnægja þessu markmiði, þ. e. samkomulagi milli flokkanna og samkomulagi milli kjördæmanna, þ. e. að kjördæmin fari ekki í hár saman vegna mismunandi höfðatölu þm. á þingi, þá varð að leita til helstu sérfræðinga í reikningskúnstum, bæði lifandi og löngu liðinna, til þess að meðhöndla atkvæði kjósandans með þeim hætti að snúa upp á það og beygja það og sveigja og bjaga það þangað til það passaði inn í þennan ramma.

Þegar menn voru búnir að ná þeim árangri héldu þeir, og aðrir líka, að þeir væru komnir í höfn. En viti menn! Einhverjum datt í hug að skoða málið enn þá einu sinni og fyrir um það bil fjórum vikum upphófst hér, aðallega á göngum og sumpart í þingflokksherbergjum, mjög spennandi leikur. Hann minnti ekki lítið á nokkurs konar tölvuleiki eins og sjá má í leiksölum í nágrenninu. Mættur var á staðinn einn mesti reiknimeistari okkar tíma hérlendis með alla þá tækni í fórum sínum sem bann hafði yfir að búa og menn voru reiknaðir inn og reiknaðir út og gátu nánast pantað þá reiknireglu sem kom þeim best, en stjórnarsamstarfið var farið að titra allmikið.

Hvað sem öllu líður áttuðu menn sig þó eftir nokkuð mikinn spenning og æsing á að þessar reiknireglur allar saman fullnægðu aldrei öllum kröfum, sem menn urðu að taka með í dæmið, og þess vegna hrukku menn aftur í sama gamla farið og ákváðu að bera frv. undir atkvæði í gamla forminu, en þó með því fororði að þegar búið væri að samþykkja það væri það nánast ómark og byrjað yrði aftur að nýju. Það er þess vegna í og með sem ég legg til að þetta frv. verði fellt því að ég lít þannig á að í raun og veru sé ekkert samkomulag að baki þessu frv.

Samkomulagsaðilana greinir gjörsamlega á um hvað samkomulagið snýst. Annar aðilinn, Þorsteinn Pálsson, segir: Samkomulagið endar, þ. e. samkomulagstímanum er lokið, þegar frv. hefur verið samþykkt. Daginn eftir að frv. hefur verið samþykkt er samkomulagið úti og þá getum við gert hvað sem er. Aðrir, þar á meðal Svavar Gestsson formaður Alþb., halda því fram að samkomulagið gildi þar til frv., sem orðið hefur að lögum, hefur verið beitt. Undir þetta tekur líka hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnar Arnalds. Ef menn geta ekki verið sammála um hver samkomulagstíminn er, hver dagsetning hans er upphaf og endir, um hvað er þá samkomulag annað en það að afgreiða þetta mál? Hvers lags kæruleysi er þetta með það fyrirbæri sem menn hafa gefið jafnhástemmd nöfn og „fjöregg þjóðar og lýðræðis“, að samþykkja eitthvert frv. sem síðan er að engu haft um leið og það hefur verið samþ., en byrjað að vinna að því að breyta því aftur? Hvað mig snertir verð ég að viðurkenna að ég er ekki óánægður með að byrjað verði að vinna að því að endurskoða frv. aftur. Ég sé bara ekki hvers vegna þarf endilega að samþykkja það og byrja svo að grauta í því. Grauturinn er fyrir hendi. Hvers vegna má ekki halda áfram að hræra í honum?

