10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (595)

Umræða utan dagskrár

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það ber að fagna þeim hátíðisdögum þegar menn brýna raust í þágu stöðu og þróunar í íslenskum sjávarútvegi. Það er ekki svo oft. Það hefur verið rætt hér um mikilvægi sjávarútvegs Íslendinga og menn eru sammála um það þegar grannt er skoðað. En það er eins og menn þurfi sí og æ að vakna af löngum dvala þegar komið er að krepputímum í sjávarútvegi. Það er kannske tímanna tákn að menn raska meðferð íslenskra orða og heita. En við köllum okkur gjarnan menningarþjóðfélag, menntamannaþjóðfélag, iðnaðarþjóðfélag, þannig keppir hver að sínu, en samt sem áður er aðeins til eitt rétt orð yfir okkar þjóðfélag, þ.e. veiðimannaþjóðfélag.

Við höfum verið lengi og verðum um sinn a.m.k. fyrst og síðast veiðimannaþjóðfélag. 75–80% af þjóðartekjum Íslendinga koma af fiskveiðum og fiskvinnslu. Það er þess vegna sem við erum veiðimannaþjóðfélag. Við getum ekki skipulagt nema að ákveðnum hluta og verðum sífellt að vera í stöðu spámannsins þegar við tökum ákvarðanir um okkar framkvæmdir og uppbyggingu þjóðfélagsins.

Sjávarútvegurinn hefur verið í fararbroddi þeirrar miklu efnahagsþróunar sem átt hefur sér stað á Íslandi, og það er kominn tími til að tekið sé tillit til þess þegar vigtuð er staða sjávarútvegsins.

Sú spá sem sett hefur verið fram um samdrátt í þorskveiðum, sem að vissu leyti að vísu er eingöngu spá, þýðir, ef hún stenst, a.m.k. 15% samdrátt í framleiðslu og útflutningi sjávarafurða á Íslandi. Ef þessi spá rætist kallar það á endurmat allra fyrri áætlana um framvindu efnahagsmála á næsta ári. En menn vona alltaf í lengstu lög að úr rætist. Og þótt taka verði fullt tillit til fiskifræðinga, þá verður að taka varlega öllum upplýsingum þar að lútandi vegna þess að fiskifræðingar og aðrir fræðingar eru hvorki alvitrir af sjálfum sér né þeim rannsóknum sem þeir stunda, sérstaklega þegar þeir hafa ekki fullkomna aðstöðu til að sinna sínum rannsóknum. Þar er kreppt að í sjávarútvegi, á rannsóknasviðinu, sem og öðrum greinum útvegsins.

Menn eru sammála um það að miða eigi við skynsamlega nýtingu þeirrar auðlindar sem felst í fiskstofnunum á Íslandsmiðum, vegna þess að þaðan kemur það hráefni sem ræður úrslitum um hvort meira eða minna er til skiptanna. En það er ekki nóg að útgerðin sé látin reka á reiðanum í þjóðfélaginu, heldur á það einnig við það fólk sem sinnir fiskvinnslustörfunum.

Það hefur verið rætt nokkuð um hlutfall í vinnslu í fiskveiðum og öðru í þjóðfélaginu hér í dag. Skyldu menn hafa gert sér grein fyrir því hverju munar að vera menntamaður í skóla á Íslandi eða verkamaður í frystihúsi á Íslandi? Ætli menn geri sér almennt grein fyrir því í því tímakapphlaupi sem nú er hver munur er þar á tekjum og lífsafkomumöguleikum?

Staða þjóðfélagsins fer einfaldlega að mestu leyti eftir því hvað fiskveiðifloti okkar veiðir, hvað við fáum fyrir hvert kg, hvern fisk.

Um langa tíð hefur stefnan í fiskveiðum hins vegar verið sú í of ríkum mæli að spáð hefur verið eins og kerlingin gerði sem taldi sig veðurgleggri en aðra menn. Hún rauk gjarnan fram í dyr á bæ sínum, hnusaði út í loftið og sagði: Ja, ég er illa svikin ef hann verður ekki suðaustan eða einhver önnur átt á morgun. Þetta er sú kjölfesta sem við höfum byggt á í okkar atvinnuuppbyggingu í sjávarútvegi. Við höfum lifað í voninni og það hefur allt komið til greina.

Ég spurði hvort menn hefðu gert sér grein fyrir því hver væri tekjumismunur verkafólks á Íslandi og menntafólks sem er við nám í Háskóla Íslands. Lægsta kaup verkafólks í fiskvinnslu er 10 961 kr. Meðalframfærslukostnaður fyrir einstakling í námskerfinu er 13 681 kr. Meðalgreiðsla er 95% af þeirri upphæð, sem þýðir að námsmaðurinn, sem hefur verið tvö ár eða lengur í háskóla eða iðnskóla, hann hefur rétt tæplega 13 þús. kr. á mánuði, 12 997 kr. í námslán á sama tíma og verkamaðurinn hefur 10 961 kr. Það þýðir að sambýlisfólk í menntakerfinu, sem stundar nám og nýtur þessara réttinda, hefur 25 994 kr. á mánuði en sambýlisfólk, sem vinnur við frumatvinnuveg landsins, í fiskvinnslu, hefur 21 922 kr. Þarna munar liðlega 4 þús. kr. á fólki sem býr í sambýli eða hjónum.

Það hefur löngum verið sagt að mennt sé máttur, en þarna munar miklu á þeim mætti sem menntunin er og því, sem fólk í sjávarplássum gjarnan tekur sér í munn, að það sé munur að hafa migið í saltan sjó. En þetta lýsir kannske okkar þjóðfélagi og þeirri tímaskekkju sem við búum við í allri uppbyggingu er lýtur að sjávarútveginum. Hvers á verkafólk, sem vinnur af fullri alvöru í sinni vinnu, að gjalda miðað við háskólaborgarann og menntamanninn? Þetta er umhugsunaratriði.

Sjómaður, hann hefur kauptryggingu. Hún miðast ekki við ákveðinn vinnutíma á dag og þar er því að sjálfsögðu að einhverju leyti tekið tillit til allrar þeirrar yfirvinnu sem sjómaðurinn þarf að inna af höndum árið um kring. Hann hefur 15 876 kr. í kauptryggingu, en það er furðulegt óréttlæti sem er við lýði í íslensku þjóðfélagi árið 1983, að þessi munur sé á milli almenns verkafólks og námsmanna. Námsmenn eiga ekki að hafa nein sérréttindi umfram verkafólk. Þetta er dæmi sem undirstrikar að launaskipting þjóðfélagsins er alvarlega bjöguð. Það vita allir að enginn er sæll af þeim launum sem hér hefur verið rætt um. Þess vegna er ástæða til að taka undir það að menn taki tak aðgerðum í sjávarútvegi á öllum sviðum. Við verðum að skipuleggja í réttri röð, stokka upp í sjávarútvegi, hrista til í stöðu hans og í þjóðfélaginu og tryggja þannig grundvöll atvinnuveganna til að skapa svigrúm til hærra kaups fyrir fólkið í landinu. Það er þess vegna ástæða til að hvetja til þess að mörkuð sé skýr stefna í sjávarútvegi í stað þess að láta reka á reiðanum.