21.05.1984
Efri deild: 110. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6436 í B-deild Alþingistíðinda. (5962)

Um þingsköp

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 5. landsk. þm. sagði hér áðan og vek athygli á því að það frv. sem hér liggur fyrir þarf allmikla umfjöllun í n. Ég hef margar aths. við það að gera t. d. og mun óska eftir því að það fái vandaða meðferð í n. Ég undrast hvað málið gekk fljótt fyrir sig í Nd. Ég held að menn hafi ekki almennilega áttað sig á því hvað þeir voru að gera. Ég sé ekki að þótt málinu yrði vísað til n. nú að það hefði neina þýðingu, því eftir því sem talað hefur verið um er meiningin að ljúka þingi á morgun. Ég legg því til að þessu frv. verði ekki vísað til n. nú heldur tali ráðh. fyrir frv. og skýri það. Ég ítreka að ég tel að það hafi ekki praktíska þýðingu að vísa málinu til n. vegna þess að þá ynnist ekki tími til að koma því lengra áfram.