Ég sé ekki að það sé neinn stórkostlegur skaði skeður þó að samþykktar breytingar á stjórnarskrá falli úr gildi eða eitthvað því um líkt vegna þess að viðhangandi lög hafa ekki verið samþykkt. Ég tel það alla vega betri niðurstöðu en að vera að samþykkja eitthvað sem er jafnvitlaust og það sem er hér til umr. Það er og verður alltaf vitlaust vegna þess að samkomulagið, sem verið er að tala um, er fyrst og fremst gert milli flokka, milli frambjóðenda og milli kjördæma, milli þeirra aðila sem hvað beinasta hagsmuni hafa af því að hagræða hlutunum eins vel og við verður komið fyrir hvern fyrir sig. Eini aðilinn, sem raunverulega skiptir máli í þessu, þ. e. kjósandinn, hefur ekki verið hafður með í ráðum, hvað þá að það hafi verið tekið tillit til hans, hvað þá að það hafi verið spurt að því hvað honum er fyrir bestu. Honum er auðvitað fyrir bestu að hann geti greitt atkvæði með sem beinustum hætti, að hann átti sig mjög glögglega á því hver áhrif atkvæði hans hefur þegar hann hefur skilað því ofan í kjörkassann. Ef menn hefðu haft þetta í huga hef ég óljósan grun um að þau lög, sem menn eru hér í þann veginn að fara að samþykkja, hefðu litið nokkuð öðruvísi út því að þær reglur sem á að beita við að vega og meta gildi og vægi hvers atkvæðis eru orðnar það flóknar, og voru þó nógu flóknar fyrir, að það er ekki nokkur leið fyrir einn einstakan kjósanda að átta sig á því hver áhrif atkvæði hans hefur. Það þýðir í raun og veru að virkni hans eða vald er alls ekki um að ræða í þessu dæmi.

Það að geta greitt atkvæði er vald sem kjósanda hefur verið gefið og hann fær rétt til að beita þessu valdi við kosningar eða kjör. Þetta er kallað að „valddreifa“ og menn nota hugtakið „valddreifing“ nokkuð mikið. Tilfellið er að almenningur skilur þetta hugtak mjög illa af mjög skiljanlegum ástæðum vegna þess að hann hefur aldrei haft það á tilfinningunni að þetta vald væri raunverulega í hans höndum. Með þetta vald í hendinni vill kjósandinn gera eitthvað. Hann vill veita einhverjum málstað eða einhverjum manni stuðning sinn. Ég ætla að sleppa því á þessari stundu að ræða um að möguleikar hans eru skertir að því leyti að hann getur ekki kosið annað en á milli einhverra ákveðinna flokka. Að kjósa einstaklinga er að nafninu til gefinn möguleiki í kosningalögum, en í framkvæmd skilar hann sér ekki vegna þess að sú regla, sem þar er viðhöfð til þess að kanna persónufylgi hvers og eins frambjóðanda innan lista, er það þung í vöfum að áhrif þess háttar sundurgreiningar milli manna skilar sér mjög illa. Það er a. m. k. mjög langt síðan ég minnist þess að menn hafi flust milli sæta vegna áhrifa kjósenda við kosningar.

Kjósandi kýs á milli lista og nú vill hann gefa einhverjum lista og röð frambjóðenda atkvæði sitt og hann skilar atkvæði í kassann. Hann framselur vald sitt þessum lista. Um leið og atkvæðið er komið ofan í þennan kassa er það tekið og byrjað er að telja það með öðrum atkvæðum við talningu og byrjað er að snúa út úr meiningu mannsins sem greiddi atkvæðið því að þá er farið að beita einhverjum reglum til úthlutunar þingsæta sem þessi aumingja kjósandi hefur ekki nokkra yfirsýn yfir. Jafnvel þó að hann reyndi að lesa sér til í þessu frv. til l. er hann trúlega orðinn strand í fjórða lið a. m. k. ef ekki enn þá fyrr.

„Við úthlutun hvers þingsætis koma einungis til álita listar þeirra landsframboða“, með leyfi hæstv. forseta, „sem hafa ekki enn hlotið rétta þingsætatölu samkvæmt 113. gr.“ og þá verður hann að fara að fletta þangað. „Þá skal einungis úthluta þingsæti til kjördæmis sem hefur ekki þegar hlotið fulla þingsætatölu, sbr. 5. gr., 2. mgr. Frá þessu er þó vikið í fjórða áfanga, sbr. 5. tölul. þessarar greinar.“ Sjáið þið gamla konu á elliheimilinu greiða atkvæði eftir þessum reglum? Hvar haldið þið að hún hefði strandað í þessum lestri, sjóndöpur og lengi að hugsa, óvön því að lesa lög og reglur? Þessi lög eru hreinasta ósvífni og móðgun við fólk. Og hvers vegna eru þau móðgun við fólk? Vegna þess að þessi lög taka ekki tillit til fólks. Þau taka tillit til hagsmuna þm. og þeirra einna. Er okkur virkilega stóllinn svo kær að við gefum skít í fólkið? Nú hef ég kynnst mönnum hér á þingi í vetur og einhverra hluta vegna get ég ekki ímyndað mér það. A. m. k. hef ég engan fyrirhitt enn þá sem ég tel að hugsi þannig. Hér er enn sú gamla meinsemd á ferðinni, sem menn eru kannske orðnir leiðir á að heyra mig tönnlast á, þessi undarlega ómennska lífsvera án lífs sem kallast flokkur og flokkshagsmunir. Auðvitað hefur komið fram að menn eru smám saman að hrökkva frá í þessu dæmi. Það var mjög áberandi í Nd., þegar greidd voru atkvæði um þetta frv. sem um gilti fjórflokkasamkomulag, að þar greiddi aðeins einn maður úr Alþfl. atkvæði með þessum lögum. Tveir sátu hjá og einn landskunnur þingskörungur greiddi atkvæði á móti.

