21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6440 í B-deild Alþingistíðinda. (5975)

Um þingsköp

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Ég vil upplýsa það að í gær var haldinn fundur formanna þingflokka og forseta þingsins um þinghaldið. Það er kannske ekki von að einstakir þm. viti af þessum fundi nú því að sjálfsagt hafa ekki verið haldnir fundir almennt í þingflokkum fyrir þingfund nú. Út af orðum hv. þm. Guðmundar Einarssonar vil ég aðeins segja það að það hafa orðið mistök með fundarboð og hann ekki verið boðaður. En fulltrúi hans þingflokks var engu að síður á fundinum sem varaforseti.

Á þessum fundi var farið yfir stöðu mála en ekki var gengið endanlega frá því hvenær þinglausnir verða. Hins vegar er stefnt að þeim á morgun. En forsenda þess að þinglausnir geti orðið á morgun er sú að þau mál, sem nú eru hér á dagskrá, verði afgreidd á deildafundum, ef ekki í dag, kvöld eða nótt þá verður að halda áfram deildafundum á morgun. Svo einfalt er það. Ef menn vilja hins vegar leggja sig fram um að ljúka þingstörfum á morgun töldum við, sem sátum þennan fund í gær, að það væri hægt.

Það er alveg ljóst að í einstökum málum sem eru óafgreidd — og það á sérstaklega við um mál sem eru á dagskrá Nd. — verða töluverðar umr. og það er ekkert reynt að koma í veg fyrir það, alls ekki. Menn hljóta að taka sér þann tíma sem þarf, en ef menn ekki geta sagt mikið í fáum orðum verður að halda áfram fundarstörfum í deild lengur en í dag. Þetta vildi ég upplýsa.