10.10.1983
Sameinað þing: 1. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Rannsókn kjörbréfa - varamenn taka þingsæti

Aldursforseti (Ólafur Jóhannesson):

Áður en kjördeildirnar taka til starfa vil ég leyfa mér að lesa bréf sem borist hafa.

Það er fyrst bréf frá 23. sept. 1983: „Herra forseti.

Hér með tilkynnist yður að ég mun af persónulegum ástæðum taka mér frí frá þingstörfum um óákveðinn tíma frá og með 1. okt. n.k. Óska ég þess að varamaður taki sæti mitt á Alþingi þar til annað verður ákveðið. Ég óska þess jafnframt að vera tekinn af launaskrá Alþingis frá og með sama tíma.

Virðingarfyllst.

Ellert B. Schram.“

Þá er bréf dags. í dag, 10. okt. 1983.

„Þar sem Garðar Sigurðsson, 4. þm. Suðurl., dvelst nú erlendis í opinberum erindum og verður fjarverandi næstu vikur leyfi ég mér samkv. beiðni hans og með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður Alþb. í Suðurlandskjördæmi, Margrét Frímannsdóttir oddviti, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans, og fylgir með kjörbréf fyrir varamann.

Ragnar Arnalds,

formaður þingflokks Alþb.“

Ennfremur er bréf líka dagsett í dag:

„Samkvæmt beiðni Halldórs Blöndals, 5. þm. Norðurl. e., sem er erlendis í opinberum erindum, leyfi ég mér með skírskotun til 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess að 1. varamaður hans, Björn Dagbjartsson matvælafræðingur, taki á meðan sæti hans á Alþingi.

Ólafur G. Einarsson,

formaður þingflokks sjálfstæðismanna.“

Ég vil biðja þær kjördeildir sem hafa fengið til meðferðar kjörbréf Ellerts B. Schram, Garðars Sigurðssonar og Halldórs Blöndals að taka um leið til athugunar kjörbréf þeirra varamanna sem óskað er eftir að taka sæti þeirra á Alþingi nú, Geirs Hallgrímssonar, hæstv. utanrrh., varaþm. Ellerts B. Schram, Margrétar Frímannsdóttur oddvita, sem óskað er eftir að taki sæti Garðars Sigurðssonar, og Björns Dagbjartssonar, sem óskað er eftir að taki sæti Halldórs Blöndals, og taka afstöðu til kjörbréfa varamannanna eins og til kjörbréfa aðalmanna.

Fundarstaðir fyrir kjördeildir verða sem hér segir: Fyrsta kjördeild hér í fundarsal Nd., önnur kjördeild í fundarsal Ed. og þriðja kjördeild í flokksherbergi Sjálfstfl.

Ég bið hv. 3. þm. Suðurl. Árna Johnsen að kalla saman fyrstu kjördeild, hæstv. félmrh. Alexander Stefánsson að kalla saman aðra kjördeild og hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson að kalla saman þriðju kjördeild.

Nú verður gert hlé á þessum fundi á meðan kjördeildir starfa. — [Fundarhlé.]