Ég hef þó skömm sé frá að segja eytt þó nokkrum tíma í að lesa þetta frv. og reyna að skilja það. Mér fannst mér ekki vera stætt á því að gagnrýna frv. að öðrum kosti þó að ég hafi í raun verið strax á móti því áður en ég las það. Kannske er það ekki rétt viðhorf. Á allt verður að lita af sanngirni. En ég verð að viðurkenna að ég hafði vantrú á frv. áður en ég sá það og sú vantrú mín óx með hverju augnabliki sem ég las lengur. Það sem eiginlega hefur yfirtekið vantrú og undrun er hneykslun. Því oftar sem frv. er skoðað því oftar sem skoðað er hvernig atkvæði hvers einasta einstaklings verður óvirkt að því leyti að sú athöfn að greiða atkvæði er ekki í neinu samhengi við þá útkomu sem síðan er fengin með reiknireglum, þeim mun meiri hneykslun veldur það. Auðvitað er eðlilegt að þetta hneyksli ekki fólk almennt einfaldlega vegna þess, sem ég var að skýra út áðan að nægilegt er að líta bara yfir bls. 6 og bls. 7 í frv. til þess að hverfa yfir í draumheima um leið og byrjað er að lesa þetta því að textinn er svo snúinn og þungur að lesandinn skilur hvort eð er ekkert í honum. Til þess þyrfti m. a. orðaskýringar sem ekki er að finna á hverju heimili.

Að mínu mati er frv. meingallað eins og það er og það virðist vera orðið mjög almennt útbreidd skoðun því að flokkarnir, sem standa að frv., eru að því leyti sammála að þeir vilja byrja að endurskoða það strax að lokinni samþykkt þess. Í framhaldi af því greinir þá á um hvort eigi að breyta því áður en því hefur verið beitt eða breyta því þegar menn eru komnir að einhverri annarri niðurstöðu en er að finna í frv. sjálfu. Ég geri mér grein fyrir því, þegar ég gagnrýni hlut sem þennan, að ekki er vert að óvirða alla þá vinnu sem farið hefur í þetta frv. Hún er gífurleg, enda mjög vandasamt verk að fullnægja öllum þeim markmiðum sem fram voru sett með það fyrir augum að þeir aðilar sem að þessu frv. standa gætu orðið sammála. segja má að það sé undur í sjálfu sér þegar þessir fjórir flokkar verða sammála um jafnviðkvæmt mál og kosningar eru: sú staðreynd ætti í raun og veru að vekja grunsemdir hjá fólki. Það er ekkert óeðlilegt þó að þeir geti orðið sammála í alls kyns velferðarmálum til handa almenningi. En þegar um er að ræða mál sem snertir beina hagsmuni vitum við að hagsmunir þessara aðila ættu að vera það ólíkir innbyrðis að það væri nánast óhugsandi að þeir gætu orðið sammála. En viti menn! Þeir urðu sammála. Og samkomulagið felst einfaldlega í því að útkoma kosninganna ræðst ekki nema að litlu leyti af því hvernig atkvæðin falla, heldur ræðst hún ekki síður að stórum hluta af því hvernig þessi atkvæði eru síðan tekin og vegin eftir þeim skemmtilegu og flóknu reglum sem er að finna í frv.

