21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6434 í B-deild Alþingistíðinda. (5952)

281. mál, útflutningsgjald af grásleppuafurðum

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið sat ég ekki á þeim nefndarfundi í morgun sem afgreiddi þetta mál út úr sjútvn., enda hefur það komið fram á þeim fundum sem þetta hefur verið rætt að ég er alfarið á móti björgunaraðgerðum eins og þessum og tel nær að þessir menn legðu sig sjálfir í líma við að afla fjár til að greiða þessar óráðsíuskuldir sínar. Ég tek undir það, sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason sagði, að þetta er sósíalismi andskotans í allri sinni mynd.

Hv. þm. Valdimar Indriðason sagði réttilega að þetta frv. láti ekki mikið yfir sér. 1. gr. frv. er reyndar til komin vegna þess að þau lög, sem voru sett hér 1980, ef ég man rétt, kváðu ekki nógu skýrt á um það að þeim fjármunum, sem teknir væru af grásleppuframleiðendum, væri skilað. Í sjálfu sér er ég ekki á móti þessari 1. gr. þó að mér þætti réttara að þessi 3.25% væru borguð nákvæmlega jafnt af þessari afurð hvort sem hún væri flutt úr landi eða flutt til verksmiðja hér innanlands og unnin þar.

Ég teldi nær að gerð yrði opinber rannsókn á sóun þeirra fjármuna sem hér um ræðir. Nú geta félagasamtök, sem leggja út í tvísýna fjárfestingu og ferðalög — til Frakklands og víðar — og tapa fjármagni, komið til ríkisstj. og pantað lög um að láta félaga sína víðs vegar um landið greiða þessa fjármuni. Hefði orðið gróði að þessu fyrirtæki hefði enginn kvartað. Ég hef rætt við marga grásleppuveiðimenn — sem ég kann betur við að kalla svo en grásleppuhrognaframleiðendur — og þeir hafa einmitt bent á það hvað hefði skeð hefðu þeir grætt á þessu fyrirtæki. Og það eru margir utan þessara samtaka sem munu koma til með að greiða þetta. Margir hafa borið það fyrir sig að þeir fái ekki það fjármagn sem rennur til Fiskveiðasjóðs og þess vegna sé þeim nokk sama hvað verður um þessar rúmar þrjár millj. kr. Ég held að kominn sé tími til að stjórnmálamenn reyni að halda sér við það að menn verði að standa ábyrgir gagnvart gjörðum sínum. Við höfum ekki efni á því að hlaupa undir bagga með óráðsíumönnum eins og hér um ræðir. Það er einfalt mál og ég tel það mjög alvarlegt að brjóta svona prinsipp.