10.11.1983
Sameinað þing: 17. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

Umræða utan dagskrár

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 7. landsk. þm. fyrir það að hefja þessa umr. hér í dag um sjávarútvegsmálin og ég harma það mjög hvað fáir þm. hafa getað sýnt í verki hug sinn til sjávarútvegsins með því að vera hér viðstaddir við slíka umr. um þau mál sem nú ber hvað hæst í þjóðfélaginu.

Sjávarútvegurinn hefur oft verið óvægilega gagnrýndur af ýmsum í okkar þjóðfélagi. Það hefur viljað gleymast í umr. að hann hefur verið sú undirstaða sem byggt hefur verið á í efnahagslegri uppbyggingu á Íslandi. Þangað hefur fjármagnið verið sótt en atvinnugreinin hefur verið rekin samkvæmt hinni margumtöluðu núllstefnu — leiðinlegt orð, komið frá Þjóðhagsstofnun — en það merkir á mörkum gróða og taps, ef ég skýri það rétt, það hefur verið notað til viðmiðunar í þessum rekstri. En reynslan hefur verið sú að þessi grundvöllur hefur orðið mínus núll mörg undanfarin ár. Þannig hefur fjármagnsvandi atvinnugreinarinnar sífellt vaxið. Nú þegar er syrtir að vegna samdráttar í þorskafla verður minna og jafnvel ekki neitt flutt frá þessari atvinnugrein til annarra greina í okkar þjóðfélagi. Þetta mun koma niður á öllum þáttum þjóðfélagsins. Og það heyri ég á ræðum manna hér að sem betur fer gera menn sér ljóst að þar er vá fyrir dyrum, þaðan verður ekki tekið meira að sinni fyrr en þar bætist hagur. Það er búið að taka of mikið of lengi í millifærslum frá þessari atvinnugrein til að byggja upp aðra starfsemi í landinu, sem er mörg góð en mörg óþörf. En ég ætla ekki að fara nánar út í það hér. Þetta verður stutt ræða.

Við þurfum að takast á við og vinna okkur sameiginlega út úr þeim vanda sem hér blasir við. Ég heiti á hv. alþm. að sýna fulla samstöðu og ég efast ekki um að svo verður. Við getum lagt niður karp um einstök mál. Hér er slíkt stórmál á döfinni að við höfum ekki efni á öðru. Það er skylda okkar á hæstv. Alþingi að takast á við þetta mál og reyna að ná þar fullri samstöðu og samhug.

Það er rætt hér um skýrslu fiskifræðinga. Þær hafa margar komið. Ég tek ekki undir gagnrýni á fiskifræðinga sem slíka. Þetta er, má segja, ung rannsóknargrein hér á landi og þeir gera sitt besta. Þeim getur skjátlast en það er ekki allt þeim að kenna. Þetta getur stafað af ýmsu, eins og við vitum, af ástandi sjávar til fæðuöflunar ungviðis þorskstofna o. fl. Þetta höfum við orðið að búa við um aldaraðir hér á Íslandi, í hinu kalda umhverfi í kringum okkar land. Það var ekki ofveiði hér á Íslandsmiðum fyrir rúmri einni öld en það er stutt síðan ég las það í annálum frá Akranesi að algjör aflabrestur varð vertíðina 1882, það voru sagðir fáir fiskar á skipum. Þá voru ekki stórvirkir togarar eða önnur stórvirk veiðitæki sem tóku þann fisk sem þá var, og aflinn glæddist aftur, þannig að við megum ekki gleyma því hvað hin ytri skilyrði spila hér stórt inn í.