Nú má spyrja: Hvers eiga vesalings kjósendurnir að gjalda? Eru kjósendur upp til hópa svo vitlausir að ekki sé hægt að treysta þeim fyrir því að kjósa þá menn til verka sem framkvæmt geta það sem kjósendur vilja? Ég hef reyndar óljósan grun um að sumir menn sem hér sitja inni séu hálfvegis þeirrar skoðunar að kjósendur séu kannske ekki gáfuðustu skepnur sem á jörðinni ganga. A. m. k. finnst mér að þegar menn tala um að hafa burði til þess að berjast á móti straumnum og hafa vit fyrir fólki séu þeir farnir að óvirða vilja kjósendanna nokkuð sterklega.

Ég tel að verið væri að lögfesta, ef þetta verður að lögum, óþolandi mannréttindabrot. Ég talaði um það í framsögu minni við 1. umr. að þetta væri beint brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og undan því verður ekki vikið. Menn hafa afsakað sig í Nd. með því að mannréttindasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé brotinn í svo mörgum öðrum greinum líka að það skipti engu máli þó við brjótum hann í enn einni.

Það er líka annað sem er mjög áberandi. Það er að ef ekki kæmi til andóf einstaklinga í þessu máli átti þetta mál að fara hér í gegn nánast umræðulaust, án þess að menn lýstu yfir höfuð skoðunum sínum á því sem þeir, á tyllidögum allavega, kalla grundvallaratriði mannréttinda og lýðræðis. Ég verð að viðurkenna að ég er undrandi á því hvað menn eru múlbundnir af flokkunum í þessu. Það örlar á smátitringi sem að mestu leyti brýst út í þegjandi þvermóðsku, en umræðan um þetta mál er ekki mikil, a. m. k. ekki nándar nærri eins mikil og ætla mætti þegar verið er að fjalla um atriði sem tengjast stjórnarskrá Íslands.

Það getur vel verið að menn séu ekki sammála mér um að þetta sé réttindabrot, flestir þm. þeirra flokka sem hér eru á þingi standa að þessu að nafninu til a. m. k. formenn þeirra, en mér finnst þó undarlegt að menn skuli ekki sjá ástæðu til að taka til máls um stjórnarskrána og kosningalögin þegar þau eru til umr. í þingsölum.

Það er eftirtektarvert að fyrr í vetur fór fram skoðanakönnun á vegum DV. Í þessari skoðanakönnun kom fram, og það mun vera að einhverju leyti í anda þeirra spurninga sem fram voru bornar, við vitum það allir að skoðanakannanir stjórnast að einhverju leyti af þeim spurningum sem fram eru bornar, — en í skoðanakönnuninni í DV í vetur kom í ljós að 82% þeirra sem svöruðu hvort þeir vildu jafnan atkvæðisrétt eður ei svöruðu því játandi. Það kom fram í þessari skoðanakönnun að utan suðvesturhornsins var líka mikill meiri hluti með jöfnum atkvæðisrétti, meira að segja í þeim sveitum landsins sem nú njóta hvað mests misvægis.

Í morgun var í Morgunblaðinu að sjá niðurstöðu úr skoðanakönnun sem Hagvangur hafði gert. Hagvangur hafði orðað sínar spurningar eilítið öðruvísi en DV gerði og spurt um hvort menn teldu atkvæðamisvægishlutfallið 1:21/2 vera viðunandi slæmt eða gott. Þá kemur í ljós undarlega mikil sáttfýsi hjá eiginlega allri landsbyggðinni, og þá tel ég Reykvíkinga með. Reykvíkingar gátu að 40% sætt sig við þetta atkvæðamisvægi, önnur 40% töldu það ekki gott og úti á landi töldu ótrúlega margir að þetta væri of mikið misvægi atkvæða og það jafnvel fólk úr þeim kjördæmum þar sem atkvæðamisvægið er hvað mest áberandi í hlutfalli við Reykjavík.

Ég held að hægt sé að fullyrða að menn úti á landi skammist sín fyrir ofvægi atkvæða sinna í hlutfalli við vægi Reykvíkingsins, enda hefur það verið mjög til umræðu á undanförnum árum og menn átta sig á því að leikreglur lýðræðisins eiga ekki að stjórnast af þessum hlutum. Ef menn geta ekki aflað skoðunum sínum fylgis með öðrum hætti en þeim að reikna sér meiri hl., ef málflutningur þinn ekki aflar þér meirihlutafylgis fyrir skoðunum þínum, þá eiga þær ekki rétt á sér samkv. leikreglum lýðræðisins. Minni hl. á rétt, en við ákvarðanatöku á hann ekki meiri rétt en meiri hl.

