21.05.1984
Neðri deild: 101. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6440 í B-deild Alþingistíðinda. (5976)

Um þingsköp

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég vil lýsa því yfir að ég er tilbúinn til að mæta til fundar hvenær sem er og ræða við stjórnarandstöðuna ásamt forsetum þingsins og forsrh. um starfshætti í þinginu. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson tók af mér ómakið að lýsa því hvaða mál þurfi hér fram að ganga. Það eru reyndar fleiri mál en eru hér á dagskránni. Það eru 2–3 mál til viðbótar sem við komum til með að upplýsa um á hugsanlegum fundi sem haldinn verður. En ég vil endilega biðja menn að sitja nú á strák sínum eins og hv. þm. Guðmundur Einarsson sagði að menn hefðu gert fyrir helgina og ekki fara að efna til neinnar meiri háttar þingskapaumr. að þarflausu heldur held ég að hyggilegra væri að koma í gang eðlilegum þingstörfum. Síðan settumst við niður jafnframt og reyndum að átta okkur á stöðunni og hvernig málum yrði greiðast þokað áfram til afgreiðslu í deildinni.