Fiskifræðingar gefa vissa von um að þetta geti batnað og þeir vilja endurskoða spá sína seinni partinn í vetur eða þegar vertíð lýkur, því að þeir eiga e.t.v. von á einhverjum göngum frá Grænlandi, ef samgöngur verða hagstæðar á þorskbrautinni, ef svo má segja. En þetta getum við ekki veðjað á í dag, við verðum að taka þessi mál alvarlega. Og það bitnar á öllu þjóðfélaginu, það skulum við gera okkur ljóst. Við verðum vafalaust að gera þær óvinsælu ráðstafanir að draga úr sókn flotans. Við skulum sleppa deilum um það hér hvort hann er of stór, hvernig hann er samsettur eða annað, það verða allir að takast á við þetta. Þetta verður viss skerðing.

Og eitt vil ég benda á, við skulum vera raunsæ. Ég tel enga ástæðu til að byrja t.d. netaveiðar allt of snemma í vetur. Það lá í orðum sjútvrh. hér í fyrradag að fresta þeim eitthvað, kannske til 1. febr. Ég teldi enga goðgá að líta á mánaðamótin febr.—mars í netaveiði. Ekki það að ég sé að ráðast á bátamenn, það má enginn skilja orð mín svo, heldur aðeins af raunsæi. Sumir okkar markaðir, þ.e. saltfiskmarkaðurinn og skreiðarmarkaðurinn, byggja mest á netaafla. Sú vara sem úr netunum kemur fer að mestu á þá markaði. Það er ekki nýtt í frystingu nema fiskur sem er næturgamall og dreginn á grunnu vatni. Ef litið er á aflatölur og mat á fiskafla fyrri hluta vertíðar sér maður því miður of margar tölur þar sem 60% fara í fyrsta flokk og annað er svo lakara. Það er ekki sá skreiðarmarkaður í dag að við höfum efni á því að ganga þannig í þessa gullkistu, að taka þessa vöru til að setja hana í ódýrustu vinnsluna. Þetta skulum við muna.

Á sama hátt getum við gengið betur um annars staðar og aukið afla annars staðar. Eins og kannske mörgum ykkar er kunnugt er ég ekki neinn sérstakur vinur dragnótaveiða. En það eru samt til svæði við landið sem er fullkomlega öruggt og óhætt, að fiskifræðingar segja, að ganga með dragnót á. Ég get nefnt Breiðafjörðinn, þar sem er bæði bolfiskur, ýsa og koli. Það er eins við Norðausturland, á Þistilfirðinum og víðar eru svæði sem mætti nýta miklu betur. Þetta verðum við allt að horfa á, það má engum dyrum loka, við megum ekki vera með of mikla svartsýni. Þorskurinn er hluti af okkar aflasamsetningu og auðvitað er hann langverðmætastur, en við eigum víðar möguleika. Það var minnst hér á skel og rækju og annað slíkt. Þetta er alveg rétt, þarna eigum við alls staðar möguleika. Þetta verðum við allt að líta á.

Og síðast en ekki síst: Við þá vini okkar sem hér hafa veitt í okkar landhelgi á vissum undanþágum, eins og Færeyinga frændur okkar og fleiri, verðum við að segja hiklaust að því miður getum við ekki leyft ykkur þetta lengur. Eins og ástandið er hjá okkur höfum við ekki efni á því. Því að þó það sé ekki mikið þá eru þessar þjóðir þó með a.m.k. fjögra til fimm togara ársafla af þeim fiski sem við þurfum á að halda. Þetta eru kannske ekki stórir hlutir en við verðum að athuga það mjög vel hvort þeir geta ekki skitið aðstöðu okkar, að þarna getum við ekki haft þá lengur fyrr en bætist við okkar afla.

Þessi umr. er orðin svo löng að ég ætla ekki að hafa orð mín hér fleiri. Ég minni aðeins á það að útlitið er dökkt eins og er, en við höfum oft séð dökkar hliðar í okkar atvinnumálum á Íslandi og okkur á ekki að bresta kjark til að takast á við það. En við verðum bara að vera sameinuð í því að vera ekki að gefa falskar vonir um ýmsa hluti sem gætu kannske skeð. Við verðum að horfa á raunveruleikann og takast á við málin af raunsæi eins og þau blasa við okkur.