Ég held að ef bornar eru saman skoðanakönnun DV frá í vetur og skoðanakönnun Hagvangs frá því núna nýlega og gerð er tilraun til að lesa úr þeim einhverja niðurstöðu, sjálfsagt takandi tillit til þess að skoðanakannanir hafa takmarkað spásagnargildi, hafi komið í ljós greinilega að hér á suðvesturhorninu er almennur vilji fyrir því að skoða hagsmuni dreifbýlisins utan suðvesturhornsins af mikilli sanngirni. Menn átta sig alveg á því að þeir eru hver öðrum háðir á þessu landi, við erum ein þjóð og að það þýðir ekkert að framkvæma með þeim hætti að ætla að útiloka einn eða annan frá leiknum. Ég held að hægt sé að fullyrða að hér á suðvesturhorninu þrífast engar þær skoðanir sem eru svo vitlausar að það þurfi að koma í veg fyrir að þær nái fram með því misvægi atkvæða sem við búum við í dag. Ég held að menn hljóti og verði að reyna að komast að einhverri niðurstöðu í þessu máli með því að kanna vilja þjóðarinnar með einhverjum hætti. Það þýðir ekki að gera það eins og gert var í seinustu kosningum því að vilji þjóðarinnar í þessu máli var ekki kannaður þá, þetta mál drukknaði í holskeflunni frægu.

Það hefur verið stungið upp á leiðum. Mér finnst að þær mættu vel koma til athugunar. Það hefur verið stungið upp á að halda stjórnlagaþing. Það er ein leið. Ég viðurkenni að ég er ekki svo lögfróður maður að ég geri mér alveg grein fyrir því hvað slíkt fyrirbæri nánast þýðir. Það mætti alveg eins hugsa sér að halda þjóðfund, þangað kæmi ákveðinn fjöldi kjörinna fulltrúa úr hverju kjördæmi, kosinna í almennri atkvæðagreiðslu með jöfnum atkvæðum, og menn reyndu að koma sér saman um hvort sú leið væri rétt að viðhalda misvægi atkvæða, það væri fyrsta kjarnaspurningin. Þegar hún væri leyst eða niðurstaða komin yrði að finna þær leiðir sem heppilegastar þættu til að beita atkvæðunum þannig að vilji fólksins kæmi fram. Ef menn vilja viðhalda misvægi atkvæða finnst mér að það liggi beinast við að viðhalda einfaldlega þeim aðferðum sem viðhafðar eru í dag við það að miðla þingmannafjölda hvers kjördæmis. Auðvitað þarf að skoða fjöldann sem er fyrir framan atkv. hvers kjördæmis. Ef fólk vill hins vegar að atkv. séu jöfn eða eins jöfn og hægt er eru tvær leiðir færar. Annars vegar eitt kjördæmi yfir allt landið eða að breyta kjördæmaskiptingunni með einhverjum þeim hætti að ákveðið samræmi ríki milli fulltrúafjölda í hverju kjördæmi og atkvæðanna sem að baki eru.

Í máli mínu hérna seinast, þ. e. í framsögu við 1. umr., minntist ég dálítið á það sambland í röksemdafærslu sem menn hallast mjög fljótt að þegar þeir eru farnir að ræða þessa hluti, þ. e. að bera saman þau mannréttindi og það vald sem í kosningarréttinum felst og það sem menn kalla aðstöðu eða kjör og vilja nánast versla annars vegar með atkvæðisréttinn og svo hins vegar með kjörin og telja m. a. að sá sem búi nálægt stjórnsýslu, eigi stuttar vegalengdir til miðstýringarinnar, sé í miklu betri aðstöðu en sá sem þarf að fara yfir langan veg og sá sem fer yfir langan veg geti bætt sér þessa aðstöðu sína með því að atkv. hans vegur þyngra en hins sem býr í hlaðvarpanum.

