21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6429 í B-deild Alþingistíðinda. (5942)

155. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. meiri hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Það væri e. t. v. ástæða að fara nokkrum orðum um ræðu hv. 8. þm. Reykv. en ég neita mér um það þó að ræðan hafi í sumum efnum verið með nokkuð furðulegum hætti. Hv. þm. sagði að frv. það sem hér lægi fyrir væri ósvífni og móðgun við kjósendur landsins. Hann sagði að þeir sem stæðu að því litu svo á að kjósendur væru ekki gáfuðustu skepnur sem á jörðinni gengju, svo ég noti hans orð. Hann sagði að þetta frv. væri beint brot á mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hann sagði að menn úti á landi skömmuðust sín vegna ofvægis, eins og hann orðaði það, atkvæðisréttar gagnvart þéttbýlinu. Allt eru þetta stór orð og miklu stærri orð en ég hélt að svo dagfarsprúður þm. sem hv. 8. þm. Reykv. léti sér um munn fara. En á bak við þessi stóryrði var að sjálfsögðu skoðun hv. þm. á því sem hann telur að sé rétt vægi atkvæða.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi það mál og ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hjá honum í þeim efnum. Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði að hann hefði ekki rætt þessi mál fyrr í umr. í Ed. á þessu þingi, stjórnarskrármálið og vægi atkvæða. Ég hef hins vegar rætt það áður og ætla mér ekki að fara að ræða það hér almennt nú, en læt mér nægja að taka undir þau grundvallarsjónarmið sem komu fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v.

En meginástæðan fyrir því að ég stóð upp til þess að segja hér nokkur orð var nú samt ræða hv. 3. þm. Norðurl. v.. eða þar sem hann fjallaði um samkomulag stjórnmálaflokkanna sem stóðu að stjórnarskrárbreytingunni á síðasta þingi. Það er augljóst að það var gert samkomulag milli Sjálfstfl. og Framsfl., Alþb. og Alþfl. í stjórnarskrármálinu. samkvæmt því samkomulagi fylgdi sem fskj. með stjórnarskrárfrv., sem lagt var fram á síðasta þingi, frv. um breytingu á kosningum til Alþingis, það frv. sem við hér ræðum. Samkomulag sem gert er ber að sjálfsögðu að standa við. Og ég vil segja það fyrir hönd míns flokks, Sjálfstfl., að annað kemur ekki til greina og hefur aldrei komið til greina. Ég vil til áherslu á þessu láta þess getið að í meðferð þessa frv. f stjórnarskrárnefnd þessarar hv. d. hreyfði ég hugmynd um brtt. við þetta frv. Alþfl. var sammála þeirri hugmynd, Framsfl. var sammála þeirri hugmynd en fulltrúi Alþb. var andstæður. Ég gerði þessa hugmynd ekki að formlegri till. vegna þess að ég leit svo á, og Sjálfstfl. lítur svo á, að það sé bindandi samkomulag milli þessara flokka að sjá um að þetta frv., sem hér er til umr., verði að lögum. Það sé ekki hægt að breyta því nema allir flokkar, sem stóðu að samkomulaginu, séu fylgjandi þeirri breytingu. Og hver einn flokkur fyrir sig hafi neitunarvald í þessu efni. Það neitunarvald var virt í þessu tilfelli sem ég hef hér vikið að þegar Alþb. var á móti eða fulltrúi þess í stjskrn. á móti því að gerð yrði sú breyting á frv. sem ég lagði til.

Um þetta er enginn ágreiningur. En ég vil að gefnu tilefni, og af því sem hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði, láta það koma skýrt fram hér, svo að engum misskilningi geti valdið síðar, að það er skoðun Sjálfstfl. að þegar búið er að lögfesta þetta frv. séu þeir flokkar sem stóðu að samkomulaginu óbundnir við það áfram. Ég mæli þetta fyrir hönd Sjálfstfl. En ég hef ástæðu til að ætla að fleiri aðilar að samkomulaginu en Sjálfstfl. líti svo á.

Nú ætla ég ekkert að fara að ræða frekar þetta samkomulag. Ég vildi aðeins að það kæmi hér skýrt fram hver er skoðun Sjálfstfl. um það hvað þetta samkomulag varir lengi.