21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6439 í B-deild Alþingistíðinda. (5973)

Um þingsköp

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er athyglisvert að hæstv. félmrh. lagði á það áherslu að því er hann sagði áðan að málið fengi meðferð. Hv. 1. þm. Suðurl. sagði nei. Þetta er eins og í húsnæðismálunum. Það er hæstv. félmrh. sem lætur þar í minni pokann fyrir formanni Sjálfstfl. og væri fróðlegt að rifja það upp í fleiri málum af þessum toga þar sem Framsfl. virðist vera á undanhaldi.

En þetta vekur athygli á því, herra forseti, að mér er ekki kunnugt um að nú sé í gildi neitt samkomulag um þinghaldið af einu eða neinu tagi. Ég vil spyrja hæstv. forseta Nd. hvort hann teldi ekki skynsamlegt með tilliti til þess að mörg verk liggja hér fyrir á þessum sólarhring að hann efni til fundar með forustumönnum þingflokkanna og forsetum þingsins um þinghaldið almennt. Það mun ekki vera frágengið á milli flokkanna hvenær þingslitafundur fer fram, hvort hann verður á morgun eða einhvern tíma seinna í þessari viku. Ljóst er að ef ætlunin er að draga þingslit eitthvað fram eftir vikunni hlýtur það að þýða að mörg mál geta fengið ítarlegri umr. en ella væri í fyrsta lagi og í öðru lagi hlýtur það að þýða að ýmis mál, sem legið hafa í nefndum, hljóta að verða dregin hér fram og óskað eftir fundum í nefndum þingsins til að fjalla um þau.

Mér sýnist að stjórnarliðið, sem ábyrgð ber á þinghaldinu, sé nú að stefna öllu þinghaldinu í algera óvissu og það sé ekki á hreinu hvenær menn komist frá þeim verkum sem gert hafði verið ráð fyrir að ljúka. Menn skildu það svo að um væri að ræða óformlegt samkomulag um að þingslit gætu farið fram nú alveg á næstunni og þess vegna eyddu þm. ekki löngum tíma í umr. hér fyrir helgina þegar afgreidd voru mörg lagafrv. með lítilli umr. Nú virðist það vera ósk stjórnarinnar að öðruvísi sé á málum haldið og hljóta menn þá í samræmi við það að fara fram á að ýmis þau mál, sem stjórnarliðið hefur setið hér á í nefndum meira og minna mánuðum saman og í allan vetur, verði tekin fram og nefndarfundir haldnir. Ég skora hins vegar á hæstv. forseta Nd. að reyna að sjá til þess að þegar í dag verði haldinn fundur með forsetum og formönnum þingflokkanna til að fjalla um þinghaldið þannig að frá hlutunum verði gengið með eðlilegum hætti hið allra fyrsta.