Ef maður tekur þm. kjördæma utan Reykjavíkur tali, þá er ég nokkuð viss um að þeir telja flestallir sitt kjördæmi bera nokkuð skarðan hlut frá borði. Ef þeir hafa rétt fyrir sér, kjördæmið ber skarðan hlut frá borði, hefur reglan um misvægi atkvæða ekki borið árangur. Þá getur maður gert tvennt: breytt henni þannig að atkvæðavægið sé jafnt eða breytt henni þannig að atkvæðavægið verði meira. Þeir þurfa kannske enn þá meira misvægi til að ná fram sínum hlut. Það þarf kannske að fjölga þm. á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurt. v. til þess að íbúar þeirra svæða njóti réttar síns til jafns við íbúa höfuðborgarsvæðisins. En ég held að flestir átti sig mjög fljótlega á því að þetta er ekki leið eða markmið sem þeir geta hugsað sér. Hér gekk úr salnum einhver mesti þungavigtarmaður á Íslandi í atkvæðum, hæstv. fjmrh. Hann er ekki bara þungavigtarmaður í gulli og aurum, hann er líka þungavigtarmaður í atkvæðum. Innan þess kjósendahóps sem að honum stendur rúmast held ég nokkurn veginn fjögur eða fimm kjördæmi af þeim átta sem við þekkjum.

Ég hef látið hér í ljósi að ég tel verulega galla á þeirri kosningaskipan sem hér er verið að leggja til. Ég tel að sú aðferð sem á að beita við að taka ákvörðun um hvaða flokkur og hvaða þingmaður hlýtur sæti, hún sé forkastanlegt hneyksli, móðgun við kjósendur. Ég tel að ástæðan fyrir þessu sé ákveðið yfirklór. Hið hrópandi misvægi atkvæða, sem nú viðgengst, var orðið of áberandi til þess að menn gætu látið sem þeir sæju það ekki. Það þurfti að breyta því. En það mátti ekki breyta því öðruvísi en svo að aðstæðurnar öðru megin við jafnaðarmerkið héldust nákvæmlega þær sömu og þær eru í dag, allavega í meginatriðum. Þannig hefur nánast öll umr. snúist um það hvernig reikna eigi. Hér hafa verið nefndir menn sem heita skáldlegum nöfnum eins og d'Hondt og Ague og Droop. Einn hv. Nd.-þm. spurði: Hver er þessi Droop? og hafði það eftir einhverri gamalli konu. Er þetta aðmíráll á Keflavíkurflugvelli? spurði hún. Henni fannst með ólíkindum hvað maðurinn var farinn að ráða miklu á Íslandi. (RA: Hann fékk nú ekki að ráða.) Hann fékk ekki ráðið á endanum þótt hann tranaði sér mikið fram. Ég held að það sé til marks um það hve mikil alvara liggur á bak við þetta frv. hvað menn hafa það gjarnan í flimtingum. Það er oftast þannig að þegar mannskepnan skammast sín fyrir einhverja hluti, þá fer hún að grínast með þá. Það er ein af leiðunum sem menn hafa til að sætta sig við hluti sem annars eru óþolandi.

Ég verð að viðurkenna að ég vildi gjarnan, ef ég gæti, þó ekki væri nema með því að standa í þessum stól, geta komið í veg fyrir að þetta frv. yrði samþykkt. Því eins og ég sagði áðan tel ég að þetta sé vont frv. Ég verð að viðurkenna að mér er aðeins hugarhægara fyrir þá sök að menn eru sprungnir á limminu. Ég er ekki að hreykja mér eða gleðjast yfir því að mennirnir skuli hafa sprungið á limminu, en í því felst þó örlítill vonarneisti að takast megi við næstu endurskoðun að láta einhver önnur viðhorf njóta sín en þau sem ráðið hafa gerð þessa frv. Það er dálítið eftirtektarvert, vegna þess að ástæðan til þess að við erum hér er það sem einhvern tíma upphófst og var kallað lýðræði, að barátta lýðræðisins hefur alltaf snúist meira og minna um sömu hlutina. Héðinn Valdimarsson sagði árið 1927, þegar hann er að berjast fyrir því að landið verði allt eitt kjördæmi:

