21.05.1984
Neðri deild: 102. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 6457 í B-deild Alþingistíðinda. (5998)

221. mál, jarðalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég heyrði ekki upphaf ræðu hv. 3. þm. Reykv. þar sem ég sat í minni deild, en ég held að ræða hans og þeirra sem talað hafa á eftir sé að nokkru leyti á misskilningi byggð í sambandi við aukið vald jarðanefnda. Skv. núgildandi jarðalögum hafa jarðanefndir þetta vald og er ekki verið að auka þeirra umráð.

Í sambandi við að það þurfi leyfi þeirra til að reka bílaverkstæði held ég að nauðsynlegt sé að líta á orðalagið eins og það er í 10. gr. frv., a-lið hennar, til þess að stofna nýtt býli o. s. frv. Þarna er sem sagt um að ræða lögbýli, en ég tel að það sé engin ástæða til að vera að stofna lögbýli þó að einhver reki bílaverkstæði og það sé aðeins til að flækja málið. Ástæðan fyrir mikilli ásókn í að fá viðurkennd lögbýli til alls konar slíkrar þjónustu er sú framkvæmd sem höfð hefur verið á orkulögum, þ. e. fjárhagslegur stuðningur við að leggja rafmagn til lögbýta en ekki til annarra bygginga í sveitum. Þarna tel ég að þurfi að verða breyting á þannig að allir sitji við sama borð, svo að ekki sé verið að stofna lögbýli í þessu skyni, og mun leggja áherslu á að þessi þjónustustarfsemi sé rekin í sveitum og hlúð að henni án þess að stofnað sé þar til lögbýla.

Ég held að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki borið nægilega saman núgildandi lög og þetta frv. eða gengið alveg úr skugga um að þarna er ekki verið að herða á. Það er t. d. sagt í 3. gr.: „Ekki þarf að afla samþykkis skv. 6. gr. vegna aðilaskipta að réttindum yfir sumarbústöðum í sumarbústaðahverfum eða sumarbústöðum á lóðum, sem teknar hafa verið úr landbúnaðarnotum.“ Þarna er einmitt verið að firra t. d. jarðanefndir afskiptum sem ekki er talin nein þörf á.

En í sambandi við þetta mál vildi ég gjarnan lýsa því yfir að bent hefur verið á ýmis atriði sem reynslan af framkvæmd jarðalaganna hefur leitt í ljós hvað snertir jarðanefndirnar. Væri ástæða til að endurskoða það og ég hef látið í ljós að ég vildi stuðla að því og vinna að því. Finnst mér sjálfsagt að taka þá til athugunar að fella niður það sem menn telja að fenginni reynslu að unnt sé að komast hjá.

Annars stangast óneitanlega svolítið á þegar talað er um að ekki eigi að hafa leyfi fyrir búrekstri og öðru slíku þegar á sama tíma er gerð krafa um að koma búvöruframleiðslunni niður á það stig að hún fullnægi aðeins innanlandsmarkaði svo að ekki þurfi lengur á útflutningsbótum að halda. Því miður er erfitt að koma því saman án þess að hafa einhverja stjórn á hlutunum. Þá er vitanlega eðlilegt að framleiðslan sé þar sem skilyrði eru talin best og þess vegna sé að einhverju leyti tekið tillit til búrekstrarskilyrðanna. Það er einmitt þetta atriði sem haft er í huga í sambandi við ákvæðin um félagsbúin, það þurfi leyfi fyrir þeim þar sem þau hafa töluverð áhrif á núverandi stjórnkerfi landbúnaðarframleiðslunnar, hið svokallaða kvótakerfi. Ég veit að bændur vildu helst að þetta gæti verið sem frjálsast, en sá annmarki er á að aðstæðurnar hafa knúið okkur til þess í ríkara mæli að reyna að hafa stjórn á framleiðslunni. Það verður ekki gert án þess að hafa eitthvert tæki til þess.

Hér var spurt um stjórn graskögglaverksmiðjanna. Þeim er núna þannig skipað að þriggja manna stjórnir sjá um rekstur þeirra. Það form verður óbreytt á meðan ekki eru sett ný lög um þær. Þær hafa verið reknar sem B-hluta fyrirtæki ríkissjóðs og verða það áfram þangað til sett verða ný lög um þær. Frv. um það var lagt fram á síðasta þingi, en náði ekki fram að ganga og það tókst ekki í tæka tíð að leggja slíkt frv. fyrir þetta þing, en verður gert í haust. Að öðru leyti verður framkvæmdastjórnin sú sama og verið hefur. En sá milliliður sem landnámsstjórn hefur verið milli landbrn. og þessara rekstrarstjórna er úr sögunni og fækkar þar einum millilið og verður að því leyti einfaldara.

Ég held að ef menn skoða þetta rækilega og bera frv. saman við núgildandi lög muni menn ekki komast að raun um að þarna sé um aukningu á stjórn að ræða. Hins vegar hefur það komið fyrir að ákvarðanir landnámsstjórnar hafa ekki verið að fullu í samræmi við t. d. þá framleiðslustjórnun sem reynt er að koma á núna í landbúnaðinum og mér heyrist að þingflokkur hv. 3. þm. Reykv. telji að sé nauðsynlegt, en slíkt verður ekki gert nema að hafa eitthvert tæki í höndunum til þess.