„Það eru því kaupstaðarbúar og einkum verkalýðurinn sem geldur þessa rangláta skipulags.“ Hann er að tala um misvægi atkvæða og það kosningafyrirkomulag sem þá var í gildi. „Með núgildandi stjórnarskrá er níðst á þeirri stétt manna. Ástandið hér minnir á það ástand sem var á Englandi nálægt 1830, þótt það væri enn verra. Af breytingum atvinnuveganna þar í landi var kjördæmaskipunin orðin þannig að á einum stað kusu 21 kjósandi einn þingmann.“

Ef við gefum gaum að þeirri þróun sem orðið hefur í hinum dreifðu byggðum landsins og að því er virðist er ekki enn þá búið að stöðva þá er alveg hægt að gera ráð fyrir að þeir tímar komi þegar þingmenn koma hér á þing með helmingi minna en 700 atkvæði á bak við sig. Ég má minna á það í þessu sambandi að hæstv. utanrrh. féll út af þingi af því að hann hafði minna en 5000 atkvæði á bak við sig.

Héðinn Valdimarsson er í orðum þeim sem ég vitnaði til að lýsa ástandinu á Bretlandi 1830. Og hann er að lýsa því vegna þess að í þeirri stjórnarskrárbreytingu sem hann er að mæla fyrir þá, árið 1927, felst sú stórfenglega breyting að vissir aðilar hér á Íslandi fái kosningarrétt. Það voru þeir sem hétu sveitarómagar. Þeir höfðu ekki kosningarrétt. Í þá daga þótti ekki sjálfsagðara en svo að þeir fengju kosningarrétt að þáv. forsrh. — og reyndar fjmrh., Jón Þorláksson, taldi það af og frá að þessir menn ættu rétt á því eða það væri heilbrigt og eðlilegt að þeir fengju kosningarrétt.

Þeir sem börðust fyrir kosningarrétti sveitarómaga földu að verið væri að berjast fyrir mannréttindum. Menn höfðu barist fyrir því að konur fengju kosningarrétt og þær höfðu fengið hann. Menn höfðu barist fyrir því að sveitarómagar fengju kosningarrétt og menn náðu því líka fram. Þar með höfðu allir sem rétt áttu fengið kosningarrétt. Nú orðið eru það einungis alvarlegir afbrotamenn og fólk sem naumast er í tengslum við þessa veröld sem ekki hefur kosningarrétt.

Ég minnist á þetta vegna þess að inn í þessa umr. hefur líka blandast sá málflutningur að það skipti máli í þessari umr. hver aflar mest til þjóðarbúsins, eins og það er gjarnan kallað. Þá eru menn í reynd að túlka þá skoðun að sá sem aflar mest til þjóðarbúsins eigi mestan rétt á því að kjósa. Menn eru að fara fram á það að atkvæðisréttur standi í einhverju ákveðnu hlutfalli við það hvað stóran hlut hver á í öflun þjóðarbústekna. Sá sem aflar mest á þyngsta atkvæðið, hans atkvæði vegur miklu meira en atkvæði nágranna hans sem ekki aflar mjög mikils. Rökrétt niðurstaða af því er náttúrlega sú, að sá sem aflar einskis á náttúrlega engan atkvæðisrétt. Hann er orðinn sveitarómagi.

Ég verð að viðurkenna að það tók mig nokkra stund að átta mig á þessum málflutningi þegar ég heyrði hann. Ég hef reyndar ekki heyrt hann hér í þessari hæstv. deild vegna þess að í þessu máli hafa menn varla opnað munninn hér og að því er ég best fæ séð, hæstv. forseti, ætla þeir ekki að gera það. Það verða líklega mín örlög þegar upp er staðið að vera sá eini sem opnaði munninn í þessu máli. Þetta eintal við sálu mín sjálfs verður að því leyti minn kross að ég þarf síðan að leiðrétta alla þessa ræðu þegar hún er komin á þrykk.

Það skal viðurkennt að það örvar ekki til tungulipurðar að standa hér einn í stól og tala við sjálfan sig. En ég geri það ekki síst vegna þess að þetta er eina ráðið sem við höfum til að vekja athygli á þessu máli, nægilega mikið til að menn átti sig á því hversu alvarlegur þessi atburður er og hve mikilvægur hann er.

Ég viðurkenni að ég tek mér ekki oft orð eins og fjöregg og hjarta eða einhver önnur innyflanöfn í munn til að lýsa því sem mikilvægast er í lýðræði okkar. En atkvæðisrétturinn og það vald sem kjósendum er gefið með honum er það sem kalla mætti fjöregg lýðræðisins. Það er hægt að taka þennan rétt og gera hann nánast að viðundri. Við þekkjum það ef við ferðumst hér yfir það fyrirbæri sem kallast Járntjaldið. Samkvæmt stjórnskipun er þar að finna einhver lýðræðislegustu lönd í heimi. Á fáum stöðum gera stjórnarskrár ráð fyrir eins miklum lýðræðislegum réttindum og í löndunum austan járntjalds. Allir hlutir viðvíkjandi tengslum kjósandans við stjórnvaldið virðast vera rækilega njörvaðir niður í stjórnarskrám þessara landa. En svo sjáum við bara þegar á hólminn er komið að með því hvernig menn framkvæma hlutina er hægt að haga niðurstöðunni að eigin vild. Og það er þetta sem er að gerast hér með þessu frv. Menn eru búnir að búa til niðurstöður, þannig að það er nánast sama hvað gerist úti í kjördæmunum, menn geta þvingað fram a. m. k. það ástand sem við búum við í dag.

Það kemur í ljós t. d. í upplýsingum um þetta mál að það þarf óhemjulega fólksflutninga milli kjördæma til þess að fjöldi þingmanna breytist, til þess að þeir missi fimmta manninn, sem þó er í raun ekki fastur. Ég verð að viðurkenna að þegar ég fer að tala um þetta get ég varla að mér gert að hlæja því þetta er eiginlega svo asnalegt allt saman að það er ekki hægt að tala um það í fullri alvöru. Það þarf óhemjumikla flutninga milli kjördæma. Það þarf nánast að taka helming íbúanna og flytja þá yfir einhver tiltekin landamæri, yfir í annað kjördæmi til þess að veruleg röskun verði á. Allir þm., sem sitja nú á þingi, sjá náttúrlega fram á það að innan þeirra næstu 10 ára sem þeir eiga hugsanlega möguleika á því að sitja hér á þingi gerast þessir tilflutningar ekki. Og í því felst náttúrlega býsna mikið öryggi. Það er líka greinilegt að kjósendur hafa mjög lítil áhrif eftir þessum nýju lögum á persónukjör eða persónuval, enda er það nefnt sem eitt af þeim atriðum sem menn ætla sérstaklega að skoða í endurskoðuninni strax að lokinni samþykktinni. Það er líka illþolandi að hugsa til þess að það sé væntanlega nýja leiðin til sátta og samkomulags milli flokkanna að skoða þann möguleika sem að því er virðist lítt hafði verið skoðaður, þ. e. möguleikann um persónukjör. Ekki vegna þess að ég sé á móti persónukjöri heldur vegna þess að ég óttast að niðurstaðan hjá þeim aðilum, sem fylgjandi yrðu slíku, yrði í anda frv. hérna, þ. e. persónukjör þar sem hægt er að sveigja atkvæði kjósandans í þá farvegi sem þjóna best hagsmunum þeirra manna sem nú sitja við stjórnvölinn.

Ég nefndi það hér áðan að við hlustuðum hálfsyfjaðir um miðja nótt, stuttu fyrir jól, á formann Sjálfstfl. flytja framsögu fyrir þessu frv. Sú framsaga var ekki hástemmd eða hávær. Hún var mjög hljóðlát og hógvær og manninum leið greinilega ekki allt of vel. Nú er komið í ljós hvers vegna honum leið svona illa. Vegna þess að hann var kunnugur innviðunum gerði hann sér grein fyrir því betur en aðrir að það samkomulag sem þjóðinni hafði verið talin trú um að fyrir hendi væri var ekki til. Það var verið að biðja menn að samþykkja eitthvað, sem ekkert var, til þess eins að menn misstu ekki andlitið. Ef maður skoðar þá athöfn að missa andlitið þá held ég að menn hefðu betur haft kjark til að missa andlitið í þessu máli, vegna þess að það hefði

hugsanlega getað leitt til þess að fólk fengi einhver þau kosningalög sem þjónuðu þess hagsmunum og það væri ávinningur sem ég teldi jafnast margfalt á við smátap á því andliti sem við teljum okkur hafa.